Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Viðskiptastríð
Mynd / BBL
Skoðun 15. nóvember 2018

Viðskiptastríð

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum lesanda þessa blaðs að deilur standa um tollvernd á landbúnaðarvörum og reglur sem um innflutning þeirra gilda. Dómar hafa fallið hér heima og erlendis þar sem lagt er fyrir íslensk stjórnvöld að markaðsöflin eigi að vera ofar öllu. 

Heilbrigðisreglur og ákvörðunarvaldið um að við sjálf eigum að ráða því hvað hingað er flutt inn eru léttvægar fundnar þegar markaðurinn ræskir sig. Að baki þeim hagsmunum standa öflugir þrýstihópar sem hafa vel efni á því að reka eins mörg dómsmál og þeim sýnist og hafa gott aðgengi að fjölmiðlum. Félag atvinnurekenda, sem með raun réttri ætti að kallast Félag heildsala, er það áberandi að margir halda að það sé málsvari atvinnulífsins í heild. Afnám tollverndar og innflutningur á hráu kjöti er meðal aðalbaráttumála félagsins.

Stanslaus áróður heildsalanna dynur bæði í fjölmiðlum og í eyru þeirra sem stjórna landinu. Skiljanlega berjast þeir fyrir sínum hagsmunum og auknum gróða. Þeir sem stunda innflutning vilja auka sín umsvif, flytja inn meiri vörur og fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þetta eru einfaldlega hagsmunir þessara fyrirtækja. Þeirra viðskiptastríð. Þau varðar ekkert um búfjár- eða lýðheilsu þegar hagnaðurinn er annars vegar. 

Keyptar hafa verið skýrslur til að reyna að grafa undan þeim sjónarmiðum að nokkur hætta sé á ferðum. Það má deila um hversu mikil hún er, en eitt er víst að hún verður meiri en í dag.

Ef eitthvað gerist, sem ekki átti að gerast, þá mun lítið þýða að leita á náðir samtaka heildsala til að bæta það tjón sem verður. Það er ekki lengur neinn tryggingasjóður sem bændur geta leitað til vegna áfalla sem verða með þessum hætti. Verði einhver lýðheilsuáföll þá lendir það tjón á samfélaginu í heild.

Nýlega voru sagðar fréttir af því að sýkingar vegna sýklalyfjaónæmra baktería hefðu valdið dauða 33.000 Evrópubúa árið 2015. Það er kannski ekki hátt hlutfall af öllum íbúum álfunnar en það má fullyrða að það velur enginn slíkan dauðdaga.

Eigum við að hlýða boðvaldi að utan?

Við erum svo heppin hér að við notum afskaplega lítið af sýklalyfjum í  innlendri landbúnaðarframleiðslu og þannig viljum við hafa það áfram. Fyrr á þessu ári var gerð rannsókn á því hvort fyndust sýklalyfjaónæmar bakteríur í grænmeti hérlendis, bæði innlendu og erlendu. Þær fundust eingöngu í því erlenda. Neytendur höfðu ekki hugmynd um það því slíkar upplýsingar fylgja ekki með vörunum og þeir gera ef til vill ráð fyrir því að allt sé með sama hætti og hér heima. En svo er ekki raunin. Varan getur verið í fínu ásigkomulagi, litið vel út og bragðast fullkomlega, en hún er bara ekki sú sama þrátt fyrir allt framangreint. Við höfum sérstöðu á Íslandi sem er ekki sjálfgefin og verður illa eða ekki unnin aftur ef hún tapast einu sinni. Þess vegna þarf að hugsa um það af alvöru hvort núna eigi að hlýða boðvaldi að utan eða hvort við ætlum að reyna að ráða því sjálf hvernig á að haga málum hérlendis.

Við stöndum líka frammi fyrir annarri sambærilegri fyrirskipun sem þrýst er á um að verði innleidd hérlendis að kröfu markaðarins. Það er hinn svokallaði þriðji orkupakki Evrópusambandsins. Margir hafa spurt sig hvers vegna verið sé að gera kröfu um að innleiða hér reglur um sameiginlegan orkumarkað ESB þegar að við erum ekki tengd honum. Um það hefur verið fjallað heilmikið hér í blaðinu og verður ekki endurtekið hér, en það hlýtur að vera stór spurning af hverju við ættum að lögleiða hér í landinu eitthvað sem enginn hefur sýnt fram á að gagnist og enginn hefur kallað eftir, bara af því að okkur berst um það tilskipun. Það hlýtur að vera spurning hvort við viljum það raunverulega.

Starfsskilyrði íslensks landbúnaðar í húfi

Ákvörðun um innflutning á hráu kjöti verður tekin á næstu mánuðum. Hún snýst einfaldlega um það hvort við ætlum að ákveða sjálf hvernig starfsskilyrði okkar landbúnaðar eiga að vera eða einhverjir aðrir. Svo einfalt er það.

Bændasamtökin hafa haldið því fram með miklum þunga að áfram eigi að standa vörð um íslenskan landbúnað, sérstöðuna sem hann býr yfir auk eðlilegra og sanngjarnra starfsskilyrða. Þeim sem þykir litlu varða að hér sé innlendur landbúnaður hefur líkað misjafnlega við þann málflutning og reynt að slá til baka. Það má meðal annars sjá í nýlegu frumvarpi þingmanna Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar um breytingar á búvörulögum þar sem gerð er bein árás á samtökin og reynt að grafa undan stöðu þeirra sem málsvara bænda í landinu. Það lýsir vel viðhorfum flutningsmanna til landbúnaðarins að standa að svona verknaði og hefur ekki annan tilgang en að reyna að valda uppnámi og glundroða. Það er sjálfsagt að eiga samtal um landbúnaðarstefnuna en það verður ekki gert með þessu hervirki. Hafi þeir skömm fyrir sem í hlut eiga.

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...