Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Oddný Steina Valsdóttir við setningu aðalfundar LS 2018.
Oddný Steina Valsdóttir við setningu aðalfundar LS 2018.
Mynd / smh
Fréttir 5. apríl 2018

Við núverandi aðstæður eru sauðfjárbú ekki rekstrarhæf

Höfundur: TB

„Við höfum lagt upp áætlanir, fyrir núverandi og fyrrverandi ráðherra, til að taka heildstætt á vandanum, leiðir til að komast út úr ástandinu á sem allra stystum tíma. Hvergi höfum við ætlað íslenskum bændum neinar gjafir úr ríkissjóði. Hvergi höfum við ætlað neytendum annað en það allra besta. Það verður hins vegar að bregðast við. Það er nauðsynlegt því við þessar aðstæður eru sauðfjárbú ekki rekstrarhæf,“ sagði Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda við setningu aðalfundar LS fyrr í dag.

Oddný Steina sagði að síðasta ár hefði verið afar erfitt fyrir bændur og fjölskyldur þeirra sem orðið hefðu fyrir mikilli tekjuskerðingu. „Á tíma uppsveiflu í efnahagslífinu á Íslandi, aukins kaupmáttar og launaskriðs eru sauðfjárbændur og sauðfjárræktin í djúpri kreppu. Þetta hefur líka verið strembið ár fyrir okkur sem höfum lagt allt kapp á að höndla stöðuna. Leitað leiða og lagt fram áætlanir. Ég veit að við höfum eflst inn á við, bændur eru lausnamiðaðir og þrautseigir.“

Hún sagði það ekki  hlutverk ríkisins að reka sauðfjárbú en það bæri þó ábyrgð á að setja atvinnugreinum landsins ramma svo þær gætu dafnað. „Innan slíks ramma er það svo okkar framleiðandanna að grípa tækifærin og sækja fram. Við skorumst ekki undan því.“ Eins og staðan væri nú hefði launahækkunum hjá smásölum, heildsölum og afurðastöðvum, ásamt afleiðingu af brostnum mörkuðum hefur öllum verið ýtt yfir á bændur.

Sauðfjárbændur valdalausir í verðmyndunarferlinu

Í ræðu Oddnýjar kom fram að afurðaverð hér á landi væri svo lágt að aðeins í Rúmeníu væri það lægra þegar Evrópulönd eru borin saman. „Við eigum allt okkar undir afurðaverðinu það er sú tekjustoð sem ekki má bresta. Í því umhverfi sem ríkir eru sauðfjárbændur valdalausir í verðmyndunarferlinu. Í kringum 2.000 frumframleiðendur leggja inn sína vöru hjá sjö afurðastöðvum sem aftur selja vöruna áfram til veitingahúsa, kjötvinnsla og fáeinna stórra smásala, en eins og þekkt er ríkir fákeppni á smásölumarkaði. Við erum ekki valdalaus í verðmyndunarferlinu af aumingjaskap. Við erum valdalaus vegna þess að það er fákeppni í smásölunni,“ sagði Oddný Steina.

Markvissar aðgerðir nauðsynlegar

Ennþá er hægt að draga úr niðursveiflunni, grynnka og stytta lægðina að mati Oddnýjar. Til þess þurfi hins vegar markvissar og skynsamlegar aðgerðir. „Við erum tilbúin að leggja á okkur það sem þarf, það hefur aldrei annað staðið til en að bændur sjálfir tækju ábyrgð á eigin störfum og framleiðslu. En það er hins vegar svo að ef það á að beita verkfærum sem bíta þarf einnig aðkomu ríkisins. Eftir henni höfum við kallað en svörin eru hljóðlát og jafnvel stundum ranglát.“

Oddný sagði að í löndunum í kringum okkur væri skilningur á að því fylgdi samfélagslegt og efnahagslegt tap þegar miklar og skyndilegar sveiflur verða á afurðaverði.

„Samfélagið tapar við fjöldagjaldþrot bænda í niðursveiflu og það er fólginn kostnaður við uppbyggingu þegar betur árar. Í slíku er einfaldlega engin hagræðing fólgin. Landbúnaður þróast líkt og aðrar greinar. Það er ekkert að því. En það má gera hlutina skynsamlega. Í löndunum í kringum okkur er almennur skilningur á því að hagkvæmara er að grípa til sveiflujöfnunnar til skemmri tíma en að láta hrunið verða stjórnlaust. Allt síðastliðið ár höfum við átt samtal um þetta við stjórnvöld og aðra þá sem málið varðar með það að markmiði að ná sátt um leiðir og verkfæri. Það samtal hefur ekki skilað árangri hingað til en þó eygjum við von um að við nálgumst sameiginlega sýn,“ sagði Oddný.

Tillaga um stofnun markaðsjöfnunarsjóðs

Nýjar tillögur um aðgerðir lúta að því að stofna sk. markaðsjöfnunarsjóð sem byggður yrði upp á fjármunum sem kæmu úr greininni sjálfri. Sagði Oddný að sambærilegir sjóðir væru nýttir í sama tilgangi víða um heim.

Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur hefur unnið tillögur fyrir Landssamtök sauðfjárbænda og sagði frá þeim við setningu fundarins. Þær ganga í stuttu máli út á að bændur greiði ákveðna prósentu af sinni veltu inn í sameiginlegan sjóð sem gegndi því hlutverki að hlaupa undir bagga þegar verðlækkanir verða á mörkuðum eða gengið er óhagfellt. Þannig mætti koma í veg fyrir mikið tap og jafna út sveiflur. Sjóði sem þessa mætti líka nota í markaðsstarfi og fjölmörg dæmi eru um það um allan heim.


Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur.

Oddný Steina sagði að markaðsjöfnunarsjóður gæti komið að góðu gagni hér á Íslandi við þær aðstæður sem nú væru uppi og gegnt hlutverki til sveiflujöfnunnar til lengri tíma.

„Sjóðir sem þessir starfa á markaði innan samkeppnisreglna í það minnsta í þremur heimsálfum, þar á meðal á EES-svæðinu. Með slíkum aðgerðum er ekki gripið inn í samkeppni eða unnið á móti hagræðingu, heldur er leitast við að jafna tímabundnar sveiflur. Samhliða þessu þarf að byggja inn í búvörusamningana verkfæri til að tempra framleiðsluna, valfrjálsa hvata. Hvata sem gagnast þeim sem sjá sér hag í að fækka eða draga sig út úr greininni. Afturhald og eftirgjöf er ekki í boði við þessar aðstæður,“ sagði Oddný.

Í lok setningarræðunnar sagði Oddný Steina að það væri hægt ef vilji væri fyrir hendi að snúa vörn í sókn. Allt væri spurning um vilja og aðgerðir til sækja fram og ná greininni upp úr öldudalnum.

„Ef vilji er fyrir hendi er líka hægt að færa starfandi sauðfjárbændum aukin og ný verkefni á sviði landbótaverkefna og kolefnisbindingar og auka þar með atvinnumöguleika í dreifbýli. Ef vilji er fyrir hendi má efla vöruþróun og sækja fram á mörkuðum bæði innanlands og utan.“

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...