Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Árlegt fagþing nautgripa­ræktarinnar sem haldið var í Herning í Danmörku var mjög vel sótt, þrátt fyrir að nú væri rukkað fyrir aðgengið, sem ekki var gert síðast. Þarna komu fram miklar áhyggjur bænda af því að verið væri að flytja inn sjúkdóma með innfl
Árlegt fagþing nautgripa­ræktarinnar sem haldið var í Herning í Danmörku var mjög vel sótt, þrátt fyrir að nú væri rukkað fyrir aðgengið, sem ekki var gert síðast. Þarna komu fram miklar áhyggjur bænda af því að verið væri að flytja inn sjúkdóma með innfl
Mynd / SAGES
Á faglegum nótum 5. apríl 2018

Afar vel sótt fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Hið árlega fagþing nautgripa­ræktarinnar í Danmörku var haldið um síðustu mánaðamót og sem fyrr var þetta tveggja daga viðburður og einskonar blanda af aðalfundi nautgriparæktarhluta dönsku Bændasamtakanna og fagráðstefnu. 
 
Undanfarin ár hafa þátttakendur ekki þurft að greiða fyrir þátttöku en stjórn nautgriparæktarhluta Bændasamtakanna ákvað að vegna stöðugt aukins áhuga á fagþinginu, sér í lagi erlendis frá, yrði að fara að rukka fyrir þátttökuna og var því búist við því að heldur færri myndu koma og hlýða á framsögur á aðalfundinum eða hin fróðlegu erindi fagþingsins. Á daginn kom að það að rukka fyrir aðgengið, samtals um 15.000 íslenskar krónur, hafði lítil sem engin áhrif á áhuga bæði bænda og fagfólks að sækja fagþingið, enda er það þekkt fyrir mikla faglega dýpt og er trúlega það sterkasta á sínu sviði í norðurhluta Evrópu.
 
Alls keyptu 2.330 manns aðgöngumiða og er það einungis lítið eitt færri gestir en sóttu fagþingið árið 2017, en það ár var sem fyrr segir aðgengið ókeypis. Um helmingur gestanna voru bændur og þeirra starfsmenn.
 
Christiab Lund, formaður Landbrug & Fødevarer Kvæg, og Gitte Grønbæk hjá SEGES.
 
Vilja banna innflutning lífdýra
 
Líkt og undanfarin ár skiptist dagskrá fagþingsins í tvo hluta. Fyrri hlutinn er aðalfundur nautgriparæktarhluta Bændasamtakanna með tilheyrandi umræðum um stjórnmál, ytra umhverfi greinarinnar og kosningum í stjórn og sá síðari er svo fagþingið sjálft með ótal fróðlegum erindum. Skipulag aðalfundarins hefur verið eins undanfarin ár og hefur alltaf hafist með sameiginlegu erindi formanns og framkvæmdastjóra sem skiptast á því að fara yfir liðið ár og það helsta sem gerst hefur varðandi búgreinina. 
 
Formaður samtakanna, Christian Lund, og framkvæmdastjóri, Gitte Grønbæk, sáu um framsöguna en margt afar áhugavert kom fram í máli þeirra. Þó stóð upp úr ný stefna varðandi flutninga á lífdýrum sem snýst um að reyna að stöðva alla flutninga á lífdýrum til Danmerkur til þess að vernda danska nautgriparækt gegn mögulegum sjúkdómum í búfé. 
 
Þetta er tillaga sem gengur þvert á stefnu Evrópusambandsins og gæti verið erfitt að hrinda í framkvæmd en nálgun dönsku bændasamtakanna er þó afar áhugaverð og snýst um að ná víðtækri sátt og samstöðu allra fyrirtækja sem vinna úr afurðum nautgripa, þ.e. bæði kjöti og mjólk. 
 
Með því að ná samstöðu allra sláturleyfishafa og allra aðila í mjólkurvinnslu um að þessir aðilar taki ekki við afurðum frá búum sem hafa flutt inn lifandi gripi til landsins þá lokast næstum því sjálfkrafa fyrir innflutninginn enda erfitt að búa ef enginn tekur við afurðunum! Christian sagði m.a. að áhættan væri allt of mikil og á hverju ári komi upp einstök sjúkdómatilfelli í landinu sem tengjast innflutningi lífdýra og þrátt fyrir að yfirvöldum hafi tekist að koma í veg fyrir að smit hafi dreifst um landið þá sé áhættan of mikil og því sé eina ráðið að koma í veg fyrir innflutninginn. Undanfarin ár hefur þessi innflutningur þó ekki verið mikill, eða um 200 nautgripir á ári. Í tillögunum er lagt til að áfram verði þó heimilt að flytja inn bæði fósturvísa og sæði til þess að halda áfram öflugum kynbótum, enda mun minni áhætta á smiti fólgin í slíkum innflutningi.
 
Gott ár að baki
 
Árið 2017 reyndist hagfellt fyrir danska nautgriparækt, það sýna bráðabirgðaniðurstöður fyrir hið liðna ár. Kúm í landinu fjölgaði um 4% og meðalnyt þeirra jókst um 1,5%. Þá jókst greiðslugeta greinarinnar um 10% miðað við árið 2016 og nýttist hinn aukni slagkraftur bæði til fjárfestinga í greininni sem og til aukinnar launagreiðslugetu. Skuldastaða danskra kúabúa í mjólkurframleiðslu hefur verið erfið undanfarin ár en á árinu bættist sú staða umtalsvert og lækkuðu meðalskuldir danskra kúabúa um rúmar 30 þúsund íslenskra króna á hverja árskú og stóðu kúabú landsins því umtalsvert betur í árslok 2017 en á sama tíma árið 2016. Þrátt fyrir þessar breytingar á árinu er talið að um fimmtungur kúabúa landsins eigi undir högg að sækja og eigi í fjárhagsörðugleikum. 
 
