Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hér er Kristján við tæki hjá MS-Akureyri sem nýlega var tekið í notkun og í daglegu tali er nefnt Smjörbyssan.
Hér er Kristján við tæki hjá MS-Akureyri sem nýlega var tekið í notkun og í daglegu tali er nefnt Smjörbyssan.
Mynd / MÞÞ
Líf&Starf 14. desember 2016

Viljum fyrst og fremst varðveita dans- og dægurlög

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það eru margir sem skilja ekki neitt í því hvernig við nennum að standa í þessu. Að þeytast á milli félagsheimila vítt og breitt um landið, standa upp á sviði og spila og syngja í fjóra tíma og hendast svo á einhvern annan stað jafnvel í órafjarlægð,“ segir Friðjón Ingi Jóhannsson, sem fer fyrir Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. 
 
Hljómsveitin var stofnuð árið 1995 og hefur verið að óslitið síðan. Nýr diskur frá sveitinni var að koma á markað; Austfirskir staksteinar 3 heitir sá og er, eins og heitið ber með sér, sá þriðji í röð staksteina austfirskra. Hinir fyrri komu út árið 1996 og 2003. 
 
Friðjón svarar þeim sem skilja ekki þrautseigju hljómsveitarmeðlima við þeyting og spilamennsku á dansleikjum á þennan veg: Það er adrenalínið.  Þetta er svo ofboðslega skemmtilegt. Og gefandi. Við fáum mikið út úr þessu. Sumir fara út að hlaupa, ganga á fjöll eða hvaðeina, þetta er okkar áhugamál og okkur þykir þetta langt í frá þreytandi eða slítandi. Þá værum við auðvitað ekki að þessu, auk þess sem gestir á dansleikjum myndu fljótt finna ef spilamennskan væri ekki af heilum hug. Við gefum allt í þetta, reynum eftir bestu getu að lesa salinn, hvað fólk vill heyra og dansa við, þannig að prógrammið hjá okkur getur verið breytilegt eftir aldurssamsetningu og stuðinu hverju sinni.“
 
Í mjólkuriðnaði í 40 ár
 
Friðjón Ingi er að austan, Héraðsmaður í húð og hár og hefur starfaði í mjólkuriðnaði í fjóra áratugi. Hann er búfræðingur frá Hvanneyri, var þar við nám á árunum 1974 og 1975 og á góðar minningar frá árum sínum þar.
 
„Ég fór beint að námi loknu aftur austur og til starfa hjá Mjólkursamlagi K.H.B. á Egilsstöðum þar sem ég fór á samning hjá öðlingnum Svavari Stefánssyni og hélt síðan í mjólkurfræðinám til Danmerkur, þar sem ég var árin 1978 til 1979,“ segir Friðjón. Hann hóf að nýju störf að námi loknu hjá Mjólkursamlaginu á Egilsstöðum sem á þeim tíma var að flytja í nýtt hús. 
 
„Það var nóg að gera í því starfi, fjölbreytt framleiðsla, árið 1975 voru alls 146 kúabú á félagssvæðinu,“ segir hann og nefnir sem dæmi um þá þróun sem orðið hefur í mjólkurframleiðslunni að kúabúin séu nú innan við 30 talsins á svæðinu, en þau séu vissulega mun stærri en áður var.
 
„Mér fannst einhverjar blikur á lofti þegar kom fram að aldamótum og taldi verulegar líkur á að samlagið yrði lagt af. Ég fór því að hugsa mér til hreyfings,“ segir hann en tilfinning hans reyndist á rökum reist, samlagið á Egilsstöðum var selt Mjólkurbúi Flóamanna og eftir stóru MS-sameininguna var tekin ákvörðun um að leggja samlagið á Egilsstöðum niður. Eftir dramatískt ferli var þeirri ákvörðun þó snúið, en framleiðslan eystra einfölduð og sérhæfð, þar var eftir breytingar einungis framleiddur Mozzarella-ostur.
 
