Jarðrækt og öflun fóðurs
Sífellt fleiri bændur sjá kosti þess að fá ráðgjöf í gegnum Sprotann – jarðræktarráðgjöf hjá Ráðgjafarmiðstöð land- búnaðarins, RML.
Hvort sem það er aðhald vegna skráninga í Jörð, heimsókn án komugjalds eða að hafa tengilið sem hægt er að ráðfæra sig við þegar spurningar vakna, þá er Sprotinn rétti staðurinn. Í Sprotanum hefur alltaf verið lögð áhersla á sveigjanleika til að mæta hverjum og einum í þeim jarðræktarverkefnum sem hver og einn finnur sig í á hverjum tíma.
Hring eftir hring
Sprota-árið byrjar að vori og endar í áburðaráætlun þar sem næsta vor er skipulagt. Áherslurnar hjá hverjum og einum geta verið aðeins breytilegar milli ára en viðfangsefnið er þó það sama, að standa sem best að þeirri ræktun sem á sér stað hverju sinni, að nýta sem best þau næringarefni sem til eru og áætla það sem upp á vantar og að standa rétt að skráningum fyrir lögbundið skýrsluhald. Út úr þessu öllu þarf svo að koma gott og mikið fóður sem aflað hefur verið á sem hagkvæmastan hátt.
Að keppa við sjálfan sig
Eitt af því sem gert er fyrir hvert bú í Sprotanum er að reikna og setja fram kostnað vegna áburðarnotkunar miðað við skráða uppskeru. Byggt á þeim tölum er hægt að bera saman bú og sjá hvar hver og einn stendur miðað við aðra þó svo forsendur geti verið ólíkar, sjá meðfylgjandi mynd.
Hér er gott að hafa í huga að gögnin verða aldrei betri en þær tölur sem þau byggja á enda er mjög mikilvægt að vanda skráningar til að þær nýtist sem allra best til að meta árangur einstakra þátta.
Sproti+
Ákveðið hefur verið að bjóða upp á nýjan ráðgjafarpakka, Sprota+, þar sem við sameinum jarðræktar- og fóðurráðgjöf einkum fyrir kúabændur. Hugsunin er að ná sem bestri heild í þessum nátengdu þáttum búskaparins í sama pakkanum.
Um er að ræða 15 klukkutíma pakka með tveimur heimsóknum sem yrðu án komugjalds, önnur tengd jarðræktinni og hin tengd fóðruninni.
Jarðræktarhlutinn er sá sami og nú er innan Sprotans en við bætist fóðurhluti sem felur í sér fóðuráætlun, túlkun á heyefnagreiningum, vöktun á efnainnihaldi mjólkur og nyt í Huppu ásamt heimsókn. Unnið er með hverju og einu búi af teymi starfsmanna RML til að ná fram þeirri sérþekkingu sem þarf í hvorn hluta fyrir sig.
Þannig gæti það verið að tveir ráðunautar yrðu tengiliðir við búið, annar vegna jarðræktar og hinn vegna fóðrunar. Það er von RML að með heildstæðum pakka sem þessum náist betri samfella og tenging milli öflunar fóðurs, innihalds og nýtingar þess.
Sérhver þáttur er hluti af heildinni
Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða ráðgjöf í Sprotanum þannig að hægt sé að þjónusta hvern og einn eftir þörfum þannig að hægt sé að leggja áherslu á það sem mestu máli skiptir hjá hverjum og einum.
Mikilvægt er að hafa í huga hvernig öflun fóðursins spilar inn í rekstur búsins og með hvaða hætti hægt er að ná góðri uppskeru af hverjum hektara. Gott er að geta rýnt í mikilvæga þætti með fagfólki og hugsanlega fengið fram önnur sjónarhorn við viðfangsefnunum.
Í lokin er rétt að benda á að auðvelt er að aðlaga ráðgjöf innan Sprotans að útiræktun á grænmeti.