Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Við kjósum íslenskan landbúnað
Skoðun 6. október 2016

Við kjósum íslenskan landbúnað

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Í síðustu viku birtist í stærstu prentmiðlum landsins grímulaus áróður gegn nýgerðum búvörusamningum í heilsíðuauglýsingu frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, Samtökum skattgreiðenda, Viðskiptaráði Íslands, Neytendasamtökunum og Alþýðusambandi Íslands. Inntak aug­lýsingar­innar var að gagnrýna meint samráðsleysi stjórnvalda og fulltrúa bænda við þessi samtök við gerð búvörusamninga. Tímasetningin er augljós þar sem tilgangurinn er að koma því að hjá kjósendum og stjórnmálamönnum, sem nú eru í kosningaham, að búvörusamningarnir séu slæmir og að losa þurfi enn frekar um tollvernd á búvörum.
 
Því er til að svara að í ársbyrjun var fundað með flestum af þessum aðilum um málefni búvörusamninganna. Ágætar umræður sköpuð­ust og í mörgum atriðum voru bændur sammála hópnum, t.d. um markmið um lægra matarverð og að tryggja rekstrargrundvöll landbúnaðarins. Um breytt stuðningsform var tekið tillit til ýmissa sjónarmiða, t.d. um að auka jarðræktarstuðning og minnka vægi sértæks búgreinastuðnings. Í tollamálunum voru menn sammála um að vera ósammála en tillögur hópsins fólust meðal annars í því að afnema tolla með öllu á alifugla- og svínakjöti. 
 
Í þessu samhengi er vert að rifja upp að í fyrrahaust var gerður nýr tollasamningur um búvörur á milli ESB og Íslands sem kveður á um verulega aukinn innflutning á búvörum á litlum eða engum tollum. Þess má vænta að vöruframboð í verslunum breytist í kjölfarið. Erlendar matvörur verða fyrirferðarmeiri og verðsamkeppni mun harðna. Íslenskir bændur og afurðasölufyrirtæki þurfa að mæta þessari nýju stöðu og breytingarnar kunna að hafa áhrif á framleiðslumagn búvara hér á landi í framtíðinni.
 
Hvað hangir á spýtunni?
 
Við bændur vitum nákvæmlega hvað vakir fyrir hagsmunasamtökum sem stóðu að auglýsingunni. Það er að auka innflutning á matvörum og bæta við milljarðahagnaðinn sem heildsalar og örfáir eigendur og stjórnendur smásöluverslana njóta. Í sjálfu sér kemur sérhagsmunabarátta félaga eins og Samtaka verslunar og þjónustu, Viðskiptaráðs og Félags atvinnurekenda ekki á óvart. Þau eru einfaldlega að vinna fyrir sína umbjóðendur. Mögulega er einhver skjálfti í herbúðum kaupmanna sem nú sjá fram á harðnandi samkeppni með tilkomu erlendu verslunarkeðjunnar Costco. Þá er vænlegt að berjast fyrir því að auka innflutning á ódýrum búvörum því þar er gróðavon.
 
Hins vegar er sárt að sjá Neytendasamtökin og Alþýðusambandið stökkva á vagninn og syngja sömu gömlu grátstefin um vont landbúnaðarkerfi og ofurtolla með heildsalaklúbbnum.
 
Innan Alþýðusambands Íslands virðist lítill hópur manna berjast ötullega fyrir hagsmunum verslunarvaldsins í landinu. Af hverju snúast þeir á sveif með heildsalasamtökum sem heimta niðurfellingu tolla og hafa orðið uppvís að því að tala niður til búgreina eins og svína- og kjúklingaræktar? Þeir virðast gleyma verkafólki um allt land sem starfar í matvælaframleiðslunni og hefur lifibrauð sitt af landbúnaði. Þetta eru þeirra eigin félagsmenn. Þúsundir manns reiða sig á öflugan landbúnað sem ekki væri svipur hjá sjón ef tollverndar og stuðningskerfis nyti ekki við. 
 
Það má e.t.v. minna forsvarsmenn ASÍ á að það voru íslenskar landbúnaðarafurðir sem héldu aftur af verðbólgunni á eftirhrunsárunum þegar innflutt matvæli hækkuðu upp úr öllu valdi vegna gengisáhrifa. Þá var gott að eiga innlendan landbúnað.
 
