Versta berjasumar í mörg ár
Allt útlit er fyrir að berjauppskera úr náttúru Íslands verði með versta móti þetta haustið.
Að sögn Þorvaldar Pálmasonar, eins af aðstandendum vefsins berjavinir.com, er smá von til þess að það rætist örlítið úr aðalbláberjunum ef tíðin verður hagstæð það sem eftir lifir sumars og í byrjun hausts. „Aðalbláberin eru fljótust til og því helst von með þau. Annars eru bara engin ber, neins staðar. Þannig að uppskeran verður einfaldlega mjög lítil eða engin víðast hvar.
En ég bendi á að það er talsvert af aðalbláberjagrænjöxlum, þar sem aðalbláber vaxa – til dæmis í Svarfaðardal. Ef það kemur svolítið hlýindaskeið núna þá er, eins og ég segi, smá von til þess að það verði hægt að tína eitthvað af aðalbláberjum á þeim stöðum. Svo koma nú kannski einhver krækiber. Það má nú vera ansi hart til að þau láti ekki sjá sig. Verstar eru horfurnar fyrir bláberin.“
Þrátt fyrir að nokkuð sólríkt hafi verið vestanlands í sumar segir Þorvaldur að það nægi ekki. „Það var það kalt þannig að bjartviðrið dugar ekki til. Það ræður mjög miklu hvernig vorið er – og það var einstaklega kalt. Svo skiptir máli hvernig sumarið er og það hefur líka verið kalt – og líka hefur vantað sól eins og á Norður- og Austurlandi. Við Berjavinir höldum úti Facebook-síðu og við höfum hvergi frétt af vænlegri sprettu. Ég óttast að þetta verði eitt versta berjaár í nokkurn tíma,“ segir Þorvaldur berjavinur Pálmason.