Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Úr vörusmiðjunni.
Úr vörusmiðjunni.
Á faglegum nótum 30. nóvember 2020

Öflugur stuðningur við smáframleiðendur á Norðurlandi vestra

Höfundur: Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Norðurland vestra er eitt stærsta matvælaframleiðslusvæði landsins. Þar eins og víða um land hefur fullvinnsla bænda á afurðum aukist á undanförnum árum enda hefur það reynst ákjósanleg leið fyrir bændur til að auka virðisauka af framleiðslu sinni. Það er hins vegar mikil vinna í því fólgin og oft á sviðum þar sem þekkingu skortir. Þó varan sé tilbúin á eftir að markaðssetja hana og koma á markað og oft er það á því stigi sem skórinn kreppir hjá mörgum smáframleiðendum matvæla.  

Á undanförnum árum hefur, í samvinnu nokkurra aðila á Norðurlandi vestra, farið fram mikil vinna til að skapa umhverfi sem styður bændur og aðra smáframleiðendur í þessari vegferð. Nú er svo komið að innviðir í landshlutanum eru í stakk búnir til að fylgja smáframleiðendum eftir frá því að hráefnið verður til og þar til það er komið á disk neytandans. 

Upphafið

Segja má að upphafið megi rekja aftur til ársins 2015 þegar BioPol á Skagaströnd hlaut stuðning í gegnum störf Norðvesturnefndarinnar svokallaðrar til uppsetningar á aðstöðu fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki í matvælaframleiðslu. Þar gætu aðilar leigt vottaða vinnsluaðstöðu, dag og dag, til að vinna að framleiðslu sinni og vöruþróun. Hafist var handa við uppsetningu aðstöðunnar í lok árs 2016 og hún svo opnuð haustið 2017. Þórhildur M. Jónsdóttir matreiðslumaður var ráðin til að hafa umsjón með aðstöðunni og til að vera framleiðendum innan handar. Starfar hún enn við Vörusmiðjuna en einn af lyklunum að árangri verkefnisins liggur einmitt í góðu utanumhaldi og þeim drifkrafti sem einkennir starfsemi smiðjunnar.

Stuðningur úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra

Í framhaldinu var skilgreint, af stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), áhersluverkefni Sóknaráætlunar landshlutans sem bar heitið Beint frá býli og hafði það markmið að auka tekjur sauðfjárbænda á svæðinu með því að styðja bændur í að afla sér þekkingar á heimavinnslu matvæla, vöruþróun, markaðssetningu og sölu afurða. Verkefnið var unnið í góðri samvinnu SSNV, Vörusmiðju BioPol og Farskóla Norðurlands vestra. Með þeim fjármunum sem varið var til verkefnisins voru námskeiðsgjöld vegna námskeiðsins Beint frá býli niðurgreidd verulega árin 2018-2019. Farskólinn skipulagði námskeiðin og verklegi hlutinn var haldinn í Vörusmiðju BioPol. Þannig fengu þátttakendur auk námsins kynningu á þeirri aðstöðu sem í boði er í Vörusmiðjunni og hafa fjölmargir þátttakendur í námskeiðunum gerst tryggir viðskiptavinir Vörusmiðjunnar í framhaldinu. Bóklega námið byggðist á námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vörusmiðja – Beint frá býli, sem yfirfarin var og aðlöguð lítillega að þörfum bænda á svæðinu. Námskeiðið náði yfir haust- og vormisseri. Samtals luku 15 framleiðendur náminu en árið áður hafði Farskólinn skipulagt sambærilega námslínu og luku þá 18 nemendur námi.

Haustið 2018 var næsta skref í vegferðinni tekið þegar Farskólinn skipulagði röð sértækra námskeiða fyrir smáframleiðendur. Námskeiðin voru fjölbreytt, svo sem heitreyking og reyking á villibráð, paté- og kæfugerð, hrápylsugerð og fars-,  pylsu- og bjúgnagerð svo dæmi séu tekin. Aftur var samstarfið milli Farskólans og Vörusmiðjunnar með sama hætti. SSNV niðurgreiddi námskeiðsgjöld með fjármunum úr áhersluverkefninu sem skilgeint var 2017, svo hlutur þátttakandans í námskeiðgjaldinu var með allra minnsta móti. Námskeiðin voru almennt vel sótt og góður rómur gerður að þeim. Flest þessara námskeiða eru aftur í boði hjá Farskólanum nú á haustmisseri 2020.

… og hvað svo?

Eins og fram kom hér að framan reynist markaðssetning og sala framleiðslunnar smáframleiðendum oft erfið. Til að aðstoða bændur við að komast yfir þann þröskuld var Vörusmiðjunni veittur styrkur úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra í upphafi árs 2020 til uppsetningar á vefverslun þar sem vörur smáframleiðenda yrðu boðnar til sölu. Vefsíðan opnaði á haustdögum 2020 og hefur þegar fengið mjög góðar viðtökur. Þar er hægt að versla matvæli, fæðubótarefni, krem og fleira sem framleitt er á Norðurlandi vestra. Verslunin er aðgengileg á heimasíðu Vörusmiðjunnar www.vorusmidja.is. Með henni er komin upp ný sölurás fyrir framleiðendur en fæstir þeirra hafa burði til að opna sínar eigin vefverslanir. Vörusmiðjan hefur jafnframt bryddað upp á fleiri nýjungum í markaðssetningu, t.d. var fyrirtækjum á Norðurlandi vestra boðnir tilbúnir samsettir pakkar með vörum úr héraði til jólagjafa fyrir starfsmenn svo dæmi séu tekin.

