Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Svínabúið í Laxárdal II í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Á síðasta ári nam framleiðsla búsins um 150 tonnum af svínakjöti auk þess sem nágrönnum voru seldir 100 fráfærugrísir á mánuði.
Svínabúið í Laxárdal II í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Á síðasta ári nam framleiðsla búsins um 150 tonnum af svínakjöti auk þess sem nágrönnum voru seldir 100 fráfærugrísir á mánuði.
Mynd / HKr.
Líf og starf 5. mars 2021

Um 80% af fóðrinu er eigin framleiðsla

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Svínabúið í Laxárdal II í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er stofnað af hjónunum Herði Harðarsyni og Maríu Guðnýju Guðnadóttur árið 1978. Byrjuðu þau með eina gyltu í gömlu hesthúsi, en búið stækkaði ört. Í dag reka þau þar félagsbú ásamt syni sínum, Björgvini Þór, og tengdadóttur, Petrínu Þórunni Jónsdóttur, auk barna þeirra. Stjórn búsins er nú í höndum Björgvins.

Gylturnar eru orðnar um 160 í fjölskyldubúinu. Þótt mörgum Íslendingum þyki það nokkuð mikið, þá er stærsta svínabúið á Íslandi samt tíu sinnum stærra og með um 1.600 gyltur.

Afurðirnar frá Laxárdals­bændum þekkja Íslendingar vel undir nafninu Korngrís. Greinilegt er að neysluvenjur Íslendinga hafa breyst mikið á liðnum áratugum og er svínakjöt komið í annað sæti á vinsældalistanum yfir innlendar kjötafurðir, en markaðshlutdeild svína- og alifuglakjöts 2020 var tæp 58 prósent. Þannig hefur markaðshlutdeild þessara búgreina aukist í samræmi við auknar óskir markaðarins.

Samkvæmt nýjustu tölum atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytisins, sem birtar voru í síðasta Bændablaði, þá var sala á svínakjöti frá afurðastöðvum í öðru sæti á árinu 2020 með rúm 6.819 tonn. Þar var alifuglakjötið efst með rúm 9.038 tonn og kindakjöt í þriðja sæti með rúmlega 6.204 tonna sölu.

Björgvin Þór Harðarson, svínabóndi í Laxárdal. Mynd / Úr einkasafni

Þróunin mun halda áfram, hvíta kjötinu í hag

„Maður hefur verið að fylgjast með þessari þróun í breyttum neysluvenjum í mörg ár. Íslenska svínakjötið er nú komið fram úr kindakjötinu í heilsársneyslu og ef við tækjum líka inn í myndina innflutt svínakjöt þá er munurinn orðinn enn meiri.
Með aukinni fólksfjölgun í landinu verður áfram þörf fyrir framleiðslu á innlendum kjöta­furðum sem hægt er að bjóða á viðráðanlegu verði fyrir neytendur. Svína-, alifugla- og nautakjöt munu vega þungt í þeirri þróun, auk þess að skapa mikilvæg störf í sveitum landsins og í úrvinnslu afurða.“

Björgvin segir að svínaræktin njóti engra framleiðslutengdra styrkja en á rétt á stuðningi vegna jarðræktar.

„Framleiðni í greininni er tiltölulega góð, sem gefur aukið svigrúm í breytilegri fóðrun og fóðurefnum. Allt verður það að vera með heilbrigði og hollustu afurðanna í huga, auk þess sem samkeppnishæfni sé ekki misboðið. Sem dæmi um framleiðni þá eru ekki nema um þrjú stöðugildi við framleiðsluna í Laxárdal. Þar fyrir utan er svo kjötvinnslan í Árnesi. Þaðan er framleiðslan seld beint undir merkinu Korngrís. Á síðasta ári nam framleiðsla Laxárdalsbúsins um 150 tonnum af svínakjöti, auk þess seljum við nágranna okkar 100 fráfærugrísi á mánuði.“

Verðlagning á kjöti spurning um pólitískar ákvarðanir

Hann segir að víðast erlendis sé litið á kindakjöt sem sérstaka úrvalsvöru sem kosti eðlilega sitt og þar af leiðandi sé hlutdeild þess á markaði mun minni en hér, jafnvel 5–10%. Kindakjöt þyrfti auðvitað að vera verðlagt miklu hærra og í meira samræmi við tilkostnað við framleiðsluna. Útilokað sé að kindakjöt og nautakjöt geti keppt í verði við hvíta kjötið á markaðnum. Allt sé þetta þó spurning um pólitískar ákvarðanir um hvernig stjórnvöld vilji haga matvælaframleiðslunni í landinu.

