Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Heysýni, vigtun og holdastigun
Á faglegum nótum 13. nóvember 2015

Heysýni, vigtun og holdastigun

Höfundur: Eyþór Einarsson Ábyrgðamaður í sauðfjárrækt
Miklar framfarir hafa orðið á síðustu áratugum hvað snertir aðbúnað, fóðuröflun og gjafatækni á sauðfjárbúum. Menning tengd fóðrun sauðfjár hefur þó ef til vill þróast mun minna eða fengið of litla athygli miðað við margt annað.  
 
Atriði eins og fóðuráætlanir, heysýnataka, vigtanir og holdstiganir eru þættir sem örugglega má efla umtalsvert með það fyrir sjónum að gera fóðrunina nákvæmari  og þar með bóndann öflugri í sínu fagi við að ná góðum afurðum eftir ærnar.  
 
Heysýni – Að þekkja gæði heyjanna
 
Tilgangurinn með því að taka heysýni er m.a. að þekkja betur gæði heyjanna og þar með að átta sig á því hvort þurfi að bæta þau upp með öðru fóðri og þá hvaða.  Fá svör við spurningum s.s. hvort besta heyið sé nógu gott? Hvað skal gera við stóra stabbann af fyrningum sem til er frá árinu á undan? Að þekkja gæði heyjanna er eitt af grundvallaratriðum í því að geta gert fóðuráætlun fyrir búið, hvort sem sú áætlun sé gróf hugmynd um nýtingu heyjanna í kolli bóndans eða faglega unnið plagg.
 
Niðurstöður heysýna geta einnig nýst við gerð áburðaáætlana. Í þessu sambandi er rétt að minna einnig á jarðræktarforritið Jörð (jord.is) þar sem er hægt að halda utan um þessar upplýsingar.  En Jörð er skýrslu­haldskerfi jarðræktarinnar líkt og Fjárvís er fyrir sauðfjárræktina.
 
Um töku heysýna, túlkun niðurstaðna og ráðgjöf varðandi nýtingu fóðursins eða fóðuráætlunargerð er hægt að leita til starfsmanna RML.  Hægt er að panta heysýnatöku á www.rml.is .
 
Vigtun ánna – hvernig fóðrast ærnar?
 
Ekki eru það ný vísindi að gagnlegt sé að vigta ærnar.  Í skýrsluhaldskerfi sauðfjárræktarinnar er gert ráð fyrir að skráðar séu þrjár vigtar á hverja kind. Ein að haustinu, önnur í janúar og þriðja vigtun sé framkvæmd í apríl.  Þunginn hefur þó engin áhrif á afurðaeinkunn ánna líkt og var hér áður fyrr. Með því að bera saman þungann á milli tímabila er hægt að leggja mat á hvort fóðrunin sé að heppnast samkvæmt vonum.  Með því að fylgjast svo markvisst með þungabreytingum þá eykur það verulega líkur á því að hægt sé að bregðast við í tæka tíð ef fóðrunin er ekki að heppnast sem skyldi eða ef einstaka ær eru að misgangast.  Sérstaklega er gagnlegt að fylgja eftir fóðrun lambgimbranna með þessum hætti þar sem þær eru yfirleitt bæði að taka út þroska og ala fóstur.
 
Á haustin þegar farið er yfir ærnar og athugað hverjar vantar og hverjar skal afsetja er góður siður að vigta.  Þá má framkvæma skoðun á holdafari ánna og júgurheilbrigði í vigtinni.  Haustþunginn gefur síðan viðmið fyrir næstu vigtanir.  Í janúar viljum við að ærnar hafi bætt aðeins við sig þunga því æskilegt er að þær séu í framför yfir fengitíðina. Hve mikil þyngingin skal vera fer m.a. eftir því hversu vænar ærnar eru að haustinu. Í apríl eiga ærnar að hafa þyngst verulega miðað við haustþungann þar sem fóstrið er farið að vega nokkuð og ærnar eiga að vera búnar að safna á sig holdum. Eðlilegt má teljast að ærnar þyngist um 7 til 15 kg miðað við haustþungan.
 
Útfærslur á vigtunum geta verið með ýmsu móti. Yfirleitt er fljótlegt að vigta þar sem sett hefur verið upp renna að vigtinni og ærnar verða fljótt viljugar að hlaupa í gegnum hana.  Þar sem tæknin leyfir má skrá vigtina beint inn í Fjárvís. Síðan þegar örmerkjavæðingin hefur náð ögn lengra verður vigtunin það fljótleg að tímaleysi verður vart afsökun.   Sumir kjósa að vigta oftar en hér er nefnt og fá þá þeim mun nákvæmari upplýsingar. 
 
