Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ýsa var það, heillin
Á faglegum nótum 11. júlí 2018

Ýsa var það, heillin

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Ánægjuleg tíðindi bárust þegar Hafrannsóknastofnun kynnti ráðgjöf sína fyrir veiðar á næsta fiskveiðiári fyrr í sumar. Stofnunin lagði til að ýsukvótinn yrði aukinn um 40% frá fyrra ári. Þetta er búhnykkur fyrir sjávarútveginn í heild og þau fyrirtæki sérstaklega sem byggja starfsemi sína að miklu leyti á ýsuveiðum.

Þótt þorskurinn sé sá fiskur sem einkum hefur skapað auðlegð á Íslandi hafa Íslendingar einhverra hluta vegna tekið ýsuna fram yfir þorskinn. Soðningin á íslenskum heimilum á síðustu öld var fyrst og fremst þverskorin ýsa. Þorskurinn hefur eitthvað unnið á en í neyslukönnun Matís 2011 hafði ýsan þó ennþá vinninginn. Þar kom fram að Íslendingar borða fisk sem aðalrétt að meðaltali um tvisvar sinnum í viku, þar af er ýsu neytt einu sinni í viku. Tíðni ýsuneyslu á mann reyndist vera fjórum til fimm sinnum í hverjum mánuði en þorskur var aðeins á borðum landsmanna tæplega þrisvar sinnum í mánuði. Nýrri könnun á fiskneyslu Íslendinga liggur því miður ekki fyrir.

Eitthvað rétt úr kútnum

Ýsustofninn var í niðursveiflu um tíma eftir 2008 og náði lágmarki að mati Hafrannsóknastofnunar fiskveiðiárið 2014/2015 þegar ráðlagður afli var aðeins 30.400 tonn. Ýsan hefur eitthvað rétt úr kútnum síðan. Á yfirstandandi fiskveiðiári var ráðlagður afli 41.390 tonn og fyrir næsta fiskveiðiár er ráðlagt aflamark ýsu 57.980 tonn, sem er 40% aukning eins og áður er getið. Í skýrslu Hafró segir að þessi aukning byggist á bættri nýliðun ýsu. Nýliðun 2ja ára ýsu árin 2010 til 2015 var mjög léleg en nýliðun 2016 er góð og nýliðun áranna 2017 og 2018 er nálægt meðaltali.

Hrygningarstofn ýsu hafði hins vegar stækkað á árunum 2001 til 2004 vegna nokkurra stórra árganga og jókst veiðin í kjölfarið eins og nánar verður vikið að.

Gæti gefið 3,6 milljarða

Eins og við var að búast hefur sjávarútvegsráðherra farið að ráðgjöf Hafró fyrir næsta fiskveiðiár í einu og öllu. Aflaverðmæti ýsu á Íslandsmiðum á almanaksárinu 2017 var tæpir 7,9 milljarðar króna. Meðalverð á landaðri ýsu var um 220 krónur á kíló. Miðað við óbreytt verð á ýsu gæti 16.500 tonna viðbót í kvóta þýtt um 3,6 miljarða aukningu aflaverðmæta.

Stækkandi búsvæði

Með hlýnandi sjó hefur búsvæði ýsu á Íslandsmiðum stækkað. Stofninn hefur fært sig að verulegum hluta norður fyrir land. Norðurmið hafa lengi verið mikilvægt uppeldissvæði fyrir ungviði ýsunnar en fyrir árið 2000 fór hún á önnur hafsvæði er hún náði kynþroska og veiddist því lítið fyrir norðan. Stofnmælingar Hafró benda til að hlutfall veiðistofns ýsu á norður- og austurmiðum hafi aukist úr 10 til 15% árið 2000 í tæp 50% árið 2008. Enn eru suður- og vesturmið þó þýðingarmestu veiðisvæðin en einungis fimmtungur aflans er veiddur fyrir norðan og austan þrátt fyrir að helmingur ýsustofnsins haldi sig þar.