Nýta íslenskt fóður að 80% hluta

Búið þykir nokkuð sérstakt þar sem svínin eru alin að mestu á íslensku fóðri. Um 80 prósent af öllu fóðri sem svínin í Laxárdal fá er ræktað í Gunnarsholti þar sem Laxárdalsbændur leigja um 250 hektara lands undir kornrækt. Annað er innflutt sojamjöl. Björgvin Þór segir að uppistaðan sé bygg og einnig hveiti og nepja. Uppskeran er um 600 tonn af byggi, um 150 tonn af hveiti og á milli 40 til 60 tonn af nepju.

„Við nýtum alla nepjuna og mölum hana í fóður. Svínin fá þar mjög kjarngott fóður þar sem bæði olía og hrat nýtist fullkomlega.“
Björgvin segir að þessi samsetning í fóðri með nepjunni komi mjög vel út.

„Það er heppilegt með mikilli byggnotkun að nota nepjuna þar sem hún gefur svo margar hitaeiningar á hvert kíló. Þannig getum við notað meira af byggi en ella. Dýrin þrífast vel og fitan er rík af æskilegum fitusýrum. Við erum með okkar eigin kjötvinnslu í Árnesi og mér finnst að það sé betra bragð af kjöti sem er af svínum sem hafa fengið nepju.“

Kornræktin hefur gengið vel

Kornræktin hjá Laxárdalsbændum hefur gengið mjög vel í gegnum árin. Árið 2007 hófst kornræktin í Gunnarsholti á Rangárvöllum, þar sem nægjanlegt land er til staðar, en í upphafi var ræktað á um 30 hekturum. Næstu ár var aukið við ræktunina jafnt og þétt. Komið var upp búnaði til að þurrka, geyma og flytja kornið. Einnig var fjárfest í tækjum til jarðvinnslu og sáningar.

Í dag er meginhluti ræktunar­innar bygg og hveiti eins og fyrr segir, en einnig fer ræktun á nepju vaxandi. Þá hafa verið gerðar tilraunir með ræktun á rúg og höfrum.

Árið 2017 var ræktað bygg á um 190 hekturum og nepju á um 40 hekturum. Þá voru gerðar tilraunir með hentugar aðferðir til að hvíla land sem er í stöðugri ræktun og hvaða ræktunaraðferðir hentuðu best.

„Ræktunin hefur gengið stóráfallalaust, en við höfum þó fengið hér tvö ár síðan 2007 sem gáfu slaka útkomu í kornræktinni. Þetta hefur því verið mjög stöðug ræktun og við höfum alltaf náð þroska í öllum tegundum, nema hveiti sem náði ekki þroska eitt sumarið.
Við erum líka í skiptiræktun á ökrunum og notum þá grasfræ og rauðsmára og áframleigjum við þau tún. Með þessu náum við að bæta landið í stað þess að vera með stöðuga kornrækt á sömu ökrunum ár eftir ár.“

Mögulegt að vera með 100% íslenskt fóður

– Þú segir að þið ræktið sjálfir korn í um 80% af ykkar fóðri, er mögulegt að vera með 100% íslenskt fóður?
„Nei, ekki enn. Við höfum nýtt sojamjöl með þessu þar sem það er mjög orkuríkt. Ég er samt að gera tilraunir með bóndabaunir og skoða hvað hægt er að gera. Ef maður færi út í að pressa nepjuna og ná olíunni úr fræjunum, þá væri hægt að gefa meira af nepju. Til að slíkt sé hægt þarf að koma upp ákveðnu vinnsluferli. Þegar búið er að pressa nepjuna er erfitt að geyma hratið því það þránar svo fljótt. Í raun þyrfti að koma upp vinnslustöð sem tæki nepjufræ í miklu magni frá bændum víða að og ynni olíu og fóður úr hratinu. Það fóður gæti svo mögulega komið í staðinn fyrir sojamjölið.“

Björgvin segir að pressun og vinnsla á nepju- eða repjufræi þyrfti að vera í fyrirtæki sem gæti þá sinnt mörgum bændum í einu. Óhagkvæmt sé að vera með slíka vinnslu heima á bæjum.

