Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vottuð framleiðsla og nýting aukaafurða
Mynd / HKr.
Skoðun 14. febrúar 2019

Vottuð framleiðsla og nýting aukaafurða

Höfundur: Einar E. Einarsson formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, einaree@simnet.is

Ég leyfi mér að fullyrða að engin búgrein á Íslandi er í jafnmikilli alþjóðlegri samkeppni og minkaræktin hefur verið í gegnum árin.  Minkaskinn eru framleidd í rúmlega 30 löndum víðs vegar um heiminn.  Stærstur hluti framleiðslunnar er seldur við hamarshögg í uppboðshúsum hér í Evrópu eða vestan hafs.  

Í uppboðshúsunum eru skinnin flokkuð óháð uppruna og síðan seld í einsleitum búntum þar sem öll skinn í viðkomandi búnti eru eins af gæðum, stærð, lit o.s.frv.  Okkar markmið sem bænda er því alltaf að framleiða og skila af okkur skinnum sem flokkast í búntin sem seljast á besta verðinu hverju sinni. Þetta eru frjáls viðskipti þar sem framboð og eftirspurn ráða verðmyndun skinnanna. Kaupendur fá skinnin flokkuð ef þeir versla í gegnum uppboðshús og fá þá um leið tryggingu fyrir því að uppruni skinnanna sé frá búum með vottaða og viðurkennda framleiðslu þar sem umhirða og aðbúnaður dýranna er eins og best verður á kosið.  

Ekki allir vottaðir

Hluti framleiðenda í heiminum selur hins vegar beint til saumastofa eða sjálfstætt starfandi kauphéðna/kaupsýslumanna sem gera engar kröfur um upprunamerkingar. Seljendurnir eru oft og tíðum bændur í fjarlægum löndum sem ekki fá leyfi til að selja á uppboðshúsum í t.d. Evrópu vegna þess að þeir starfa fyrir utan öll lög og reglur um aðbúnað og velferð dýra.

Hér í Evrópu kemur af og til upp umræða um að banna minkarækt, samanber umræðuna í Noregi núna. Ekki er ennþá ljóst hvernig norska þingið muni ljúka því máli en hitt er ljóst að það er ekki verið að banna notkun á skinnavörum í Noregi, heldur einungis að banna framleiðslu þeirra í landinu. Engar hugmyndir eru um hertar kröfur um uppruna skinnavara sem fluttar eru inn. Þeir sem krefjast bannsins eru því fyrst og fremst að vinna gegn dýravelferð og koma í veg fyrir að skinnin sem notuð eru í heiminum komi frekar frá vottuðum bændum hér í Evrópu. Að mínu viti er þetta röng þróun, en dýravelferð er í hávegum höfð í Noregi, búin eru flest lítil og framleiðslan persónutengd eins og hér á Íslandi.

Minkarækt er umhverfisvæn

Minkarækt er eins og hver önnur búfjárrækt, það þarf að ala dýrin og passa að bæði aðbúnaður og hirðing sé eins og best verður á kosið. Eldisminkurinn hefur verið í búraræktun frá því fyrir árið 1900, ættliðabilið er stutt og því gengur ræktunin hratt sem gerir ræktunarstarfið spennandi. Við fram-leiðslu á hverju skinni eru notuð um 53 kg af fóðri, þar af eru tæp 50 kg af afskurði frá matvælavinnslu, mest sláturhúsum og fiskvinnslum. Þetta eru í flestum tilfellum hráefni sem ekki nýtast í aðra matargerð og væru því oftast urðuð ef þau væru ekki nýtt í fóðurgerð. Nú er það eitt af markmiðum aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál að banna urðun á lífrænum úrgangi en það ferli byrjar á næsta ári með skattlagningu, að lágmarki 10 kr. á kg af urðuðum lífrænum úrgangi. Í framhaldinu verður svo bannað með öllu að urða lífrænan úrgang á Íslandi samkvæmt áðurnefndri aðgerðaáætlun um loftslagsmál. Hér gæti minkaræktin og fóðurstöðvarnar lagt sitt á vogarskálarnar því það hlýtur að vera skynsamlegt að nýta þetta  hráefni í fóður til að ala dýrin og skapa þannig útflutningsverðmæti og um leið atvinnu á landsbyggðinni.  Skíturinn frá búunum nýtist einnig vel sem áburður á tún eða til uppgræðslu.     

Lítil umræða

Um þessa fyrirhuguðu gjaldtöku er samt ekki mikil umræða í gangi en þegar hún skellur á þá mun sá skattur ekki fara neitt annað en til enn frekari hækkunar á matarverði til neytenda eða til lækkunar á afurðaverði til bænda.  Hér er því kjörið tækifæri fyrir fóðurstöðvar sem framleiða minkafóður og afurðastöðvar að taka höndum saman og efla úrvinnslu þessara hráefna í fóðurstöðvunum en þar er ákveðinn grunnur til af bæði tækjabúnaði og þekkingu í meðferð á hráefnum sem þessum.  Fóðurstöðvar framtíðarinnar gætu því haft það að markmiði að safna lífrænum úrgangi frá matvælavinnslunni og finna honum annan farveg en að hann sé urðaður. Framleiðsla minkafóðurs gæti verið stór þáttur í þessari nýtingu en síðan má þróa hluti eins og framleiðslu á gæludýrafóðri og/eða flytja út flokkuð hráefni til fóðurgerðar eða frekari vinnslu erlendis. 

Það er allra hagur að við sem stöndum í búvöruframleiðslu á Íslandi vinnum saman og horfum á stóru heildarmyndina. Það munar um hvert starf og því betur sem við náum að nýta allt það sem við framleiðum, því betra er það fyrir umhverfið og það hagkerfi sem við lifum í.

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar
Fréttir 19. janúar 2022

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar

Samningur um smíði á 1.100 fermetra viðbyggingu við Flug­stöðina á Akureyri var ...

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár
Fréttir 19. janúar 2022

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár

Hjalti Pálsson frá Hofi, ritstjóri og aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar, skil...

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi
Fréttir 19. janúar 2022

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp um raforkuöryggi....

Ný reglugerð um velferð alifugla
Fréttir 19. janúar 2022

Ný reglugerð um velferð alifugla

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um velferð alifu...

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir
Fréttir 18. janúar 2022

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir

Gengið var frá kaupsamningi undir lok síðasta árs um jörðina Kálfaströnd (Kálfas...

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins
Fréttir 18. janúar 2022

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins

Það hefur vakið athygli að Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, h...