Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sölvi Arnarsson, ábúandi að Efstadal II.
Sölvi Arnarsson, ábúandi að Efstadal II.
Líf&Starf 15. ágúst 2019

Viljum halda áfram að bjóða gesti velkomna í sveitina okkar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mjólkur- og ferðaþjónustubýlið að Efstadal II í Bláskógabyggð hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna alvarlegrar E. coli sýkingar sem kom upp á bænum. Nokkur börn veiktust illa vegna sýkingarinnar og voru undir eftirliti á Landspítalanum en þau hafa öll verið útskrifuð.

Sölvi Arnarsson, einn af ábúendum Efstadals II, segir að sýkingin hafi verið mikið sjokk en að hugur ábúenda Efstadals II hafi frá upphafi verið hjá þeim sem sýktust og ekki síst börnunum og foreldrum þeirra og að það sé erfitt að setja sig í þeirra spor og skilja þjáningar þeirra.

Búið er að breyta verkferlum, loka fyrir aðgengi að dýrum og bæta við hreinlætisaðstöðu á bænum til að auka heilbrigðisöryggi.

Á bilinu 70 til 100 þúsund manns heimsækja Efstadal II á hverju ári. Í dag er búið að loka fyrir beinan aðgang gesta að dýrunum á bænum. Mynd / Beit.

Margar smitleiðir

Bakteríurannsóknir í Efstadal II sýndu að kálfar á staðnum báru sömu bakteríur og sýktu börnin en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um helmingur barnanna hafði ekki snert kálfana í kálfastíunni en þau áttu hins vegar sameiginlegt að hafa neytt íss á bænum. Bakteríurnar sem sýktu börnin fundust þó ekki í neinum sýnum af ís á staðnum, en ísinn sem rannsakaður var, var þó ekki sá sami og börnin höfðu borðað því ný framleiðsla var komin í sölu.

Samkvæmt tilkynningum frá Landlæknisembættinu er ekki hægt að fullyrða að börnin hafi sýkst af umgengni við kálfa. Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum.

Ísinn eigin framleiðsla

Ísinn sem seldur er í Efstadal II er framleiddur á staðnum úr mjólk kúnna á bænum og hefur verið það frá upphafi. „Ferlið við framleiðsluna er þannig að við gerilsneyðum mjólk úr mjólkurtanknum, síðan setjum við hana í skilvindu og fáum þá rjóma og undanrennu. Síðan er ísblandan gerð og svo gerilsneydd aftur, úr henni eru svo gerðar mismunandi bragðtegundir af ís,“ segir Sölvi.

Ísborðið í Efstadal II, þar sem þær Hrafnhildur Ósk Gunnarsdóttir og Sólbjörg Lind Björgvinsdóttir standa vaktina.

Efstidalur II er ekki eina býlið á Íslandi sem framleiðir og selur ís en milli fimm og sex bæir gera ís úr mjólkinni sinni. Það er eitthvað rómantískt að geta búið til ís úr eigin afurðum.

„Við erum með um 40 mjólkandi kýr og lítum fyrst og fremst á okkur sem kúabændur. Sem aðilar að Auðhumlu seljum við okkar mjólk þangað að langmestu leyti.“

Smit fannst í kálfastíunni

Sölvi segist fyrst hafa heyrt um mögulega E. coli sýkingu 27. júní þegar fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kom á staðinn til sýnatöku. „Í það skipti voru tekin sýni úr ís og hamborgurum en við greiningu reyndust sýnin vera laus við smit. Fljótlega eftir það fóru spjótin þó að beinast að okkur út frá faraldsfræðilegum grunni, eða vegna þess að flestir þeirra sem sýktust áttu það sameiginlegt að hafa komið hingað og borðað ís eða verið í snertingu við dýr.

Föstudaginn 4. júlí komu full­trúar Matvælastofnunar og Heil­brigðiseftirlits Suðurlands hingað og tóku aftur sýni, bæði úr matvælum og í fjósinu. Úr sýnum úr kálfastíunni voru ræktuð sömu gen og ollu veikindum einstaklinganna. Á þriðjudeginum eftir það voru komnar haldbærar sannanir um að uppruni sýkingarinnar væri hjá okkur og þá var gripið til frekari viðeigandi ráðstafana.“

Sýkingin mikið sjokk

„Fyrstu viðbrögð okkar þegar staðfest var að sýkingin ætti uppruna sinn hjá okkur voru algert sjokk og hreinlega skelfing og varla að maður tryði því til að byrja með. Sjálfur átti ég erfitt með að trúa að sýkingin kæmi úr matvælunum og það er mín tilfinning enn í dag því hefði svo verið tel ég víst að fleiri hefðu smitast.