Aukin ýsugengd fyrir norðan leiddi til vandamála hjá mörgum bátum sem veiða á grunnslóð, sér í lagi hjá smábátum. Sjómenn sem varla höfðu séð ýsu fyrir árið 2000 veiddu hana í miklum mæli sem meðafla við þorskveiðar. Þá þurftu þeir að leigja sér ýskvóta eða kaupa hann. Svo þegar ýsukvótinn var skorinn niður 2015 hagaði þannig til að krökkt var af ýsu á grunnslóð í Húnaflóa og víðar, þótt hún væri lítt sjáanleg á togslóð, og hvergi hægt að leigja kvóta. Ástandið var því þannig að menn gátu vart farið á sjó til að ná í þorskkvóta sinn því báturinn fylltist af ýsu sem ekki mátti veiða.

Einkum í troll og á línu

Á síðustu áratugum hafa orðið gagngerar breytingar á því hvernig ýsan er veidd. Fram til ársins 1996 voru 65 til 70% ýsuaflans tekin í botnvörpu að því er segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Um og innan við 15% voru veidd á línu fyrir 1995. Hlutdeild línu jókst jafnt og þétt árin 1996 til 2011. Árið 2017 fékkst 44% aflans í troll, 43% á línu, 12% í dragnót og aðeins 1% í önnur veiðarfæri. Línuveiðar Íslendinga jukust mikið um og eftir síðustu aldamót þegar beitningarvélin var tekin í notkun í stærri bátum. Auknar veiðar smábáta studdu líka þessa þróun en línan er þeirra aðalveiðarfæri. Tæp 90% ýsuaflans eru þannig veidd í troll eða á línu núna en þekkt veiðarfæri eins og net og handfæri komast varla á blað. Fyrir mjög löngu síðan var ýsa veidd í sérstök net í smáum stíl en í seinni tíð þekkjast þau ekki. Ólíkt þorskinum veiðist ýsan alls ekki á handfæri.

Tveir toppar

Framan af síðustu öld voru það aðallega erlend skip sem veiddu ýsu hér við land en Íslendingar sóttu smám saman í sig veðrið. Í meðalári gátu menn vænst þess að um 50 þúsund tonn veiddust en veiðin er nokkuð sveiflukennd til lengri tíma litið. Tveir stórir toppar hafa komið í veiðarnar. Sá fyrri var 1962 en þá fór aflinn í tæp 120 þúsund tonn, þar af veiddu íslensk skip rúm 54 þúsund tonn. Seinni toppurinn kom 2007 en þá veiddust tæp 110 þúsund tonn, þar af veiddu erlend skip tæp 1.800 tonn.

Tvö skip með 8,5% veiðinnar

Mikill fjöldi skipa og báta stunda ýsuveiðar. Flest stærri skipin taka ýsuna sem meðafla eða reyna sérstaklega við hana aðeins hluta úr veiðiferð. Þó eru nokkur skip sem veiða ýsa af krafti. Tvö skip hafa þar algera sérstöðu, togskipin Bergey VE og Vestmannaey VE sem Bergur-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, gerir út. Bergey VE veiddi um 1.550 tonn á almanaksárinu 2017  og Vestmannaey VE um 1.480 tonn. Samanlagt veiddu þessu skip rétt rúm 3 þúsund tonn, eða um 8,5% af ýsuafla íslenskra skipa á árinu.