Mikið til af minnisblöðum
 
Friðjón flutti ásamt fjölskyldu sinni til Akureyrar árið 2000 og réð sig til Mjólkurbús Flóamanna, eins undarlega og það nú hljómar. Þar tók hann við starfi mjólkureftirlitsmanns á svæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, með starfsaðstöðu á Akureyri og í Borgarnesi, en Mjólkurbú Flóamanna hafði þá tekið að sér að sjá um mjólkureftirlit á því svæði. Það náði allt norður í Húnavatnssýslur, vestur í Dali og Vestfirði og niður í Borgarfjörð og Kjós. Þá var hann einnig aftur kominn inn á sitt gamla svæði Mjólkurbús K.H.B. á Egilsstöðum, þar sem samlagið var nú komið í eigu Mjólkurbús Flóamanna. Þessu starfi gegndi Friðjón í sjö ár.
 
„Þetta var mjög skemmtilegt tímabil og ómetanlegt að kynnast bændum á mismunandi svæðum landsins, en svakaleg vinna og svæðið stórt. það voru miklir umbrotatímar í iðnaðinum á þessum árum, bæði umdeildar sameiningar og eins mjög hertar kröfur til gæða framleiðslunnar frá bændum. Ég lagði alltaf mikið upp úr góðri þjónustu við bændur, enda af bændum kominn, og ekki má gleyma því að bændur eiga fyrirtækið. Það voru því mikil viðbrigði að komast undir þak þegar ég réð mig til starfa hjá MS Akureyri árið 2008, eftir allan þvælinginn sem fylgir mjólkureftirlitsstarfinu.“
 
Friðjón kveðst oft og tíðum hafa verið gagnrýninn á þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á umliðnum árum í mjólkuriðnaðinum, telur margar þeirra orka tvímælis, en telur ekki rétt að tíunda þær skoðanir nánar, slíkt geti haft afdrifaríkar afleiðingar. „Það má þó koma fram að á 40 ára ferli mínum í mjólkuriðnaðinum hefur mikið orðið til af minnisblöðum, góðum og slæmum, og vinna hafin við að opinbera þau á einn eða annan hátt í fyllingu tímans.“
 
Í hljómsveitarbransanum frá 1972
 
Friðjón hefur meðfram sínum daglegu störfum stundað spilamennsku af miklu kappi.
 
„Ég hóf ferilinn í Alþýðuskólanum á Eiðum árið 1972 í hljómsveit sem bar nafnið Thule 2,5. Þaðan lá leiðin í hljómsveitina Völund og ég kom svo víða við, þar má nefna hljómsveitirnar  Bigg-Fí-band, Skruggu, Panik, Mánatríó og Slagbrandi. Það er svo árið 1986 sem hljómsveitin Bergmál var stofnuð og starfaði hún allt til ársins 1995, að vísu á tímabili undir nafninu Tríó Eyþórs. 
 
Þá var stofnuð Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Sú hljómsveit var stofnuð í því skyni að spila á einu balli. Það vatt heldur betur upp á sig, samkomustaðirnir sem sveitin hefur leikið fyrir dansi á eru orðnir 110 talsins í öllum landshlutum „og við erum enn að,“ segir Friðjón. 
 
Með honum í sveitinni eru þeir Árni Jóhann Óðinsson, sem leikur á gítar og syngur, og Daníel Friðjónsson, sonur Friðjóns, er á trommum, en sjálfur er Friðjón á bassanum auk þess að syngja.
 
Milli þess sem strákarnir þeytast þvers og kruss um landið og spila á böllum hér og hvar hafa þeir gefið út fjölda diska. Sá nýjasti var að koma á markaðinn og er sá þriðji í röðinni með lögum eftir austfirska lagahöfunda. Hann heitir sem áður segir Austfirskir staksteinar 3 og kemur í kjölfar tveggja samnefndra diska sem einnig innhalda lög eftir lagahöfunda að austan. Einnig kom út árið 1997 nítján laga diskur sem inniheldur 19 lög eftir Óðin G. Þórarinsson frá Fáskrúðsfirði. Fyrstu þrír diskarnir eru nú algerlega ófáanlegir, en þá var brugðið á það ráð árið 2006 að gefa út 44 laga tvöfaldan safndisk, en þeir félagar voru að fá þriðju útgáfu af þeim diskum í hendurnar, jafnhliða þeim nýja. 
 
Varðveislugildið skiptir mestu
 
„Það sem fyrir okkur vakir með þessari útgáfu er að varðveita dans- og dægurlög eftir hina ýmsu höfunda sem tengjast Austurlandi á einhvern hátt. Það er fyrst og fremst sú hugsjón sem rekur okkur áfram í þessu, að forða verkum sem í flestum tilvikum eru eftir minna þekkta höfunda, frá glötun. Má því segja að það sé aðalmarkmið okkar með útgáfunni og höfum við fengið mikið þakklæti fyrir sem við kunnum auðvitað vel að meta. 
 