– Væri þá ekki tilvalið að bændur sameinuðust um rekstur á slíkri vinnslustöð?
„Það er ekki spurning,“ segir Björgvin. – „Þetta ætti að vera sér fyrirtæki sem keypti nepju víðs vegar að af landinu og ynni úr henni olíu og fóður. Olíuna má síðan nota til manneldis eða sem eldsneyti á dráttarvélar.“

– Sérðu fyrir þér að slíkt fyrir­tæki geti orðið að veruleika í náinni framtíð?
„Það gæti vel verið. Auðvitað snýst þetta þó allt um hversu vel gengi að selja framleiðslu slíks fyrirtækis. Svona rekstur er vel þekktur erlendis. Í Danmörku er t.d. hægt að kaupa svona unnið nepjumjöl og margar vinnslustöðvar eru að framleiða svona olíu. Ef þetta tækist og að ná að fóðra íslensk svín með 100% íslensku fóðri, þá væri sjálfbærni okkar framleiðslu orðin ansi mikil.“

Það væsir ekki um grísina í Laxárdal. Mynd / Úr einkasafni


Fylgja innleiðingu á reglum um dýravelferð og aðbúnað

Unnið er að því að breyta svínabúinu í Laxárdal í lausa­gönguhús samkvæmt nýjustu kröfum um dýravelferð.

Verið að byggja nýtt gyltu- eða gothús

Gotstíur eru af hefðbundinni gerð í Laxárdal eins og þekkist í Danmörku, en Laxárdalsbændur hófu samt byggingu á nýju og rúmbetra gyltuhúsi í fyrrasumar og er ráðgert að taka það í notkun á árinu 2021.

Gylturnar eru með grísina undir sér í 4 vikur og verður öll vinna við dýrin þægilegri í nýja húsinu. Þar munu gylturnar geta gengið lausar þegar grísirnir eru nægilega stórir.

Þegar grísir eru teknir undan gyltunum fara þeir fyrst inn á fráfærudeild. Þar eru grísirnir í 8 vikur, eða þangað til þeir eru um 30 til 40 kg. Þar hafa grísirnir frjálsan aðgang að þurrfóðri. Síðan fara þeir yfir í lokaeldið. Þar er þeim gefið fóður í blautu formi fjórum sinnum á dag, sem dælt er til þeirra eftir fóðurlögnum.

Passað er upp á að vel fari um grísina í stíum sem eru um 12 fermetrar. Í upphafi eru þar 16 grísir en er svo fækkað niður í 14 eftir því sem þeir stækka á eldistímanum. Við fimm og hálfs mánaðar aldur eru grísirnir svo sendir í slátrun og eru þá að jafnaði orðnir 100 kg að þyngd.

Björgvin segir að í nýja húsinu verði lausaganga og mun rýmra um grísi og gyltur. Við innleiðingu á erlendu regluverki verði stjórnvöld þó að gæta þess að fara ekki fram úr sjálfum sér og ganga lengra en reglur sem erlendir samkeppnisaðilar vinna eftir.

„Það verður að passa upp á að ekki sé verið að krefjast þess að við framkvæmum hér hluti við breytingar á búum sem hvergi hafa verið innleiddar og enginn veit hvernig á að framkvæma,“ segir Björgvin Þór Harðarson.

Búverk og breyttir tímar
Líf og starf 19. september 2024

Búverk og breyttir tímar

Búverk og breyttir tímar er ný bók eftir Bjarna Guðmundsson, áður prófessor við ...

Tjöldin dregin frá
Líf og starf 18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Áhugaleikhúsin fara nú að hefja leikinn enda haustið að skella á. Mikið verður u...

Korkubikarinn féll í hlut nýliðans Kríu
Líf og starf 17. september 2024

Korkubikarinn féll í hlut nýliðans Kríu

Helgina 24.–25. ágúst sl. fór Landskeppni Smalahundafélags Íslands, SFÍ, fram að...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 16. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að taka sig taki og gæta þess að velta sér ekki um of upp úr ra...

Nýting hrats og hýðis
Líf og starf 16. september 2024

Nýting hrats og hýðis

Heilmikið fellur til árlega af ávaxta- og grænmetshýði og nú sérstaklega berjahr...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Nú eru síðustu hátíðir sumarsins, eða öllu heldur haustsins, að líta dagsins ljó...

Ullarvika á Suðurlandi
Líf og starf 11. september 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi er nú haldin í þriðja sinn. Að Ullarvikunni standa Feldfj...

Sandlóa
Líf og starf 11. september 2024

Sandlóa

Sandlóa er ein af tveimur lóutegundum sem verpa hér. Stóru frænku hennar, heiðló...