Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Syðri-Fljótar í Meðallandi þar sem Kristín og Guðbrandur búa.
Syðri-Fljótar í Meðallandi þar sem Kristín og Guðbrandur búa.
Mynd / aðsendar
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallandi, hafa staðið í ströngu við að verja þinglýstar eignir sínar fyrir ágangi ríkissjóðs Íslands. Þó sjái fyrir endann á þeirra málum segir Kristín aðra landeigendur standa í sömu sporum.

Fyrir 26 árum keyptu þau Kristín og Guðbrandur tvær jarðir, Slýja og Syðri-Fljóta í Meðallandi en jarðirnar eru á milli 4.000 og 5.000 hektarar að stærð.

Við kaupin kemur fram að Sigríður Sveinsdóttir, sem var eigandi jarðarinnar til ársins 1952, hafi afhent Landgræðslunni til eignar nokkra girta hektara árið 1944. Þessir fáu hektarar eru þinglýstir á Landgræðsluna árið 1945.

„Við sameinum jarðirnar síðan árið 1998 með undirskrift úr landbúnaðarráðuneytinu og heitir bærinn í dag Syðri-Fljótar. Allt er þetta þinglýst á okkur sem og landamerki milli annarra jarða og hægt að fá upplýsingar um það hjá sýslumanni. Í kringum 1954 hafði Landgræðslan, þó aðallega bændur í Meðallandinu, girt girðingu á milli Kúðafljóts og Eldvatns. Þegar við flytjum hingað þá sést lítið sem ekkert af þessari girðingu. Henni hafði ekki verið haldið við svo áratugum skipti og löngu hætt að gegna sínu hlutverki,“ segir Kristín og tekur það fram að Landgræðslan hafi aldrei stundað landgræðslu eða hirt um landið síðan elstu menn muna.

„Skáru kannski mel og keyrðu í burtu og sáðu annars staðar.“

Hafa greitt alla skatta og skyldur

Kristín segir að síðan þau eignuðust Slýja og Syðri-Fljót, hafi þau borgað alla skatta og skyldur af jörðunum. Búturinn úr Slýjalandinu, sem er í eign Landgræðslunnar, sé enn á þeirra landnúmeri.

„Landgræðslan hefur ekki í þau áttatíu ár sem hún hefur haft bútinn úr landi Slýja til umráða komið því í verk að setja á það landnúmer.“

Fyrsta aðförin árið 2015

Það var síðan árið 2015 að Sveinn Runólfsson, þáverandi landgræðslustjóri, kemur í heimsókn til þeirra Kristínar og Guðbrands og segir að Landgræðslan eigi Slýjaland sem Kristín og Guðbrandur eru þó þinglýstir eigendur að.

„Hann kemur með útprentað landamerkjakort með landamerkjum sem var alveg út úr kú. Þar var ekki farið eftir neinum þinglýstum landamerkjum og það vantaði inn á kortið sumar af okkar nágrannajörðum. Allt var þetta undirskrifað af Sveini. Á kortinu er búið að merkja að Landgræðslan eigi Slýjana en ekkert kemur fram á kortinu í þetta skipti að hún eigi Fljóta en það kemur inn seinna,“ segir Kristín. Hún bætir við að þau hafi fengið send þrjú eða fjögur landamerkjakort frá Landgræðslunni sem eru aldrei með sömu landamerkjunum og með sumum þeirra fylgdi greinargerð undirrituð af Sveini.

„Eru þetta trúverðug vinnubrögð?“ spyr Kristín.

Kristín Lárusdóttir ásamt fjölskyldu sinni þegar hún varð heimsmeistari í tölti árið 2015 á gæðingnum Þokka frá Efstu-Grund. Þau voru nýkomin heim úr þeirri fræknu ferð þegar Sveinn Runólfsson, þáverandi landgræðslustjóri, kom í heimsókn til þeirra í Meðallandið.

Undirritað af látinni konu

Eftir heimsókn Sveins gerðu þau Kristín og Guðbrandur ekkert í málunum því þau voru viss um að ríkisstofnun gæti ekki tekið af þeim þinglýstar eignir.

