Haförn
Haförn, ótvíræður konungur íslenskra fugla. Stærsti og jafnframt sjaldgæfasti ránfugl landsins með yfir 2 metra vænghaf. Vængirnir eru breiðir, ferhyrndir og eru ystu flugfjaðrirnar vel aðskildar. Þetta gerir þá auðgreinda á flugi, jafnvel úr mikilli fjarlægð þar sem þeir svífa þöndum vængjum í leit að bráð.
Ernir verða ekki kynþroska fyrr en 4-5 ára gamlir og parast fyrir lífstíð. Falli annar makinn frá getur það tekið mörg ár að finna annan maka. Varp og ungatími er nokkuð seinlegt ferli hjá erninum. Varpið hefst í apríl og verpa þeir oftast einu eggi en stundum tveimur eða jafnvel þremur. Oft kemst þó ekki nema 1 ungi á legg og hjá sumum fuglum misferst varpið jafnvel alveg. Ungarnir eru 35-40 daga að klekjast úr. Fyrstu 5-6 vikurnar eru ungarnir alveg háðir því að foreldrarnir mati þá. Þeir verða síðan ekki fleygir fyrr en um 10 vikna gamlir. Íslenski haförninn var nánast útdauður um 1960 en þá voru ekki nema 20 pör eftir þrátt fyrir að hafa verið alfriðaður um 1913. Síðan þá hefur stofninn vaxið en vegna þess hversu seint þeir verða kynþroska og fáir ungar komast á legg ár hvert er vöxturinn mjög hægur. Nú í dag er stofninn um 80-90 pör og á fjórða hundrað fuglar en stór hluti þeirra eru ungfuglar.