Aflahæsti stóri línubáturinn er Fjölnir GK með um 540 tonn og aflahæsti smábáturinn er Kristinn SH með tæp 380 tonn. Krókaaflamarksbátar með fjórðung

Ýsuveiðar eru hlutfallslega mikilvægar fyrir smábáta í krókaaflamarkskerfinu. Hlutdeild þeirra í heildarkvóta ýsu er í kringum 15% ár hvert en hlutur þeirra í heildarveiðinni er mun stærri, eða tæp 25% að meðaltali síðustu 12 fiskveiðiárin, samkvæmt tölum sem Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigeinda hefur tekið saman. Skýringin á þessu er sú að smábátar leigja til sín árlega töluverðan ýsukvóta frá stærri skipum í aflamarkskerfinu. Þá njóta smábátar góðs af línuívilnun í ýsu og veiða einnig hluta af byggðkvóta. Krókabátar hafi leigt að meðaltali tæp 4 þúsund tonn af ýsu á ári frá stærri bátum síðustu 12 fiskveiðiárin. Hafa ber í huga að einhver hluti af þessari tilfærslu á ýsukvóta er milli smábáta og aflamarksskipa sem eru í eigu sömu útgerða.

Örn Pálsson hefur reiknað út verðmæti þessara viðskipta á verðlagi hvers árs. Niðurstaða hans er sú að verðgildi heimilda sem flust hafa til krókaaflamarksbáta frá aflamarksútgerðum fyrir leigu á ýsu hafi numið alls tæpum 6 milljörðum króna á síðastliðnum 12 fiskveiðiárum.

Ýsa var það, heillin

Fyrirsögn þessarar greinar er orðatiltækið „ýsa var það, heillin“ sem mörgum er tamt á tungu. Það er sótt í eina af þjóðsögum okkar sem í sjálfu sér er ekki merkileg en orðatiltækið hefur lifað allt fram á þennan dag óháð uppruna þess. Þjóðsagan er á þessa leið:

Einu sinni mættust tvær kerlingar á ferð. Þær áttu heima langt hvor frá annarri, svo þær þurftu nú svo sem að setjast niður og segja hvor annarri tíðindi úr sinni sveit. Þær sáu, að þær gátu slegið tvær flugur í einu höggi, svo þær tóku upp hjá sér sjálfskeiðunga og mat og fóru að fá sér bita.

Þeim bar nú margt á góma, og meðal annars segir önnur kerlingin, að það hafi nýlega rekið fjarskalega fágætan fisk í sinni sveit. Hin spyr, hvaða fiskur það hafi verið, en það man hún ómögulega. Þá fer hin að telja upp ýmsa fiska, sem hún mundi eftir, en aldrei átti hún kollgátuna.

„Ekki vænti ég, það að hafi nú verið stökkull?“

„Og sussu nei.”

„Það skyldi þó aldrei hafa verið marhnútur?“

„Vertu í eilífðri náðinni, ekki hét hann það.“

„Það hefur þó víst ekki verið skata?“

„Issi, sissi nei.“

„Nú, það mun þó ekki hafa verið ýsa?“

„Jú, ýsa var það, heillin,“ sagði þá hin og hnippti í lagskonu sína, en til allrar óhamingju mundi hún ekki eftir því, að hún var með opinn hníf í hendinni, svo hnífurinn fór á hol í síðuna á hinni kerlingunni, og sálaðist hún þar að vörmu spori.

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...

Hveitikynbætur alger nýlunda
Fréttir 8. nóvember 2024

Hveitikynbætur alger nýlunda

Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er verið að hefja vinnu að hveitikynbótum í f...

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi
Fréttir 7. nóvember 2024

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi

Japanskt fyrirtæki hyggst bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu sína á ...

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd
Fréttir 7. nóvember 2024

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd

Drög að nýjum verðlagsgrunni kúabús liggja fyrir, sem er uppfærsla á grunninum f...

Jafnvægisverð lækkar áfram
Fréttir 7. nóvember 2024

Jafnvægisverð lækkar áfram

Á markaði með greiðslumark í mjólk, haldinn 1. nóvember, myndaðist jafnvægisverð...

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi
Fréttir 7. nóvember 2024

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi

Nýtt kjúklingframleiðsluhús er á teikniborðinu á Miðskógi í Dölum, sem verður sö...

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn
Fréttir 7. nóvember 2024

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn

Áfram heldur þeim lömbum að fækka sem koma til slátrunar ár hvert. Í liðinni slá...