Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Phillip Sponenberg.
Phillip Sponenberg.
Mynd / TB
Á faglegum nótum 25. september 2014

Verndun erfðaauðlinda búfjár er nauðsynleg

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bandaríski dýralæknirinn og erfðafræðingurinn dr. Phillip Sponenberg hélt fyrir skömmu fyrirlestur á vegum Bændasamtaka Íslands um erfðaauðlindir búfjár og nauðsyn þess að vernda þær.

Sponenberg sagði í stuttu samtali við Bændablaðið að þrátt fyrir að fjöldi búfjárkynja væri í útrýmingarhættu væri vaxandi vilji til að vernda þau enda nauðsynlegt til að viðhalda erfðafjölbreytileika búfjárstofna.

Í fyrirlestrinum kom fram að fjölmargar ástæður liggi að baki nauðsyn þess að vernda ólík búfjárkyn og að engin ein ástæða sé mikilvægari en önnur. „Rökin sem algengust eru í dag eru að með því að vernda ólík kyn sé verið að viðhalda erfðaefni sem geti komið sér vel í framtíðinni vegna breytinga í umhverfinu eða til að koma á móts við breyttar neysluvenjur. Báðar þessar ástæður eru góðar og gildar og tengjast fæðuöryggi.“

Margs konar rök fyrir verndun

Sponenberg segir að einnig sé hægt að líta á nauðsyn þess að vernda erfðaauðlindir út frá þeirri hugmynd að okkur hafi verið afhent búfé með fjölbreytt genamengi og að okkur beri skylda til að varðveita það fyrir komandi kynslóðir.

Hægt er að rökstyðja verndunina út frá vísindalegum rökum og segja að hvert kyn búi yfir sérstöku genamengi og að fjölbreytileikinn sé bæði áhugaverður og gagnlegur út frá vísindalegu sjónarhorni. Dæmi um þetta er sjaldgæft sauðfjárkyn sem nefnist Jakobsfé og er eina dýrið að manninum undanskildum sem vegna genamengis síns getur borið Tay-Sachs-sjúkdóminn. Vegna þessa er féð mjög mikilvægt þegar kemur að rannsóknum á sjúkdómnum og gæti orðið lykillinn að lækningu.

Ekki má gleyma menningarlegum rökum sem líta til tengsla búfjárkynjanna við samfélögin sem ræktuðu þau upp og nytjuðu. Búfjárkyn sem hafa verið ræktuð vegna sérstakra eiginleika og nytja eru hluti af sögu, menningu og afrekum samfélaga á sama hátt og byggingar, bókmenntir og listir.

Breyttar áherslur í ræktun

Miklar breytingar hafa orðið í ræktun búfjár frá því um aldamótin 1900. Fyrir þann tíma voru breytingar hægar og stofnar stöðugir. Útbreiðsla stofna var út frá ákveðnum svæðum þar sem þeir höfðu aðlagast tilteknu veðurfari, fæðu og landslagi. Umhverfisþættir höfðu því mikið að segja um þróun, útlit og nytjar dýranna.

Eftir 1900 var lögð áhersla á ræktun gripa sem gáfu meira af sér og minni áhersla lögð á stofna sem voru lagaðir að ákveðnum umhverfisaðstæðum. Hraði þessara breytinga var mikill á efnahagslega þróuðum svæðum um allan heim. Afleiðing þessa er sú að stofnar sem höfðu verið að breiðast út hægt og sígandi í 10.000 ár hafa dregist mikið saman á síðustu 100 árum. Og af þeim sökum er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að vernda þá og erfðafjölbreytileikann innan þeirra.

Þróun búfjárstofna

Að sögn Sponenberg þróast stofnar á ólíkan hátt en grunnurinn þeirra byggist á erfðamengi dýranna sem stofninn sprettur úr. Það hversu einangraðir stofnar eru og hvaða dýr eru valin til áframeldis, umhverfisþættir og inngrip manna hafa þar einnig mikið að segja um þróun stofna.