Vigtanir voru algengari hér á árum áður og þá rekinn m.a. áróður fyrir þessu til að auka skilning manna á fóðruninni.  En áhugi fyrir þeim hefur fjarað út í tímans rás og áherslurnar lent annars staðar.  Gagnsemi þess að vigta er sú sama og áður og ætti að vera fastur liður á öllum sauðfjárbúum. Því má bæta við, að fyrir utan að auka skilning og veita upplýsingar um fóðrunina þá er hreinlega ákaflega gaman að vigta.
 
Holdastigun – mikilvægt að „grípa á þeim“
 
Vigtun ein og sér er ekki nægileg til þess að átta sig á ástandi ánna, en mjög góð til þess að fylgjast með breytingu milli tímabila. Það verður líka að taka á kindinni til þess að átta sig á holdafari hennar. „Stóra sleggjan“ í hópnum getur verið einna þyngst þótt hún sé í lélegum holdum.  Geri ég ráð fyrir að allflestir sauðfjárbændur stundi það að skoða holdafar ánna, a.m.k. við yfirferð á ánum að haustinu, hvort sem menn nota skilgreindan holdastigunarskala eða ekki.   
 
Í hinni vönduðu og vel heppnuðu bók, Sauðfjárrækt á Íslandi, sem kom út árið 2013, eru greinargóðar lýsingar á holdstigunarkvarðanum og útlistanir á því hvert sé æskilegt holdastig á hverju fóðrunartímabili.  Holdstigunarkvarðinn er frá 0 („ærin mjög horuð og að dauða komin“) til 5 („háþorn finnast ekki…“), notaður í heilum og hálfum stigum.  Tekið er ofan í spjaldhrygginn og það metið hversu vel háþorn og þverþorn finnast.  Algengt er að holdastig fullorðins fjár að hausti sé 2,5 til 3. Við fang er eðlilegt að ærnar séu í framför og holdastigð sé 3,0 til 3,5. Frá fangi og fram í mars er æskileg hægfara holdaukning.  Tveim vikum fyrir burð ættu þær að vera í kringum 4 á holdastigunarkvarðanum. En eftir þann tíma má búast við að ærnar fari aftur að tapa holdum þar sem orkuþörfin er orðin mjög mikil vegna fósturþroskans. Um fóðrun sauðfjár má fræðast mikið með því að lesa kafla Jóhannesar Sveinbjörnssonar í áðurnefndri bók, Sauðfjárrækt á Íslandi.
 
Æskilegt er að flokka ærnar í fóðurhópa strax að haustinu, líkt og flestir gera m.a. út frá aldri ánna. Með notkun vigtunar og holdastigunar er hægt að gera þessa flokkun mun nákvæmari. Allt snýst þetta um að fóðrunin leiði til þess að ærnar séu í sem bestu ástandi og skili sem mestum afurðum.
 
Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt:
Afkvæmaprófaðir þú veturgömlu hrútana?
Í sauðfjárræktinni nýtast afkvæma­dómar ákaflega vel þar sem ættliðabilið er svo stutt.  
Það er alþekkt hér á landi að besta aðferðin til þess að dæma veturgömlu hrútana m.t.t. skrokkgæða er að nota afkvæmadóminn.  Því nákvæmar sem staðið er að því að gera hópana samanburðarhæfa, því öruggari verður þessi dómur.
 
Nú er sá tímapunktur að bændur eru að ganga frá niðurstöðum afkvæmarannsókna frá yfirstandandi framleiðsluári og væntanlega farnir að huga að skipulagningu á prófun hrúta fyrir næsta ár.  
 
Til þess að efla bændur í því að prófa hrútana markvisst og auka hlutdeild veturgamalla hrúta í afkvæmarannsóknum þá hefur fagráð í sauðfjárrækt mælt með því að veittir séu styrkir úr þróunarsjóði sauðfjársamningsins til þátttakenda. Styrkurinn hljóðar upp á 2.000 kr. á hvern veturgamlan hrút í afkvæmarannsókn sem stenst eftirfarandi skilyrði:
 
Í afkvæmarannsókn skulu að lágmarki vera 5 veturgamlir hrútar (fyrir þetta haust er þá átt við hrúta fædda 2014).
  • Heimilt er að hafa eldri hrúta með í samanburðinum.
  • Hrútarnir hafi verið notaðir á sambærilega ærhópa.
  • Hver afkvæmahópur skal að lágmarki standa saman af 8 ómmældum og stiguðum lömbum og 15 afkvæmum með kjötmatsupplýsingar.  Krafan er að ómmældu lömbin séu öll af sama kyni.
  • Gengið sé frá afkvæma­rannsókninni inn í Fjárvís.is og tilkynning send á netfangið ee@rml.is fyrir 30. nóvember (athugið framlengdur frestur!)
Þá eru ráðunautar RML boðnir og búnir að veita aðstoð við þetta verk og túlkun niðurstaðna.

Skylt efni: Heysýni | viktun | holdastigun

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...