Alþingiskosningar á næsta leiti
 
Stutt og snörp kosningabarátta er hafin eftir gjörningaveður í pólitíkinni undanfarna mánuði. Útlit er fyrir að fjöldi nýrra alþingismanna setjist á þing í kjölfarið. Það er mikilvægt fyrir okkur sem störfum í landbúnaðinum að taka virkan þátt í umræðu um öll þau mál sem að okkur snúa. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að fræða aðra um málefni atvinnugreinarinnar – útskýra og eiga samtal um gildi landbúnaðarins. Við þurfum að vera klár á því að svara spurningum um réttlætingu á tollvernd og stuðningi við atvinnugreinina.
 
Ríkisútvarpið lét gera skoðanakönnun á dögunum á því hvað almenningur vill að sé sett á oddinn fyrir kosningarnar. Heil­brigðismálin voru þar efst á blaði, þar næst málefni aldr­aðra og öryrkja, þá húsnæðismálin, mennta­mál­in, flug­vallarmál, nýting náttúruauðlinda og gjaldtaka í ferðaþjónustu, skattamál og endurskoðun stjórnarskrár. Atvinnuuppbygging á lands­byggðinni var nefnd ásamt umhverfismálum og málefnum flóttamanna. Athygli vekur að viðræður um ESB-aðild voru neðst á listanum. Ekki var spurt um landbúnaðarmál þó að umfjöllun um búvörusamninga hafi verið fyrirferðarmikil á síðustu mánuðum.
 
Þó könnun Ríkisútvarpsins sýni að mörg mikilvæg mál séu til umræðu í samfélaginu er af nógu að taka þegar kemur að landbúnaðinum. Það skiptir verulegu máli að endurskoðun búvörusamninga fyrir árið 2019 gangi vel fyrir sig og að mótuð verði landbúnaðarstefna á næstu rúmum tveimur árum sem leiðir til víðtækrar sáttar um landbúnað. Þetta er málefni sem kjörið er að ræða við þingmannsefni. Þá má spyrja hvaða stefnu flokkarnir hafa þegar kemur að málefnum landbúnaðarins. Því miður er það oft svo að þeir sem gagnrýna hæst leggja minnst til málanna þegar á hólminn er komið. Vonandi hefur umræðan um búvörusamningana síðustu mánuði hreyft við umbótaöflum í stjórnmálastétt og þá er aldrei að vita nema menn leggi gott eitt til.
 
Fjölmörg önnur mál sem snerta landbúnaðinn er upplagt að ræða við stjórnmálamenn framtíðar­innar. Kjör bænda og samkeppnishæfni ber þar hátt. Það skiptir máli að rekstrarumhverfi greinarinnar sé með þeim hætti að bændur geti lifað sómasamlegu lífi af búskap. Þar er tollverndin mikilvæg og það umhverfi sem fyrirtækjum er almennt búið í landinu. Af innviðunum má nefna samgöngur, skólamál, fjarskipta- og orkumál sem spila stórt hlutverk.
 
Mótum nýja orðræðu um landbúnað
 
Mál framtíðarinnar og „ný orðræða“ um landbúnaðarmál mun hverfast um annað en við þráttum um í dag. Unga fólkið, bæði bændur og neytendur morgundagsins, er að setja önnur mál á dagskrá sem við verðum að tileinka okkur betur en gert hefur verið til þessa. Þar ber loftslagsmálin hæst, kolefnisfótspor, umhverfis- og náttúruvernd, uppgræðsla og landnýting, dýravelferð, heilbrigði dýra og heilnæmi matvælanna sem við bjóðum upp á og gildi menningarlandslags. Málefni ferðaþjónustunnar eiga án vafa eftir að fléttast æ meira inn í landbúnaðarumræðuna en verið hefur. Í þessum málaflokkum þurfa bændur að staðsetja sig með ákveðnum hætti, móta stefnu og taka skýra afstöðu. Krafan um aukna upplýsingagjöf um framleiðsluhætti og gegnsæi í allri virðiskeðjunni eru atriði sem almenningur kallar á. 
 
Framundan eru ótal tækifæri fyrir land­búnaðinn ef rétt er á málum haldið. Við bændur þurfum að vera ófeimnir að ræða um skipan landbúnaðarmála og matvælaframleiðslu í bráð og lengd. Stundum þarf að tala með tveimur hrútshornum og segja hlutina umbúðalaust en best er að eiga uppbyggileg samtöl þar sem menn ræða sig til sameiginlegrar niðurstöðu. Látum ekki slá okkur út af laginu og höldum uppi merkjum íslensks landbúnaðar nú sem endranær.
Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...