Flestir búfjárstofnar rekja uppruna sinn til staðbundinna hópa eða hjarða sem hafa verið lengi á sama stað án innblöndunar við aðrar hjarðir. Dæmi um þetta eru íslensku landnámshænurnar sem hafa verið einangraðar frá öðrum hænsnastofnum um margar aldir og teljast því sérstakt hænsnakyn.

Einkenni staðbundinna stofna ráðast því að miklu leyti af einangrun þeirra og grunnerfðamengi stofnsins án utanaðkomandi innblöndunar. Einangrun ólíkra stofna getur verið vegna staðhátta og eru stofnar sem þróast á eyjum gott dæmi um slíkt. Einangrunin getur einnig verið menningartengd, til dæmis þegar eigendur búfjárins hefta blöndun þess við önnur kyn.

Einangrun af þessu tagi er minni í dag en áður vegna aukins áhuga á kynblöndun og betri samgangna. Hættan á kynblöndun stofna sem vert er að vernda hefur því aldrei verið meiri.

Næsta skref í þróun stofna eru yfirleitt skipulagðar kynbætur sem miða að því að gera gripina sem líkasta innbyrðis. Þessi þróun hófst á átjándu öld og óx fiskur um hrygg á þeirri nítjándu. Á þessum tíma fóru ræktendur að ákveða hvaða eiginleikum skyldi ná fram og vægi umhverfisþátta minnkaði. Afleiðingin er sú að fjöldi sjaldgæfra eiginleika hefur horfið úr stofnum sem teknir hafa verið til ræktunar og erfðamengi þeirra orðið einsleitara og um leið fábreytilegra.

Verndun byggist á margþættum aðgerðum

Árangur vel heppnaðrar verndunar felst í nokkrum ólíkum aðgerðum. Fyrst þarf að greina hvaða stofna á að vernda, tryggja öryggi þeirra og viðhald, bata og eflingu sé þess þörf.

Fyrsta skrefið felst í því að ákvarða hvort viðkomandi hópur dýra teljist sérstakur stofn eða hvort genasamsetningin sé sú sama og í öðrum hópum og hóparnir einungis ólíkir í útliti.

Greining er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að verndun staðbundinna stofna sem yfirleitt eru lítt þekktir utan við heimkynni sín. Næst er að ákvarða hvort í viðkomandi stofni finnist eiginleikar sem vert sé að vernda. Eins og gefur að skilja getur slíkt reynst örðugt. Sé svo er nauðsynlegt að tryggja öryggi dýranna og viðhald stofninum til áframræktunar.

Sponenberg sagði að lokum að þegar kæmi að verndun búfjárstofna yrði að gæta vel að öllum ofangreindum þáttum því að mistök á einu stigi verndunarinnar gæti orðið til þess að eiginleikarnir sem ætti að vernda glötuðust að eilífu.

Íslenskir búfjárstofnar áhugaverðir

Bændablaðið átti stutt spjall við Sponenberg að fyrirlestrinum loknum og spurði hver væru tengsl hans við Ísland og hvað Íslendingar þyrftu að hafa í huga þegar kemur að verndun íslenskra búfjárkynja.

„Ég starfaði um tíma með dr. Stefáni Aðalsteinssyni og þá vaknaði áhugi minn á íslenskum búfjárstofnum sem ég tel mjög áhugaverða vegna þess hvað þeir hafa verið einangraðir í langan tíma. Að mínu mati ættu Íslendingar að fara gætilega þegar kemur að hugmyndum um íblöndun erlends erfðaefnis við íslenska stofna. Í mörgum tilfellum má ná meiri árangri í kynbótum með því að velja æskilega einstaklinga úr einangruðum stofnum til framræktunar en með því að koma með nýtt erfðaefni inn í stofninn. Þetta er greinilegt á Íslandi í mjólkurkúm, hrossum og sauðfé þar sem erfðaframfarir hafa verið miklar samfara nýtingu.“ 

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...