Það var svo í mars 2020 sem ríkið veitti viðbótarfjármagni inn í Sóknaráætlanir landshlutanna. Í framhaldi af því ákvað stjórn SSNV að bæta fjármagni við þá úthlutun og veita allt að 50 milljónum króna í sértæk átaksverkefni til að sporna við áhrifum heimsfaraldurs í landshlutanum.  Kallað var eftir hugmyndum að verkefnum frá íbúum á svæðinu. Ein þessara hugmynda var Sölubíll smáframleiðenda, nokkurs konar sælkerabíll á hjólum og hlaut hugmyndin brautargengi og styrk upp á ríflega 5 milljónir króna. Eftir nokkurn undirbúning fór verkefnið af stað og í allt sumar var bíllinn á ferðinni um Norðurland vestra og seldi vörur smáframleiðenda á hinum ýmsu stöðum. Bíllinn kom við í helstu þéttbýliskjörnum en staldraði jafnframt við á fáfarnari stöðum, svo sem á Borðeyri, Ketilási í Fljótum og á Laugarbakka. Áætlun bílsins var vel auglýst með dreifibréfum í hús sem og á samfélagsmiðlum og eftir því sem leið á sumarið jukust viðskiptin jafnt og þétt. Undir lok sumars var svo ákveðið að halda rekstri bílsins áfram og mun hann til áramóta fara um svæðið einu sinni í mánuði. Salan hefur haldið áfram að aukast í þeim ferðum sem farnar hafa verið nú í haust og því ljóst að vitund íbúa á svæðinu er að aukast jafnt og þétt. Viðskiptavinir Sölubílsins koma aftur og aftur til að ná sér í hágæða vöru. Söluaðilarnir eru sömuleiðis ánægðir með þetta framtak enda verður hér til ný sölurás sem leitt hefur til þess að sumir hverjir hafa margfaldað sölu sína. Þessi leið hefur sömuleiðis verið framleiðendum hvatning til að nýta sér þjónustu Vörusmiðjunnar enda sjá þeir að þar fá þeir ekki bara aðstoð við framleiðsluna heldur líka við söluna. 

Lyklar að árangri

Það þarf margt að ganga upp til að svona heildstætt og stórt verkefni beri árangur. Það fyrsta er auðvitað fjármagn. Í þessu verkefni hefur fjármagnið komið frá nokkrum stöðum, beint frá ríkinu, úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra, frá BioPol sem rekur Vörusmiðjuna, frá Fræðslusjóði á formi niðurgreiðslu námskeiðsgjalda. Verkefnið er því gott dæmi um árangursríka samfjármögnun ólíkra aðila.

Árangurinn er ekki síst að þakka ómældu vinnuframlagi þeirra sem að koma, starfsmanna Farskóla Norðurlands vestra, Vörusmiðjunnar og BioPol. Ekki síst hafa bændur sjálfir lagt á sig mikla vinnu við nám og framleiðslu sem er að sjálfsögðu mikilvægasti þátturinn. 

Það næst enginn árangur ef að verkefnum sem þessum koma ekki aðilar með skýra sýn og mikinn eldmóð. Fjölmargir hafa að því komið og skulu tveir nefndir hér sérstaklega. Annars vegar Halldór Gunnlaugsson sem hefur verið verkefnisstjóri verkefnisins af hálfu Farskóla Norðurlands vestra. Hann hefur skipulagt þá kennslu sem fram hefur farið af mikilli og góðri innsýn og ekki síst áhuga á viðfangsefninu. Hinn aðilinn, sem er alger lykill að árangri verkefnisins, er Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnisstjóri Vörusmiðjunnar. Þórhildur er algerlega óþreytandi í stuðningi og hvatningu til framleiðenda á svæðinu. Hennar sérþekking og reynsla er framleiðendum ómetanleg og ef eitthvað eitt má læra af þessu verkefni þá er það nauðsyn þess að í  vottuðum vinnslurýmun af þessum toga sé forsvarsmaður sem brennur fyrir verkefninu og hefur kraft og ekki síst úthald til að þoka því áfram. 

Næstu skref

Vegferðinni er hvergi næri lokið á Norðurlandi vestra. Farskólinn heldur ótrauður áfram að bjóða námskeið og fræðslu til smáframleiðenda. Aðsókn í Vörusmiðjuna eykst jafnt og þétt. Vefverslunin heldur áfram að selja fyrir framleiðendur og Sölubíll smáframleiðenda heldur áfram að fara um svæðið. Sóknaráætlun landshlutans mun áfram styðja við verkefnið með myndarlegum hætti og fyrir árin 2020 og 2021 hefur verið skilgreint verkefnið Matvælasvæðið Norðurland vestra sem Vörusmiðjan mun hafa umsjón með og vinna náið með Farskólanum og framleiðendum á svæðinu til að efla fullvinnslu afurða enn frekar. Verkefni sem þetta samræmist enda vel áherslum Sóknaráætlunar landshlutans um fullvinnslu afurða, fjölgun vaxtarbrodda og stuðning við grunnstoðir atvinnulífs á svæðinu.

Það er ekki að ósekju að verkefnið hefur vakið athygli víða um land. Eins og sjá má af samantektinni hér að framan þurfa mörg púsl að raðast saman svo úr verði heildstæð mynd. Það er hins vegar fyllilega fyrirhafnarinnar virði þar sem ávinningurinn er mikill. Óhætt er að segja að í þessu verkefni hafi fjármunum verið vel varið til eflingar byggðar og aukinnar sjálfbærni í sveitum landsins. 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir,

framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga

á Norðurlandi vestra

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...