Viðbragðsáætlanir vegna aukinnar virkni í Öræfajökli
Vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli hvetja Bændasamtök Íslands félagsmenn sína til að kynna sér viðbragðsáætlanir sem Matvælastofnun hefur tekið saman af þessu tilefni.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna, vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli.
Viðbragðsáætlanir almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra
Eftirfarandi texti er birtur á vef Matvælastofnunar:
„Þar sem náttúruhamfarir gera oft ekki boð á undan sér, ættu dýraeigendur að gera áætlanir um skyndileg viðbrögð við mismunandi vá og undirbúa aðstæður eftir því sem kostur er, með það að markmiði að koma í veg fyrir slys og aðrar þjáningar dýranna. Sér í lagi á þetta við um aðstæður sem valda því að eigendur gætu þurft að yfirgefa dýrin í skyndi.
Við gerð viðbragðsáætlana þyrftu eigendur að velta fyrir sér hvernig þeir telja að dýrunum sé best borgið miðað við tilteknar aðstæður, s.s. hættu á flóði, öskufalli, ofsaveðri o.s.frv. og gera ráðstafanir í samræmi við það. Jafnframt ættu þeir að tryggja eftir föngum að til staðar sé nauðsynlegur búnaður fyrir eigið öryggi og dýranna, sem og flutningstæki til rýmingar ef til þess kæmi.
Dýraeigendur þyrftu einnig að íhuga hvort aðrir geti sinnt dýrunum ef þeir sjálfir eru ekki í stakk búnir til þess. Til að auðvelda björgunarsveitum eða öðrum ókunnugum umhirðu dýranna, ætti hver og einn dýraeigandi að leitast við að hafa eftirtaldar upplýsingar uppfærðar og sýnilegar á staðnum á hverjum tíma:
1. Nöfn, heimilisföng og símanúmer þeirra sem þekkja best til
2. Upplýsingar um hvar finna megi lista yfir dýrin með númerum og/eða öðrum einkennum
3. Upplýsingar um veikindi dýra, burði og aðra mikilvæga þætti
4. Upplýsingar um fjölda dýra og staðsetningu þeirra í húsum og beitarhólfum
5. Kort yfir hús og beitarhólf
6. Leiðbeiningar um helstu verk, s.s. fóðrun og mjaltir
7. Upplýsingar um fóður, s.s. staðsetningu og birgðir
8. Upplýsingar um stjórnun mikilvægs tækjabúnaðar, s.s. mjalta-, fóður- og loftræstikerfis, vararafstöðvar o.s.frv.
Einstaklingsmerkingar dýra eru mikilvægar í þessu sambandi, meðal annars með tilliti til umönnunar og til að koma dýrum sem lent hafa á flækingi til síns heima.“
Öræfajökull er megineldstöð
Á vef Bændasamtaka Íslands hafa verið teknar saman upplýsingar um Öræfajökul og eldvirkni hans. „Öræfajökull er eldkeila í Austur-Skaftafellssýslu. Yfir fjallinu er jökulhetta, þ.e. Öræfajökullinn sjálfur, sem er jafnframt syðsti hluti Vatnajökuls. Hann fyllir stóra öskju efst á fjallinu. Margir skriðjöklar skríða út frá jökulhettunni niður fjallshlíðarnar og um dali við fjallsræturnar. Meðal þeirra eru Svínafellsjökull, Virkisjökull, Kotárjökull, Kvíárjökull og Hrútárjökull. Á norðurhlið fjallsins er Hvannadalshnúkur, hæsti tindur Íslands, 2.110 m. Öræfajökull (jökullinn sjálfur) er allur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og fjallið að miklu leyti líka.
Öræfajökull er megineldstöð og hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma; fyrst 1362 þegar Litlahérað lagðist í eyði, og síðan minna gosi 1727. Mikið tjón varð í báðum gosunum og þeim fylgdi öskufall og jökulhlaup,“ segir á vef Bændasamtaka Íslands.