„Veturinn 2021 kemur Marvin Ívarsson frá FSRE í heimsókn og kemur með tillögu að sátt. Lét okkur hafa landamerkjakort eins og Sveinn og sendir okkur síðan fleiri kort í tölvupósti með tillögum að landamerkjum. Hann fór ekki eftir neinum opinberum þinglýstum landamerkjum en hann má eiga það að hann var að reyna að ná sátt,“ segir Kristín.

Í kjölfarið biðja þau Kristín og Guðbrandur um að fá send þinglýst gögn sem sanni eignarhald ríkissjóðs. Fá þau þá sent til baka þinglýsta skjalið frá árinu 1944 þar sem þáverandi eigandi Syðri-Fljóta og Slýja, Sigríður, afsalar sér smá bút úr landi Slýja. Benda þau á að skjalið varði allt annað land en það sem Landgræðslan hafi ásælst.

„Þá fáum við senda yfirlýsingu frá 1954. Á skjalinu er engin dagsetning, engir vottar, aldrei þinglýst og frú Sigríður sem bjó á Syðri-Fljótum og skrifaði undir 1954 lést þann 2. ágúst 1952. Það er augljóst af hverju sýslumaður þinglýsir ekki þessari yfirlýsingu. Sigríður var dáin tveimur árum áður en hún skrifaði undir yfirlýsinguna og var búið að þinglýsa eignum hennar á fósturdóttur hennar 1953. Ég held að það þurfi nú engan sérfræðing til að sjá að þetta skjal frá 1954 er fölsun. Við nánari skoðun á undirskrift Sigríðar á þessum tveimur skjölum frá 1944 og 1954 sést að það er ekki sama rithönd. Það er a.m.k. ótrúlegt hvað skrift getur breyst þegar fólk er búið að liggja í kirkjugarðinum í tvö ár.“

Eins og að berjast við vindmyllur

Eftir þetta gerist þó ekkert meira í málinu næstu tvö árin og eru þau Kristín og Guðbrandur ekkert að hugsa meira út í þetta, enda með þinglýst gögn í höndunum um að landið sé þeirra. Í janúar 2023 er þeim bent á að í vefsjá Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) eru rúmir 4.000 ha af landinu þeirra merkt Ríkissjóði Íslands.

„Við sendum strax tölvupóst á FSRE og biðjum um að þetta sé leiðrétt og farið verði eftir þinglýstum gögnum. Við eigum fullt af tölvupósti með samskiptum við fyrrum landgræðslustjóra, opinbera starfsmenn FSRE og fjármálaráðuneytisins þar sem við krefjumst þess að vefsjáin verði leiðrétt og við viðurkenndir eigendur, en það er eins og að berjast við vindmyllur. Sama hvort það er Landgræðslan, FSRE eða fjármálaráðuneytið, aldrei fáum við fund þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.“

Í mars í fyrra fá þau loks tölvupóst frá starfsmanni FSRE þar sem hann viðurkennir að þau séu þinglýstir eigendur. Héldu þau því að málinu væri lokið, en svo reyndist ekki vera.

„Við eigum tölvupóst frá Árna, fyrrverandi landgræðslustjóra, frá því 22. maí í fyrra þar sem hann segir m.a.: „Við höfum sent tillögu til Ríkiseigna um að ríkið geri ekki kröfur til landsins enda teljum við pappírana þess eðlis – við bíðum svars.“ Sama dag og Árni sendir okkur þennan tölvupóst sendir hann bréf til FSRE þar sem stendur: „Mikilvægt er að ríkið komist með afgerandi hætti að því hvernig eignaréttarlegu tilkalli til svæðanna sé háttað og vinni svo markvisst með þá niðurstöðu, t.a.m. með því að krefjast viðurkenningar eignarréttar fyrir dómstólum – telji ríkið það rétta niðurstöðu og ekki séu aðrar leiðir
færar til að útkljá málin.“

Bréfið frá Landgræðslunni til FSRE getum við ekki túlkað öðruvísi en að þeir ætli í mál við okkur sem var allt annað en Árni sendir okkur sama dag.“

Kristín segir að í maí sl. hafi Landgræðslan vísað málinu á FSRE sem hafi vísað málinu áfram til fjármálaráðaneytisins í júní, sem svo vísaði málinu á lögmannsstofu.

