Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kýr með nýborinn kálf sinn á bænum Hóli í Svarfaðardal.
Kýr með nýborinn kálf sinn á bænum Hóli í Svarfaðardal.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 4. ágúst 2021

Æskilegt er að bændur mæli broddmjólkurgæðin

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Það fyrsta sem kálfurinn ætti að setja ofan í sig eftir fæðingu er góð og hrein broddmjólk enda er hún sérstaklega hönnuð frá náttúrunnar hendi til að passa kálfinum og helstu næringarþörfum hans en broddmjólk er mjög næringarrík og gefur kálfinum kraftmikið upphaf lífsins. Þess utan er broddmjólk með aukið innihald af bæði A- og E-vítamínum, karótíni og ríbóflavíni auk þess sem hún er prótein- og fiturík.

Þegar kálfurinn fæðist er líkami hans alls óundirbúinn undir það umhverfi sem kálfurinn hefur fæðst inn í og ónæmiskerfi kálfsins er t.d. næsta óvirkt. Þetta hefur náttúran í raun leyst með því að með broddmjólkinni fær kálfurinn gnótt mótefna sem verja hann gegn mögulegum smitefnum, þ.e. sé broddurinn af góðum gæðum.

Broddmjólkin er sérstök

Próteininnihald broddmjólkur er allfrábrugðið því sem það er í mjólk á öðrum tímum mjaltaskeiðsins en þessi mjólk, sem breytist smám saman á 4-6 dögum, inniheldur mikið magn mysupróteina og einkum mótefna (immúnóglóbúlína). Þegar kýrin framleiðir þessa mjólk þá flytjast stórar próteinsameindir, einkum mótefnin, beint úr blóðrásinni yfir í mjólkina en þær hafa mikla þýðingu fyrir sjúkdómavarnir kálfsins.

Brodd þarf að gefa strax

Eftir því sem oftar er mjólkað, dregur hratt úr mótefnainnihaldi broddmjólkurinnar og eftir því sem lengra líður frá burði dvína gæði broddsins og því þarf að ná honum úr kúnni sem allra fyrst eftir burð. Að sama skapi þarf að gefa kálfinum broddmjólk skjótt eftir fæðingu en það skýrist af líffræðilegum ferlum í kálfinum. Mótefnin í broddmjólkinni geta nefnilega smogið í gegnum þarmavegginn hjá kálfunum fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu og í raun má segja að meltingarvegur kálfsins sé hálfpartinn lekur þ.e. líkaminn tekur inn í blóðrásina allt sem inn í meltingarveginn kemur. Þetta er einkar gott kerfi því mótefnaríkur broddur nýtist þannig líkama kálfsins hratt og vel, en að sama skapi þá er kálfurinn einkar viðkvæmur fyrir smiti á þessum tíma af nákvæmlega sömu ástæðu þ.e. ef t.d. örverur fara inn í meltingarveginn fara þær sömu leið og mótefnin og beint inn í blóðrásina. Af þessum sökum er mikilvægt að kálfurinn fæðist inn í eins hreint umhverfi og hægt er og allra helst ætti að tryggja að kálfurinn fái nægan brodd, sem er alls óvíst ef hann er eingöngu látinn sjúga kúna.

Virknin hættir hratt

Erlendis hefur verið gert töluvert af því að rannsaka áhrif broddmjólkurgjafa á kálfa og sérstaklega skoðað hvort kálfar sem gangi undir kúm séu betur settir en kálfar sem fá broddmjólkina gefna með pela eða sondu. Í ljós hefur komið að mestu áhrifin á magn mótefna, sem berast alla leið í blóðrás kálfsins, eru gæði broddmjólkur móður og því geta kálfar, sem ganga undir kúnum, ekki bætt sér upp tjónið af slökum gæðum broddmjólkur með því að drekka þeim mun meira.
Ástæðan er sú að þetta sérstaka upptökukerfi hins nýfædda kálfs hættir að virka nokkuð fljótt eftir fæðingu, þ.e. það lokast á þessa virkni þarmaveggjarins, og eftir 4-6 klukkustundir er kerfið þegar orðið hægvirkt. Brodd þarf því helst að gefa í nægu magni innan fjögurra klukkustunda eftir fæðingu og það er takmakað hvað kálfar sjúga mikið á þeim tíma og því er í dag mælt með því að bændur tryggi kálfunum nægan brodd.

Gæði broddmjólkur

Broddmjólk getur verið gríðarlega breytileg að gæðum og fer það eftir því hvort kýrin hafi verið í góðu jafnvægi fyrir burðinn eða ekki. Þá skiptir aldur einnig máli en þekkt er að broddmjólk hjá fyrsta kálfs kvígum er oft lakari að gæðum en hjá eldri kúm. En hvað eru góð gæði á broddmjólk? Gæðin eru fyrst og fremst mældi í magni þeirra mótefna sem mælast í broddmjólkinni en almennt, þegar talað er um mótefni, er rætt um IgG/lítra (immónuglóbúlín).

