Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Geiturnar Gæfa, Heiðdís og Skeggi, sem er þó ekki lengur í tölu lifenda en var faðir Refsmýrarkiðlinganna í ár.
Geiturnar Gæfa, Heiðdís og Skeggi, sem er þó ekki lengur í tölu lifenda en var faðir Refsmýrarkiðlinganna í ár.
Mynd / AKBJ
Viðtal 3. ágúst 2023

„Voðalega pirrandi dýr“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á Refsmýri í Fellum, Fljótsdalshéraði, er stundaður býsna litríkur búskapur en geitur eru nýjasta viðbótin og stendur til að gera veg þeirra meiri.

Þarna búa hjónin Agnes Klara Ben Jónsdóttir og Björgólfur Jónsson ásamt dóttur sinni, Glódísi Teklu, fimm ára, og senn er von á nýjum fjölskyldumeðlim í heiminn. Agnes og Björgólfur eru bæði fædd og uppalin á Stöðvarfirði en fluttu árið 2014 til Egilsstaða, og um tíma Svíþjóðar, en keyptu Refsmýri árið 2020.

Hann er sjómaður og vinnur fulla vinnu á sjó með búskapnum en hún menntuð í lögreglufræði og hefur verið að taka ýmsan starfa að sér með búskapnum, þar sem Björgólfur er ekki heima nema um það bil hálft árið í heildina. Agnes hefur auk þess verið í hundarækt í rúman áratug. „Því miður sér maður ekki að það verði hægt að lifa af búskap neitt á næstunni meðan hlutirnir halda áfram að þróast eins og þeir hafa gert þessi þrjú ár síðan við keyptum,“ segir hún og á þar við alræmda afkomuerfiðleika íslenskra bænda.

Refsmýringar hafa verið í heyönnum og þótt jörðin sé ekki stór þarf að heyja vetrarforða fyrir skepnurnar og kennir þar ýmissa grasa: „Við erum með um 350 kindur, þrjár merar og þrjár geitur en þær verða fleiri í haust þar sem við höldum nú huðnunni sem fæddist og eigum eftir að fá okkur nýjan hafur fyrir stofninn,“ upplýsir Agnes og heldur áfram: „Hér eru líka einhver 20-30 hænsn þar sem ég ungaði út í vor og við eigum eftir að kyngreina þá viðbót og sjá hvað verða margar hænur hjá okkur eftir það. Einnig erum við með þrjár tegundir af hundum.“

Það er sannarlega líflegt á Refsmýri og geiturnar sjá ekki hvað síst um að halda uppi fjörinu ásamt heimalningunum Höskuldi og Þröskuldi.

Kiðlingarnir eru eins og gæludýr

Fjölskyldan elskar dýr og samvistir við þau. Nágrannahjón og bændur í Fellum, Heiðveig Agnes og Helgi Hjálmar á Setbergi, höfðu ítrekað hvatt til að Refsmýrarfólk tæki hjá þeim geitur en Björgólfur þrjóskaðist við. Næst þegar hann fór á sjó notuðu mæðgurnar tækifærið og sóttu sér geitur í Setberg. Björgólfur spurði við heimkomu hvað yrði þá næst komið í húsin þegar hann kæmi heim eftir sjóferð og sú stutta fimm ára svaraði að bragði: „Kannski kengúrur!“

„Síðan þá hafa geiturnar verið hjá okkur og Björgólfur tuðað mismikið yfir þeim en samt geri ég ekki annað en að ná myndum af honum vera að knúsast í henni Gæfu, að greiða á henni hökutoppinn og ég veit ekki hvað,“ segir Agnes hlæjandi. „Þegar ég fór að tala um að gera almennilegt svæði fyrir þær og benti á neðsta hornið í fjárhúsunum, sagði hann: „Já, það væri nú alveg hægt að hafa einhverjar tíu geitur þarna.“ Svo hann er ekki svo ósáttur við þær. Ef þið spyrjið hann eru þetta voðalega pirrandi dýr en svo fer hann að tala um hvað geiturnar séu nú skemmtilegar inn á milli!“ segir Agnes, létt í tali.

Hún segist sjá mikinn mun á kiðlingum og lömbum. „Kiðlingar eru meira eins og gæludýr. Meðan flest lömb eru ekkert spennt fyrir klappi eða að láta elta sig, elta kiðin mann út um allt.“ Geiturnar séu þó misjafnar.

„Dóra vill t.d. ekkert með klór eða klapp hafa en Heiðdís er aðeins forvitnari. Hún er dóttir Gæfu sem elskar allt klapp og klór. Kiðið hennar Gæfu, hann Geitungur, mætti t.d. oft inn á kaffistofu til okkar í sauðburði og reyndi að troða sér alls staðar þar sem við, og sérstaklega Glódís, vorum. Þau hlupu í eltingarleik allan ganginn í fjárhúsunum ásamt því að hún var á hjóli og hann hlaupandi á eftir henni.“

Til stendur að fjölga geitunum á komandi árum og nýta kjötið til heimabrúks.

Fimm ára heimasætan Glódís Tekla fylgir sínum dýrum gegnum þykkt og þunnt. Hér er hún, heldur betur verkleg, í sauðburði.