Lögin hafa komið til okkar með ýmsu móti, fyrir utan það að þekkja svæðið býsna vel tónlistarlega, þá gaukar fólk þeim að okkur hér og hvar, sum hef ég fengið í hendur á ferðum mínum um svæðið, en nú veit fólk líka af okkar hugsjón og hefur samband,“ segir Friðjón og bætir við, að hann og félagar lúri enn á mörgum lögum á lager. Þau bíði þess að tækifæri gefist til að gefa út. 
 
„Það er minn draumur að gefa út fleiri diska, það væri mjög gaman að geta gefið út diska með laga- og textahöfundum frá fleiri landshlutum. Staksteinum að norðan, vestan og sunnan. Við finnum vonandi einn góðan veðurdag tíma og grundvöll til að sá draumur rætist.“ 
 
Útgáfustarfsemin er alfarið í höndum félaganna í Danshljómveitinni, þeir sjá um allar hliðar málsins og gera það til hliðar við hefðbundinn hljómsveitarrekstur og önnur störf. Friðjón segir marga hafa  lagt þeim lið, leikið með þeim á hin ýmsu hljóðfæri og kunni hann þeim bestu þakkir fyrir, en þeirra stoð og stytta í þessari vinnu frá árinu 2000  hefur verið Brynleifur Hallsson, mjólkurfræðingur og tónlistarmaður á Akureyri. Á meðan allir meðlimir hljómsveitarinnar bjuggu á Egilsstöðum var það hins vegar Einar Bragi Bragason, þá skólastjóri Tónlistarskólans á Seyðisfirði, sem sá um upptökur og útsetningar. 
 
Góðar viðtökur
 
„Viðtökur almennings við okkar diskum hafa verið afar góðar, fólk tekur þeim fagnandi og hefur greinilega ánægju af. Við segjum stundum bæði í gamni og alvöru að markhópurinn sé 50+ til 100 + og skömmumst okkar síður en svo fyrir það. Þetta eru að mestu alveg óþekkt lög eftir höfunda sem í flestum tilfellum hafa ekki skapað sér nafn í hinum viðurkennda poppiðnaðarheimi. 
 
Við höfum þetta sem áhugamál, stöndum í þessu öllu alveg sjálfir, sjáum um útgáfu og dreifingu frá A til Ö, án allra styrkja. Við lítum á þetta sem okkar framlag til alþýðumenningar hér á landi og erum stoltir af því. Þessi tónlist virðist þó ekki hátt skrifuð hjá Svæðisútvarpi Reykjavíkur og nágrennis (RÚV), sem er rekið undir slagorðinu útvarp allra landsmanna, en það er bara í góðu lagi, við þurfum ekkert á því að halda,“ segir Friðjón og ekki laust við að greina megi góðlátlegt glott á vörum hans.

12 myndir:

Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.

Esther hættir eftir tólf ára starf
Fréttir 21. febrúar 2024

Esther hættir eftir tólf ára starf

Esther Sigfúsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins á...

Hvítlaukssalt úr Dölunum
Fréttir 21. febrúar 2024

Hvítlaukssalt úr Dölunum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölunum búast við sex til átta tonna uppsker...

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið
Fréttir 21. febrúar 2024

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið

Matvælaráðherra hefur með breytingu á reglugerð um ólífrænan áburð gefið bráðabi...

Fuglum fækkar í talningu
Fréttir 19. febrúar 2024

Fuglum fækkar í talningu

Vetrartalning á fuglum dróst út janúar, en hefð er fyrir því að telja í upphafi ...

Gúrkuuppskera aldrei meiri
Fréttir 19. febrúar 2024

Gúrkuuppskera aldrei meiri

Metuppskera var í gúrkuræktun á síðasta ári, eða 2.096 tonn. Stöðugur vöxtur hef...

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins
Fréttir 16. febrúar 2024

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins

Leyft verður að veiða alls 800 hreindýr á þessu ári, 403 tarfa og 397 kýr. Þessi...

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps
Fréttir 16. febrúar 2024

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps

Hreppa skyrdrykkur kemur á markaðinn í apríl. Í honum eru, að sögn framleiðanda,...