Almennt er miðað við að góður broddur eigi að innihalda a.m.k. 100 grömm af IgG/lítra en 50 grömm af IgG/lítra er þó ásættanlegt. Almennt er miðað við að til að tryggja að næg mótefni berist yfir í blóðrás kálfsins þurfi hann að fá 100-200 grömm IgG fyrstu klukkutímana eftir fæðingu, þ.e. a.m.k. 4 lítra af broddi sé hann ekki nema af ásættanlegum gæðum. Vegna þessa er almennt ráðlagt að gefa 2-3 lítra af broddmjólk í einu, fyrst strax eftir fæðingu og svo aftur eftir nokkra tíma til að tryggja að kálfurinn fá næg mótefni.

Stafrænn Brix mælir og til hægri hefðbundinn Brix mælir.

Mat á gæðum

Hér á landi er ekki jafn algengt og víða erlendis að mæla gæði á broddmjólk og kann skýringin á því að felast í því að smákálfasjúkdómar eru óalgengari hér en í mörgum öðrum löndum. Ennfremur var afar algengt að ala kvígur heldur hægt og áreynslulaust og láta þær koma inn í kúahjörðina í kringum tveggja og hálfs árs aldur eða jafnvel síðar. Fyrir vikið var lítil þörf á að keyra eldishraðann áfram en þegar það er gert þarf að hlúa að öllum þáttum eldisins, m.a. strax á fyrsta deginum í lífi kvígunnar.

Til þess að geta tryggt að kálfurinn fái næg mótefni með broddinum þarf að meta gæði hans og til eru tvenns konar aðferðir sem auðvelt er að nota. Annars vegar eru notaðir svokallaðir flotmælar og hins vegar Brix mælar en báðir gegna því hlutverki að áætla magn mótefnanna. Flotmælarnir eru einkar auðveldir í notkun (sjá meðfylgjandi myndir) og með einföldum aflestri má sjá hvort broddmjólkin sé í lagi eða ekki. Hinir mælarnir eru ekki síður einfaldir í notkun en þessir mælar gefa upp niðurstöður á svokölluðum Brix kvarða, en þessi kvarði mælir í raun þéttni hins mælda efnis (sjá meðfylgjandi myndir). Sé þéttnin 27% eða hærri er broddurinn af úrvals gæðum en sýni niðurstaðan lægri tölu en 22% er broddurinn ekki í lagi.
Broddmjólkur geymsla

Ef niðurstöður mælinganna sýna að broddmjólkin sé ekki nógu góð þarf að gera ráðstafanir til að bæta úr og má gera það með íblöndun broddmjólkurdufts eða með því að eiga broddmjólkurbanka, þ.e. eiga brodd sem mældist af einstaklega góðum gæðum í frysti.

Brodd í frysti má geyma í allt að 12 mánuði án þess að mótefnavirkni hans dvíni. Þegar slíkur broddur er sóttur, til að bæta kálfi upp slakan brodd frá móður, þarf að hita hann varlega upp en snögg upphitun getur skemmt mótefni broddmjólkurinnar og því til einskis unnið að gefa kálfinum broddmjólk úr broddmjólkurbanka.

Erlend reynsla

Gæði broddmjólkur hefur ekki verið mikið skoðuð á Íslandi en erlendis hafa verið gerðar margar rannsóknir á þessum þætti og nýverið var greint frá niðurstöðum sænskrar rannsóknar þar sem rannsakað var mótefnainnihald broddmjólkur frá 141 kú í 16 norskum og 4 sænskum lífrænt vottuðum kúabúum.

Þar kom í ljós að meðalgæðin voru ekki nema 39,4 grömm IgG/lítra og 77% broddmjólkurinnar var af gæðum sem var slakari en framangreind lágmarks gæði upp á 50 grömm IgG/lítra. Þessar niðurstöður sýna skýrt að mjög víða má bæta bústjórn á kúabúum. Þá var gerð rannsókn á magni mótefna í blóði kálfa í Noregi nýverið, en miðað er við að til þess að kálfurinn sé vel varinn gegn smitefnum þurfi mótefnamagnið í blóðinu að mælast að lágmarki 10 grömm IgG/lítra. Í rannsókninni kom í ljós að 30,8% allra kálfa var með of lítið magn mótefna í blóðinu 24-48 klukkustundum eftir fæðingu en þetta var þó gríðarlega breytilegt á milli búa.

Á sumum þeirra voru allir kálfar með mæld gildi hátt yfir viðmiðunarmörkum en á öðrum allt upp í 63% kálfanna undir viðmiðunarmörkum.

Með öðrum orðum þá skiptir bústjórn gríðarlegu máli hvað þetta atriði varðar, rétt eins og um nánast allt annað sem gerist á kúabúum nú til dags.

Flotmælir fyrir broddmjólk. 

Skylt efni: broddmjólk | mjólkurgæði

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...