Björgvin Jóhannesson, Sólveig Sigurðardóttir, Björg Ingvarsdóttir og Halla Rós Arnarsdóttir.

Í dag eru allir sammála um að uppruni sýkingarinnar sé í kálfa­stíunni hjá okkur en erfitt er að fullyrða hvernig smitið barst í fólkið.“

Sölvi segir að strokusýni úr veitinga­aðstöðunni hafi ekki sýnt neitt sem bent gæti til sýkingar innanhúss en að það hafi aftur á móti fundist E. coli STEC bakteríur í skepnunum á bænum.

„Smitleiðir geta verið fjölmargar, til dæmis frá gestum sem klappa dýrum og kaupa sér svo veitingar inni á staðnum, á milli gesta og starfsfólks. Annar möguleiki er að hundar á bænum hafi farið inn í kálfastíuna og orðið fyrir smiti og síðan börn smitast við að klappa þeim. Einnig greindist smit í heimalningum sem við höfum stundum leyft börnum að gefa mjólk úr pela. Staðreyndin er sú að smitið greindist ekki bara í kálfunum heldur líka í dýrum sem voru hér á hlaðinu. Starfsmenn geta hafa tekið í höndina á gesti eða á móti greiðslu frá fólki sem var að klappa kálfi og smit borist þannig inn í veitingasöluna. Mögulegar smit­leiðirnar eru því margar,“ segir Sölvi.

Baktería sem berst auðveldlega með fólki

„Satt best að segja held ég að það hafi enginn átt von á að svona sýking kæmi upp á íslenskum sveitabæ og tilfellið sýnir hvað við verðum að fara varlega. Fyrir þetta hafa verið að greinast þrjú til fjögur tilfelli af E. coli á ári hér á landi en svo stökkva þau upp í 22 á sama staðnum og eru orðin að faraldri.

Annað sem vert er að velta fyrir sér er hvernig smitið barst til okkar. Hingað hefur verið straumur fólks í mörg ár og rannsóknir sýna að þessi baktería finnst bæði í lamba- og nautakjöti hér á landi og hún er vel þekkt víða um heim og getur borist með fólki á milli staða og landa.“

Börnum þykir gaman að horft á kálfana í kálfastíunni og gott að borða ís.

Veikindi barnanna mesta sjokkið

„Mesta sjokkið við sýkingarnar var þegar við fréttum hversu alvarleg veikindi barnanna voru og við hreinlega misstum mátt og langaði mig mest að loka afleggjaranum að bænum og skella í lás. Það var erfitt að höndla alla athyglina sem málið fékk því heimili okkar og vinnustaður voru í öllum fréttatímum og blöðum í tengslum við veik og jafnvel lífshættulega veik börn.

Auðvitað leið okkur illa en samt held ég að okkur hafi ekki liðið jafn illa og börnunum og foreldrum þeirra barna sem veiktust. Mig langar að nota tækifærið hér og senda þeim okkar bestu kveðjur og segja í einlægni hvað okkur þykir þetta leitt og láta þau vita að við finnum til með þeim. Á sama tíma vorum við að vinna samkvæmt öllum reglum sem okkur voru settar og fylgdum fyrirmælum eftirlitsstofnana í einu og öllu.

Hjá okkur vinna um þrjátíu manns sem einnig þurfti að sinna og hlúa að.

Farið yfir verkferla

„Viðbrögð í kjölfar sýkinganna hafa verið að fara yfir alla verkferla og athuga hvort að það hafi orðið frávik í framleiðslunni sem hafi getað stuðlað að sýkingum. Kálfastíunni var strax lokað og núna er búið að takmarka aðgengi gesta að öllum dýrum. Það er einnig búið að setja upp nýja hreinlætisaðstöðu utandyra og bæta við upplýsingaskilti þar sem fólki er bent á nauðsyn þess að gæta fyllsta hreinlætis.“

Skjót og góð aðkoma stofnana

„Að mínu mati hafa samskipti okkar við Matvælastofnun og Heil­brigðiseftirlit Suðurlands verið góð. Matvælastofnun er með allt sem snýr að dýrahaldinu á sinni könnu en Heilbrigðiseftirlit Suðurlands allt sem snertir veitingasöluna.