„Í níu mánuði biðum við með okkar þinglýstu pappíra og vorum með yfir hausnum á okkur yfirvofandi stefnu. Lögmannsstofan virðist hafa óheftan aðgang að ríkissjóði að fjármagni til að finna eitthvað sem er sterkara en þinglýst gögn á meðan við fengum aldrei að koma okkar hlið á málinu á framfæri. Það er ótrúlegt að opinberir starfsmenn, t.d. landfræðingur og lögfræðingur FSRE, geti setið á skrifstofu í Reykjavík og búið til bara einhver landamerki og fara aldrei eftir þinglýstum landamerkjapappírum og þvælt um réttaróvissu eins og Óskar Páll Óskarsson segir í tölvupósti til okkar. Maður var bara alveg orðlaus. Það var búið að skipta landinu okkar í fimm hluta, við áttum um 400 ha. Síðan var landinu skipt í fjögur önnur svæði, Slýja og Fljótalandgræðslusvæði, síðan átti Skálarfjara orðið 1579 ha og Skarðsfjara um 800 ha. Skál átti rekarétt í Meðallandi en ekki einn hektara. Maður skilur bara ekki hver hefur getað fundið upp þessa þvælu.“

Málið ratar í fjölmiðla

Kristín ákvað að mæta á fund sjálfstæðismanna sem voru á fundarferð í kringum landið í lok febrúar á þessu ári. Á fundinum les Kristín upp fyrir fundargestum, þ.á m. fjármálaráðherra, um stöðu þeirra Guðbrands og krefst þess að landamerki yrðu leiðrétt strax í vefsjá FSRE, farið verði eftir landamerkjabréfum og eignaréttur þeirra viðurkenndur.

„Það má segja það að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi misst andlitið þegar ég las sögu okkar fyrir þá og þeir voru mjög undrandi á vinnubrögðum opinberra starfsmanna. En ekkert gerist samt næstu vikurnar. Það var ekki fyrr en ég fer í viðtal Í bítinu á Bylgjunni mánudaginn 18. mars að það fer loksins eitthvað að gerast. Á föstudeginum fáum við svo tölvupóst þar sem segir að ríkissjóður Íslands gæfi eftir eignartilkall til svæðisins neðan/sunnan svokölluðu landgræðslugirðingar í Meðallandsfjöru og Meðallandssandi gagnvart grandalausum þriðju aðilum sem eignast hafa jarðir á svæðinu á grundvelli tómlætis ríkisins við að ganga frá þinglýsingu á yfirlýsingunni frá árinu 1954. Orðalagið í þessum tölvupósti er alveg ótrúlegt. Þessi yfirlýsing frá 1954 var aldrei tiltæk til þinglýsingar.“

Margir í sömu stöðu

Nú hefur vefsjá FSRE verið leiðrétt og land Kristínar og Guðbrands nú ekki lengur skráð eign ríkisins. Kristín tekur það þó fram að enn sé land sem sé þinglýst á nágranna þeirra merkt sem land í eigu ríkisins í vefsjá FRSE. Búið sé að benda FSRE á það en þeir leiðrétti það samt ekki.

„Eftir að ég setti þetta inn á Facebook um daginn hefur fullt af fólki sett sig í samband við mig og ég heyrt af fólki sem er í nákvæmlega sömu stöðu og við. Ýmist Landgræðslan eða íslenska ríkið sem er að ásælast land. Hver ber ábyrgð á þessari valdníðslu? Þetta er allt af mannanna völdum. Eiga Landgræðslan og ríkissjóður að vera að safna landi? Ríkið og Landgræðslan eru ekki bestu nágrannarnir en það væri umfjöllun í annað viðtal sem gæti heitið „Eyðibýlastefna ríkissjóðs Íslands.“ Það þarf nú ekki annað en að keyra um Meðallandið til að sjá hvernig eyðibýlastefna er búin að fara með þessa sveit. Í lokin langar okkur að segja að fyrrverandi landgræðslustjóri sagði við okkur að ríkið mætti ekki gefa land, því spyrjum við á móti, má ríkið stela af fólki þinglýstum eignum?“

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...