Sé horft til kúabúa í nautakjötsframleiðslu reyndist árið 2017 einnig hagfellt og jókst framleiðsla búanna um 13% frá árinu 2016. Þá hefur lífrænt vottuð framleiðsla bæði á mjólk og nautakjöti aukist verulega og er litið á þá þróun sem afar jákvæða í Danmörku. Enn sem komið er, eru hinar lífrænt vottuðu vörur þó mest seldar á heimamarkaðnum en vaxandi eftirspurn erlendis eftir lífrænt vottuðum afurðum nautgripabúa er eitthvað sem danskar afurðastöðvar horfa í auknum mæli til.
 
Meðal framleiðslukostnaðurinn 39 kr./kg
 
Þrátt fyrir að árið hafi reynst gott fyrir nautgriparæktina í Danmörku þá hækkaði meðal framleiðslukostnaður mjólkur á árinu og var hann 2,37 danskar krónur að jafnaði eða um 39 íslenskar krónur á hvert kíló framleiddrar mjólkur. Þetta er hækkun um 9 danska aura frá árinu 2016 en skýrist fyrst og fremst af breytingu á danska skattkerfinu og ef sú breyting er tekin út fyrir sviga lækkaði framleiðslukostnaður mjólkurinnar á árinu. 
 
Í stefnumörkun fyrir mjólkur­framleiðslu Danmerkur hefur verið miðað við að framleiðslukostnaður mjólkur, til lengri tíma litið, þurfi að vera að jafnaði ekki meiri en 2,55 danskar krónur á kílóið eða um 42 íslenskar krónur eigi búgreinin að geta staðið sterk bæði gegn innflutningi sem og á alþjóðlegum markaði. Árið 2017 reyndust 70% allra kúabúa Danmerkur vera með framleiðslukostnað sem var lægri en 42 íslenskar krónur á kílóið og er því þorri búanna afar vel rekinn nú um stundir.
 
Skýr framleiðslumarkmið
 
Gitte Grønbæk, framkvæmda­stjóri samtakanna, kom inn á framleiðslumálin í máli sínu og sagði m.a. að til þess að dönsk mjólkurframleiðsla gæti staðið fjárhagslega sterk til lengri tíma þyrfti meðalnyt kúnna að hækka enn frekar. Markmiðið væri að meðalnytin, reiknuð sem orkuleiðrétt mjólk, færi í 12.000 kg á kúna og er nokkuð í land þar enda var orkuleiðrétt meðalnyt danskra kúa 10.603 kg um áramótin. Sé eingöngu horft til Holstein-kúa sem ekki eru nýttar í lífrænt vottaða framleiðslu var orkuleiðrétt meðalnyt 11.246 kg um áramótin. 
 
Þá sagði Gitte að stefna þurfi að því að stórauka hlutfall verðmætaefna mjólkurinnar og sagði hún að markmiðið þar væri að hver árskýr myndi framleiða að jafnaði 900 kg vermætaefna en um áramótin framleiddi meðalkýrin í Danmörku 793 kg verðmætaefna mjólkur. Þá sagði hún mikilvægt að auka endingu kúnna og með því að auka endinguna úr 2,5 mjaltaskeiðum í 3,5 mjaltaskeið megi vænta þess að framleiðslukostnaður mjólkur geti lækkað um 6-16 danska aura eða 1-2,5 íslenskar krónur á hvert framleitt kíló. Fyrir danskt meðalstórt kúabú myndi sá sparnaður svara til 2-5 milljónum íslenskra króna á ársgrunni.
 
Innflutningur ógnar nautakjötsframleiðslunni
 
Þrátt fyrir að búskapur gangi í raun vel í Danmörku þá er framleiðslukostnaður nautakjöts þar hærri en í mörgum löndum utan Evrópusambandsins og nýr fyrirhugaður samningur um tollfrjáls viðskipti á milli ESB og Mercosur landanna Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ veldur kúabændum í Danmörku miklum áhyggjum. Nautakjötsútflutningur skiptir þessi lönd afar miklu máli og hefur ESB þegar boðið löndunum 99 þúsund tonna kvóta í skiptum fyrir aðgengi með aðrar vörur frá löndum Evrópusambandsins.
 
Dagljóst er að ef þetta verður niðurstaðan í viðræðunum mun verð á nautakjöti, sem er mun lægra í framangreindum löndum Suður-Ameríku en í löndum Evrópusambandsins, lækka að því að talið er um 5,5% og er það mikið áhyggjuefni dönsku bændanna. Vegna þessa berjast dönsku Bændasamtökin nú fyrir því að vernda búgreinina með því að tryggja opinberan stuðning við framleiðsluna. Þá vilja þau að sett verði almennt þak á það hve miklu magni nautakjöts megi hleypa inn í ESB án tolla.
 
Samstaðan skiptir mestu máli
 
Í máli Christian kom fram sú skýra sýn stjórnar nautgriparæktarhluta dönsku Bændasamtakanna að samstaða bæði bænda og afurðastöðva nautgripaafurða væri grundvöllur góðs árangurs til framtíðar. Skipti þar engu hvort búin væru stór eða smá eða afurðastöðvarnar í lítilli framleiðslu eða mikilli. 
 
Samstaða bændanna og samvinna bæði þeirra og afurðastöðva landsins sé lykillinn að áframhaldandi vexti og sókn greinarinnar bæði innanlands og á erlendum mörkuðum og til þess að búgreinin geti staðið sterk til framtíðar þurfi að hlúa vel að henni.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...