Komið hefur verið upp nýrri hrein-lætis­aðstöðu utandyra og bætt við upp­lýsingaskilti þar sem fólki er bent á nauðsyn þess að gæta fyllsta hreinlætis.

Satt best að segja get ég ekki verið annað en stoltur af því hvernig þessar stofnanir brugðust við og hversu fljótar þær voru að setja allt í gang. Aðkoma sóttvarnarlæknis var einnig til fyrirmyndar og aðdáunarvert hversu vel allar þessar stofnanir unnu saman í þessu verkefni og veittu okkur upplýsingar um hvaða umbætur væri hægt að framkvæma.

Í dag er búið að sótthreinsa veitingasöluna hátt og lágt og fjölga reglubundnum handþvottum.“

Hófst með hestaleigu

Sölvi segir að sauðféð hafi verið skorið niður vegna riðu í Efstadal II milli 1978 og 1980. Húsið þar sem veitingasalan er í dag var upphaflega byggt sem fjárhús en breytt í fjós eftir niðurskurðinn. Móðir Sölva,

Björg Ingvarsdóttir, og stjúpfaðir, Snæbjörn Sigurðsson, settu á laggirnar hestaleigu meðfram kúabúskapnum árið 1992 og þannig var stigið fyrsta skrefið í átt að þjónustu við ferðamenn.
„Árið 2001 fara þau að leigja fjögur herbergi í gamla íbúðarhúsinu í samvinnu við Ferðaþjónustu bænda.

Árið 2005 var byggt bjálkahús með tíu herbergjum og herbergin þá orðin fjórtán. Þá var einnig farið að bjóða upp á kvöldverð fyrir gesti í stofunni í gamla húsinu en á þessum tíma höfðu foreldrar mínir byggt sér nýtt hús og gamli bærinn notaður undir ferðaþjónustuna. Árið 2013 var hlöðunni breytt í ísbúð, veitingastað og ferðamannafjós.

Frá upphafi var markmiðið að vera með glugga í veitingahúsinu og inn í fjós og vera með skepnurnar og starfsemina sýnilega. Það kom strax í ljós að gestir sem komu hingað kunnu að meta þetta og að þá langaði að tengjast sveitinni, búskapnum og skepnunum meira. Um tíma vorum við að hugsa um að bjóða upp á fjósaskoðun og leyfa fólki að fara inn í fjósið en hættum við það og ákváðum að vera með gluggana í staðinn og eina hurð út á plan þar sem fólk gæti klappað kálfunum.“

Sölvi segir að þjónustan við ferða­menn hafi alltaf verið að aukast og í dag heimsæki milli 70 og 100 þúsund manns bæinn á ári. „Veitingaþjónustan byrjaði ekki með neinum hvelli en við eru vel staðsett á Gullna hringnum og það fara um ein og hálf milljón manna um hann á ári og þar eru um fimm þúsund sumarhús frá Selfossi og upp að Geysi. Það sem meira er, er að bæði Íslendingum og útlendingum þykir ís góður og gaman að skoða dýrin og þjónustan hér aukist í takt við aukinn fjölda ferðamanna til landsins.

Fyrstu árin var stærsti hluti viðskiptavina okkar Íslendingar og í dag er þetta hluti af sunnudagsbíltúrnum hjá mörgum, sem við lítum á sem okkar fastakúnna. Við finnum fyrir mikilli jákvæðni frá þeim gagnvart því sem við erum að gera.“

Að lokum segir Sölvi að ábúendur í Efstadal II séu ákveðnir í að læra af reynslunni og gera sitt til að koma í veg fyrir að svona geti komið fyrir aftur, því við viljum geta haldið áfram að bjóða fólk velkomið í sveitina okkar.“

 

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...

Heilgrilluð nautalund
30. apríl 2021

Heilgrilluð nautalund

Slök frammistaða
16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Notalegt hálsskjól
18. september 2023

Notalegt hálsskjól

Heilsteikt nautalund
10. nóvember 2022

Heilsteikt nautalund