Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Kristbjörg Góa Sigurðardóttir ásamt Benjamín Baldursyni á Ytri-Tjörnum og  Hólmgeiri Karlssyni, framkvæmdastjóra Bústólpa.
Kristbjörg Góa Sigurðardóttir ásamt Benjamín Baldursyni á Ytri-Tjörnum og  Hólmgeiri Karlssyni, framkvæmdastjóra Bústólpa.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 20. október 2015

Velgengni félagsins langt í frá sjálfgefin

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Okkur hefur í raun gengið vel hjá Bústólpa á liðnum árum, komumst klakklaust í gegnum hrunárin og höfum vaxið jafnt og þétt síðan,“ sagði Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa.
 
Félagið fagnaði því á dögunum að lokið var við byggingu nýrrar verslunar og starfsmannaaðstöðu og var húsnæðið tekið í notkun fyrr á árinu. Eldra verslunarrými var í kjölfarið breytt í skrifstofuhúsnæði. Fjöldi gesta mætti í hóf sem haldið var af þessu tilefni. Sérstakur gestur var Haraldur Benediktsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands.
 
Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Bústólpa á Akureyri undanfarin ár þar sem markvisst hefur, að sögn Hólmgeirs, verið unnið að því að efla félagið þannig að það geti betur þjónustað landbúnaðarsamfélagið á Norður- og Austurlandi. „Við höfum unnið eftir 5 ára áætlun þar sem markmiðið var að félagið yrði að nútíma matvælafyrirtæki í lok þess tímabils hvað varðar gæði framleiðslu og þjónustu og einnig ásýndar og ímyndar félagsins á markaði.“
 
Afköst tvöfölduð og gæði jukust
 
Byrjað var á að endurnýja vinnslubúnað í verksmiðju og var hann tekinn í notkun haustið 2010. Sú breyting var að sögn Hólmgeirs sett í forgang þar sem með henni urðu gæði framleiðslunnar meiri, afkastageta og hagkvæmni vinnslunnar jukust einnig til muna. Afköst tvöfölduðust og nýting hráefna og gæði við vinnsluna urðu eins og best verður á kosið. Nýtt gæðakerfi var unnið á sama tíma en það uppfyllir ýtrustu kröfur til matvæla- og fóðurframleiðslu.
 
Hólmgeir segir að einnig hafi markvisst verið unnið að því að auka þjónustu við bændur með framboði á rekstrarvörum og hefði sá liður í starfsemi fyrirtækisins aukist á liðnum árum. Stórt skref í þá átt hafi verið stigið þegar Bústólpi tók við þjónustu og sölu á búnaði frá DeLaval árið 2012.
 
Í lok þess sama árs var lóð félagsins á Oddeyrartanga stækkuð, en það er lykilþáttur í að áætlanir þess gætu gengið eftir. Þar segir Hólmgeir að Hafnasamlag Norðurlands hafi átti stóran þátt, en samlagið studdi aðgerðir Bústólpa á alla lund.
 
Umtalsverð veltuaukning á liðnum árum
 
Fram kom í ávarpi Hólmgeirs að velta félagsins árið 2007 nam 875 milljónum króna, á liðnu ári, 2014, var hún rúmlega 2 milljarðar og stefnir í 2,2 milljarða í ár. Mestu munaði um sölu rekstrarvara og þjónustu, hvort tveggja hefði aukist mikið. Veruleg aukning varð einnig í fóðurframleiðslu, bæði vegna aukinnar kjarnfóðurgjafar og eins hefði markaðshlutdeild Bústólpa aukist.
 
Hólmgeir sagði að velgengni félagsins væri langt í frá sjálfgefin. Árangurinn megi umfram annað þakka tryggum viðskiptavinum og einstökum hópi starfsfólks auk þess sem eigendur hefðu sýnt stuðning og gefið færi á að byggja félagið upp og sækja fram.
 
Stöndum saman
 
Góð samvinna félagsins og bænda á svæðinu væri mikilvæg og einn af ráðandi þáttum þegar horft væri til rekstrarumhverfis landbúnaðarins. Sama gilti um afurðasölufélögin, um þau þyrftu bændur að standa vörð sem aldrei fyrr. „Mín von er að við stöndum saman, Bústólpi og bændur, í að tryggja sjálfstæði og afl landbúnaðar á okkar svæði. Það gerist hins vegar ekki nema með rækt við það sem við höfum, samstöðu og óbilandi trú á svæðið okkar sem mikilvægan hlekk í matvælasjálfstæði þjóðarinnar. Þeim skilaboðum þurfum við líka að koma til þjóðarinnar, sem ætti að vera okkar helsti bandamaður,“ sagði Hólmgeir.

20 myndir:

Skylt efni: Bústólpi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...