Litli dýrahvíslarinn

Áður hefur verið minnst á Glódísi Teklu, fimm ára heimasætu á Refsmýri. Hún hefur alveg sérstaka tengingu við dýr og hefur verið kölluð „dýrahvíslari“ þótt ung sé að árum. Hún hefur verið innan um hunda og hvolpa frá öndverðu og er sögð hafa einstakt lag á öllum skepnum.

„Hún Glódís er ótrúlegt barn þótt við segjum sjálf frá,“ segir móðirin stolt. „Hún er hlédræg, róleg og mjög þroskuð, með rosalega tengingu við dýr.“ Hún eigi t.d. yndislegt samband við féð sitt. „Hún gerir gemsana gæfa eins og ekkert sé, beint af fjalli. Hún labbar í hrútahólfinu og þeir flykkjast að henni í klapp og dekur. Kindin Gæla kemur heim að bæ um það bil annan hvern dag til að heilsa upp á Glódísi og fá smá brauðskorpu. Það er yndislegt að horfa á hana dröslast um, kró eftir kró, innan um allar kindurnar og hvernig hún laðar þær að sér. Hún hikar líka ekki orðið við að skamma þær sem eru óþekkar og sama með hundana. Hún er ljúf og góð en setur dýrunum samt líka mörk sem er fyndið að sjá barn sem er að verða fimm ára gera. Hún er einnig að byrja í hestunum og hún er svo slök á baki Mánadísar að hún geispar á baki.“

Merarnar Mánadís, Heilladís og Grádís eru allar í miklu uppáhaldi en tvær þær síðarnefndu eru tveggja vetra gömul tryppi, gæfar og mannelskar, og stendur til að setja þær í tamningu. „Við erum að fara að fá okkur fleiri tamda hesta svo fjölskyldan geti farið að njóta saman á baki. Því verður bara fjölgun á dýrum hér frekar en hitt,“ hnýtir hún við.

Agnes kveður dýrin á bænum öll skemmtilega ólík, hvert á sinn hátt, og þau geri lífið í sveitinni krefjandi og skemmtilegt.

„Við erum að vinna í að gera almennilega baðaðstöðu og svæði fyrir hundana núna eftir heyskap. Ætli fæðingarorlofið hjá Björgólfi fari ekki bara í það ásamt öðrum sveitaverkum,“ segir hún brosmild.

„Einnig höfum við verið með tvo heimalninga; Höskuld í fyrra og í ár er það hann Þröskuldur. Þeir hafa báðir talið sig vera hunda og taka, ásamt hundunum, fagnandi á móti okkur þegar við komum í hlað. Félagarnir hafa fengið mikla athygli á samfélagsmiðlum hjámérogþarsemégermeð marga erlenda ræktendur á mínum miðlum þá hafa allir mjög gaman af því hvað lífið hjá okkur er frábrugðið þeirra lífi.“ Finna má þá miðla undir nafninu nordurdals á Instagram og Facebook.

Á Refsmýri í Fellum eru, auk hunda, sauðfé, geitur, hestar og hænur. Einnig er stunduð skógrækt á jörðinni. Agnes Klara Ben Jónsdóttir heldur hér á Samoyed-hvolpum úr hundaræktun sinni og fá þeir reglulega bað og blástur.

Bað og blástur í sveitinni

Þá er einmitt komið að því að spyrjast fyrir um hundaræktunina. Þau hafa flutt inn flesta hunda sína, m.a. frá Hollandi, Rússlandi, Svíþjóð, Serbíu og Frakklandi. „Við erum með þrjár tegundir; Samoyed, Pomeranian og franskan bolabít. Við höfum ræktað Samoyed í ellefu ár og verður elsta gotið okkar því ellefu ára í haust. Samoyed er yndisleg fjölskyldutegund sem er ekki bara falleg heldur með yfirvegað og gott skap,“ segir Agnes og bætir við að þau hafi mest sýnt Samoyed en hinar tegundirnar minna. Þau eru að sögn einu skráðu ræktendur að Samoyed-hundum á landinu.

„Við erum með margfalda sýningameistara og löngu búin að missa yfirsýn yfir það,“ segir hún enn fremur. „Fyrst og fremst eru þau samt skítugir hundar sem eru hvítir og sveitahundar. Svo að bað og blástur er mjög reglulega í gangi hjá okkur!

Við förum á, má segja, allar sýningar sem eru fyrir sunnan og gengur oftast ljómandi vel en aðallega erum við að fara fyrir félagsskapinn og hafa gaman með hundunum okkar. Við eigum síðan von á einum gullmola á næstu mánuðum, frá Kanada, en hann hefur verið í Hollandi í að verða ár, á sýningum,“ segir hún.

Á þessum hásumartíma, þegar annríki er í bústörfum og flestir leika við hvern sinn fingur í sumarblíðunni, segir Agnes sveitina yndislega. „Friðsældin og náttúran heilla mann algjörlega.

Ég veit ekkert betra en að horfa yfir sveitina mína og drekka inn fegurðina. Okkur langar allavega ekkert að fara, enda er þetta það besta sem við gerðum fyrir dóttur okkar sem hænir öll dýr umsvifalaust að sér. Það er svo fallegt að sjá samband hennar við öll dýrin. Ég gæti því ekki hugsað mér að búa öðruvísi í dag,“ segir Agnes að lokum.

Skylt efni: íslenska geitin

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt