Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Lifum & borðum betur!
Mynd / Einkaeign
Líf og starf 18. september 2023

Lifum & borðum betur!

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Yfirskriftina mætti kalla möntru Alberts Eiríkssonar, eins ástsælasta matgæðings okkar - sem ásamt manni sínum, Bergþóri Pálssyni flakkar reglubundið á milli heimila þeirra á Ísafirði og í Reykjavík.

Albert er ekki ókunnur nytjum landsins og var svo vænn að deila með okkur örlitlu af þeirri visku sem hann býr yfir og gott er að hafa bak við eyrað ef haldið er út fyrir mölina.

„Fjallagrös eru eitt þeirra skemmtilegu hráefna okkar lands,“ hefur Albert mál sitt, sem tínir þau og saxar gróft niður. Þau má meðal annars setja út í brauðdeig, segir hann, en mælir einnig með því að blanda þeim saman við múslí. Albert er svolítill múslí-maður og lumar á annarri dásemd sem hann mælir með við múslígerðina, en það er þurrkað hrat krækiberja.

„Fólk á að gleyma sér í berjum,“ heldur hann áfram, „þetta er svo mikill fjársjóður. Úr krækiberjum til dæmis höfum við Bergþór m.a. gert saft sem við frystum í klakapokum, notum þá í boost og annað, en tökum svo gjarnan hratið, þurrkum það og myljum svo út í múslí. Full nýting á krækiberjunum semsagt!“

Er kemur að sultugerð úr bláberjum minnir Albert svo á gamla húsráðið og þumalputtaregluna – að setja ekki hleypi í bláberjasultu heldur tína grænjaxlana með, enda eru þeir náttúrulegur hleypir. Meðfram berjatínslu hafa þeir Bergþór tínt örlítið blóðberg og notað sem krydd. „Það er bragðlítið, svona svolítið eins og timian, en smart þegar útlendingar eru í heimsókn, að geta boðið upp á íslenskt krydd úr náttúrunni með íslenska lambakjötinu,“ segir Albert brosandi.

Sveppapaté með meiru

„Sveppirnir eru svo eitthvað sem við tínum árlega, þá helst kúalubba og lerkisveppi. Kúalubbana nota ég í sveppapaté, sem er ægilega vinsælt og gott. Svo þegar ég elda fyrir útlendinga sem eru gjarnan í fjallgöngum – þá set ég þeim fyrir að læra að þekkja kúalubbana, tína þá og svo elda ég úr þeim. Þetta er borðað með bestu lyst enda gaman að borða það sem maður sækir sjálfur. Þá annaðhvort geri ég paté eða steiki sveppina úr smjöri, með eplum og balsamik, sem er hrikalega góð samsetning.

Svo er önnur skemmtileg nýting sem við erum hrifnir af – það eru hjón í Skagafirði sem hafa gefið okkur þurrkaða sveppi og þá er hægt að mala. Slíkt er gott að eiga og krydda með sósur og súpur. En það er endalaust hægt að nýta náttúruna,“ heldur Albert áfram.

„Konu þekki ég sem þurrkar nálar barrtrjáa, mylur og notar sem krydd. Þetta er bragðmikið og skemmtilegt. Fólk var kannski duglegra við að líta sér nær á árum áður, hvaða jurtir og plöntur væri hægt að nýta, en það er um að gera að taka þetta upp aftur. Endilega síðan að nota bara bakarofninn við þurrkun, við þurfum ekkert annað og ekkert að mikla hlutina fyrir okkur. Svo höfum við Bergþór stússast í moltugerð, frá okkur kemur afar mikið af lífrænum úrgangi og því upplagt að breyta honum í mold.

Eitt heillaráð sem má svo minna á er náttúruleg skordýravörn. Þeir sem hrifnir eru af rabarbara hafa ef til vill tekið eftir að þarna er um að ræða plöntu sem sér að mestu um að halda umhverfi sínu lausu við óværu. Því er ekki úr vegi að smella í rabarbarablaðasprey!“

Þá er soðið upp á rabarbarablöðunum og soðið notað. Fyllir Albert sjálfur 10 l pott af blöðum, lætur vatn fljóta yfir og sýður herlegheitin í tíu mínútur. Látið kólna í pottinum, blöðin sigtuð frá og soðið sett í spreybrúsa. Þeir sem vilja geta svo blandað í brúsann græn- eða brúnsápu svo loði betur við.

Steiktir sveppir með eplum og balsamik.

Holl og heilnæm fæða í forgrunni

Albert hefur staðið fyrir námskeiðum í nokkur ár þar sem viðfangsefnið er næringarríkur matur og venjur og hefur gegnum tíðina þróað ýmsar uppskriftir. Í dag er þetta í raun tvíbent, segir Albert, sem heldur næsta námskeið næsta mánudag, þann 11. september.

„Annars vegar eru þetta uppskriftir fyrir hvern dag í fjórar vikur og hins vegar eru þetta ýmis verkefni sem fólk leysir. Það er alveg nauðsynlegt að fara í smá naflaskoðun, sjá hvar maður er staddur í lífinu, hvert maður stefnir og hvort maður sé sáttur í eigin skinni. Horfa svolítið í spegilinn án þess að það eigi að vera flókið.

Í stuttu máli er námskeiðið afar einfalt, áhersla er á að borða alvöru mat. Ekkert framandi, þetta er hrein fæða, kjöt, fiskur og grænmeti, sumar mjólkurvörur – en eftir ákveðnu kerfi og boðið upp á einfaldar, auðveldar og fljótlegar uppskriftir að hollum mat. Engin boð og bönn, það má drekka kaffi og þess háttar, en við kannski drögum úr kolvetnum og svona ýmsu óæskilegu. Það er ekki verið að svelta sig, það er borðaður matur og enginn fer svangur að sofa,“ segir Albert með áherslu.

„Námskeiðið hefur reynst fólki gríðarlega vel og almenn ánægja með þetta. Persónulega finnst mér skemmtilegast að upplifa hvað fólk er tilbúið að gera sjálft og ekki síst hvað þetta reynist því auðvelt. Auðveldara en margur heldur. Upplýsingaflæði í dag er samt svo mikið að það er ekki skrýtið að fólk viti varla í hvorn fótinn það á að stíga. Eitthvað er hollt í dag sem er það svo ekki á morgun.“

Sjálfskoðun er öllum holl

Eru námskeiðin vanalega haldin á þann hátt að fólk hittist í upphafi, borðar saman og farið er yfir hlutina. Í lok viknanna fjögurrra er það svo endurtekið. Þessa dagana er Albert staddur á Ísafirði þannig að námskeiðið sem hefst þann 11. september verður með örlítið öðru móti og þá einungis yfir netið. Haldnir verða vikulegir netfundir þar sem farið er yfir stöðuna, enda hefur fólk svo gaman og gott af því að upplifa hvernig öðrum gengur.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér námskeiðið betur og jafnvel lesa umsagnir, má fara á veffangið www.alberteldar.is og leita þar að Lifum og borðum betur, en möguleiki er á að fá námskeiðsgjaldið endurgreitt frá stéttarfélagi.

Skráning er á netfanginu albert.eiriksson@ gmail.com, enda um að gera að fara í smá sjálfskoðun eða sjálfsumhyggju – og ekki verra að hafa gaman af því um leið.

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...