Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Vörn og sókn
Leiðari 29. maí 2015

Vörn og sókn

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Verkfallsaðgerðir Bandalags háskólamanna hafa nú staðið frá 7. apríl eða í rúmar sjö vikur. Verkföllin sem bitna mest á landbúnaðinum, dýralæknar og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn Matvælastofnunar hafa staðið frá 20. apríl, eða í tæpar sex vikur.    

Ítarlega hefur verið fjallað um áhrif verkfallanna í síðustu tveimur leiðurum blaðsins og það skal ekki endurtekið nú, en halda verður því til haga að dýralæknar hafa á síðustu dögum komið til móts við sjónarmið bænda. Það hafa þeir gert með því að samþykkja undanþágur fyrir slátrun alifugla og svína án þess að skilyrða að allar afurðir séu frystar og ekki settar á markað.

Það er gert með hliðsjón af dýravelferð, til að bændum séu tryggðar einhverjar tekjur til að eiga fyrir fóðri og öðrum nauðsynlegum aðföngum. Þetta aukna svigrúm kemur til móts við mesta bráðavandann á því sviði.  Heimildirnar eru þó enn takmarkaðar og fyrir liggur að búin hafa orðið fyrir miklu tjóni og það fer vaxandi hvern dag sem verkfallið stendur. 

Þegar samningar loks nást er áhrifunum hjá bændum hvergi nærri lokið. Það mun taka langan tíma að komast yfir þau. Á sama tíma ættu bændur að vera í fjárfestingum og endurbótum m.a. til að uppfylla kröfur nýrra aðbúnaðarreglugerða sem tóku gildi undir lok síðasta árs. Fyrir lá að ráðast þyrfti í dýrar aðgerðir vegna þeirra krafna en margra vikna tekjuleysi mun eðlilega hafa mjög neikvæð áhrif á getuna til að uppfylla þær.

Þá er einnig rétt að taka fram að BHM hefur á öðrum sviðum sýnt sjónarmiðum landbúnaðarins skilning t.d. með því að veita undanþágur til innflutnings á frjóeggjum til varphænsna og kjúklingaræktar, sem og til innflutnings sáðvöru og lífrænum vörnum til nota í garðyrkju. Þar er um að ræða aðföng sem eru mjög mikilvæg fyrir viðkomandi greinar. Fáist þau ekki hefði það afar neikvæð áhrif á framleiðslugetu greinanna, í sumum tilvikum langt fram á næsta ár. Ekki hefur þó allt gengið eftir. Til dæmis hefur ekki fengist undanþága til innflutnings á kynbótadýrum í loðdýraræktinni sem hefur veruleg langtímaáhrif í þeirri grein fáist hún ekki. Þá hefur heldur ekki fengist undanþága til að lesa af röntgenmyndum af hækillið stóðhesta (spattmyndum)  sem kemur í veg fyrir að hægt sé að skrá þá á kynbótasýningar.  

Síðustu daga virðist þó heldur farið að rofa til í kjaraviðræðum á almennum markaði.  Starfsgreinasambandið frestaði verkfalli sínu á dögunum, þó nú styttist í það að nýju. Þá standa vonir til þess að það sjái til lands í viðræðum VR og Flóabandalagsins, eftir að þeirra verkföllum var nýlega frestað um fimm daga. Þessi félög hafa sýnt ábyrgð með því að fresta aðgerðum þegar vonir eru um árangur. Því ber að fagna og vonandi takast samningar sem allra fyrst. Það er allra hagur. Það verður þó alltaf að hafa í huga að semja aðeins um það sem er raunveruleg innistæða fyrir.  Hversu há innistæðan er, verður ávallt deilt um, en það langar engan í verðbólguárin aftur.   

Báðir aðilar þurfa að gefa eftir 

Þessi hreyfing virðist þó ekki enn ná til opinbera geirans. Þar hefur lítið gengið og stífni verið mikil á báða bóga. Hér skal engin afstaða tekin til þeirra krafna sem þar liggja á borðinu enda hafa þær ekki verið birtar, en ljóst má vera að báðir aðilar þurfa þar að gefa eftir ef samningar eiga að nást.  

Það er reyndar frekar undarlegt regluverk sem gefur almenna markaðnum fullt svigrúm til að fresta aðgerðum eftir þörfum en gerir ekki ráð fyrir að opinberir starfsmenn geti gert hið sama.

Það er allavega fyllsta ástæða til að endurskoða baráttuaðferðirnar þegar að verkfall hefur staðið í sjö vikur án þess að nokkuð gangi. En hér skal enn ítrekuð sú von og vilji að samningar náist.  

Matvælalandið Ísland

Samstarfshópur um Matvælalandið Ísland efndi til fjölsóttrar ráðstefnu um útflutning matvæla í Bændahöllinni í síðustu viku. Markmiðið með ráðstefnunni var að vekja athygli á tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar í matvælageiranum með útflutningi, miðla reynslu og hvetja þannig fleiri til að vinna með markvissum hætti að því að sækja á erlendan markað með matvælaafurðir. 

Efni ráðstefnunnar var tvískipt. Í fyrri hluta fjölluðu sérfræðingar um þá vinnu sem þarf að inna af hendi áður en ráðist er í útflutning eins og mikilvægi þess að marka sér skýra stefnu áður en haldið er af stað og framfylgja henni. Fjallað var um kröfur erlendra kaupenda og hvernig hægt sé að mæta þeim. 

Áreiðanleiki, stöðug gæði, góð þjónusta og öruggt framboð árið um kring eru lykilatriði til að viðhalda viðskiptasamböndum. Geti maður ekki staðið við gerða samninga og missi þannig traust kaupenda er mjög erfitt og kostnaðarsamt að byggja það upp aftur.  Enn fremur var ítrekað mikilvægi þess að afla gagna til að sýna fram á hreinleika og öryggi afurða.

Í síðari hluta ráðstefnunnar sögðu nokkur fyrirtæki úr ólíkum greinum frá reynslu sinni af útflutningi matvæla, hindrunum sem þarf að yfirstíga og lykilárangursþáttum. Samhljóma álit þeirra var að samvinnu þyrfti að auka til að miðla reynslu og draga úr kostnaði. Öll vilja þau leggja áherslu á sérstöðu landsins, sögu og menningu við markaðssetningu íslenskra matvæla til erlendra kaupenda.

Við eigum þarna fjölmörg ónýtt tækifæri ef við berum gæfu til þess að vinna skipulega og sameiginlega að þeim. Markmiðið þarf að vera að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar. 

Vonandi verður samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leggja 80 milljónir króna á ári til Matvælalandsins Íslands næstu fimm árin þungt lóð á þær vogarskálar. Þarna eigum við að sækja fram.

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022
Fréttir 24. janúar 2022

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022

John Deere 7R 350 AutoPowr er dráttarvél ársins 2022 í opnum flokki að mati evró...

KFC fékk mest úthlutað
Fréttir 24. janúar 2022

KFC fékk mest úthlutað

Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hefur birt niðurstöðu úthlutunar á tollkvó...

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 t...

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði
Fréttir 21. janúar 2022

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um nokkurt skeið unnið að því að koma til móts...

Gat á sjókví í Reyðarfirði
Fréttir 21. janúar 2022

Gat á sjókví í Reyðarfirði

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um ga...

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar
Fréttir 19. janúar 2022

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar

Samningur um smíði á 1.100 fermetra viðbyggingu við Flug­stöðina á Akureyri var ...