Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Tveggja mjaltaþjóna fjós með velferðarsvæði við bakhlið neðri mjaltaþjónsins. Þetta er eitt af fyrstu velferðar­svæðunum sem hönnuð voru í Danmörku en í upphafi voru þau hönnuð sem hálmdýnusvæði eins og hér sést. Þetta velferðarsvæði væri í dag með legubá
Tveggja mjaltaþjóna fjós með velferðarsvæði við bakhlið neðri mjaltaþjónsins. Þetta er eitt af fyrstu velferðar­svæðunum sem hönnuð voru í Danmörku en í upphafi voru þau hönnuð sem hálmdýnusvæði eins og hér sést. Þetta velferðarsvæði væri í dag með legubá
Á faglegum nótum 20. janúar 2016

Velferðarsvæði í fjósum

Undanfarin ár hafa orðið meiri breytingar á grunnhönnun fjósa en sést hafa í alllangan tíma en segja má að upphaf þessara breytinga megi þó rekja til þeirrar bylgju sem orðið hefur um nánast allan hinn vestræna heim, þ.e. að færa kýr úr básafjósum í lausagöngufjós með einum eða öðrum hætti. 
 
Frá síðustu aldamótum hefur orðið mikil bylting hér á landi þegar horft er til húsvistar nautgripa og geta fá lönd í Evrópu ef þá nokkurt annað státað af jafn örri breytingu. Á einungis 15 árum hefur aðstaðan breyst mikið og farið úr því að vera með nánast allar kýr landsins í básafjósum yfir í að nú er svo komið að góður meirihluti kúnna er í lausagöngu.
 
Þróun lausagöngufjósa
 
Á þessum sama tíma hafa fjósgerðir þróast allverulega, bæði með tilkomu nýrrar mjaltatækni eins og mjaltaþjóna en einnig vegna sífellt vaxandi áherslu á bætta velferð mjólkurkúa. Þannig eru til í dag ótal mismunandi, og misgóðar, lausnir sem ætlað er að bæta velferð kúa í lausagöngu. Nefna má dæmi um velferðar herðakambsslár en nú til dags dettur orðið fáum í hug að setja upp innréttingar í legubása sem eru með því sem kalla mætti hefðbundnar herðakambsslár, þ.e. bara venjuleg bein rör. Rör þessi gegna því hlutverki að halda innréttingum á milli legubása í skefjum, en það hefur löngum verið þekkt að þessar slár valda álagsmeiðslum á kúnum. Í dag eru flestir framleiðendur innréttinga með lausnir á þessu og bjóða því upp á leiðir sem voru hreinlega ekki þekktar fyrir aðeins örfáum árum. Flest hnakkarörin eru í dag hlykkjótt og í raun allt öðruvísi hönnuð en þær herðakambsslár sem settar voru upp í nýjum fjósum fyrir aðeins örfáum árum.
 
Fyrstu velferðarsvæðin
 
Fyrir nokkrum árum fóru að skjóta upp kollinum fjós þar sem mjaltaþjónn var látinn þjónusta tvo til þrjá hópa af kúm en áður voru mjaltaþjónarnir oftast bara settir út í enda fjóss, þar sem áður var mjaltabás. Nú er þetta breytt og hvarflar að fáum að byggja slík fjós enda nýtir það mjaltaþjóninn illa. Þessi breytta hugsun við hönnun fjósa gerði það að verkum að á „bakhlið“ mjaltaþjónsins mátti hafa hóp af kúm og/eða kvígum sem þurfti að veita sérstaka athygli s.s. vegna þess að um nýbærur var að ræða, óþekkar kýr eða kvígur eða t.d. kýr sem nenntu ekki sjálfviljugar í mjaltir. Þessi hópur kúa og/eða kvígna var oft kallaður velferðarhópur og leiddi nafngiftin af sér að svæðið sem þær voru hýstar á var kallað velferðarsvæði í fjósinu. Með þessu formi sparaðist mikil vinna í mjaltaþjónafjósum og vakti athygli út fyrir raðir kúabænda með mjaltaþjóna. Bændur með hefðbundna mjaltabása sáu strax kosti þess að vera með svona svæði í fjósum sínum og leiddi sá áhugi til þess að fleiri og fleiri fjós fóru að vera með svona velferðarsvæði. Reynslan af þessum svæðum er svo góð í Danmörku að nú orðið er skylda að hafa slík svæði í nýbyggðum fjósum. Þessum svæðum er stundum ruglað saman við sjúkrastíur en hér er auðvitað um allt annars konar svæði í fjósinu að ræða.
 
Fjórir hópar kúa
 
Þegar fjós eru hönnuð nú til dags er hönnun fjóssins skipt í fjögur aðskilin svæði. Ég hef oft talað um að upphaf mjaltaskeiðsins sé ekki við burð, heldur þegar kýrnar eru færðar í geldstöðu. Þá hefst í raun undirstaða komandi mjaltaskeiðs og brýnt að hlúa einstaklega vel að geldkúnum sem og kvígunum sem eiga u.þ.b. átta vikur í burð. Í mínum huga er því fyrsta hönnunarsvæði fjóss geldkúaaðstaðan, aðstaðan fyrir kvígur síðustu átta vikurnar fyrir burð og burðarsvæðið, hönnun þessarar aðstöðu er efni í sér pistil. Þar á eftir kemur svo hönnun velferðarsvæðisins, sem ég kem nánar inn á hér síðar. Þriðja svæðið í fjósinu er svo aðstaðan fyrir kýr á fyrri hluta mjaltaskeiðs (14–100 daga frá burði) og fjórða svæðið er fyrir kýr á síðari hluta mjaltaskeiðs (100–305 daga frá burði). Í mörgum fjósum er svæðum þrjú og fjögur steypt saman í eitt hönnunarsvæði.
 
Norðurlöndin leiðandi
 
Eins og svo oft áður, þegar sjónir beinast að bættri dýravelferð, þá eru Norðurlöndin í sérflokki og leiðandi á heimsvísu í málaflokknum, ekki einungis þegar horft er til velferðar nautgripa heldur einnig annarra búfjártegunda. Það þarf því ekki að undra að norrænir fjóshönnuðir hafi haft hönnun velferðarsvæða í fjósum á dagskrá sinni þegar þeir hittust hér á landi í haust á ráðstefnu sinni, Nordisk byggetræf, en það var danski hönnuðurinn Anja Juul Freudendal sem flutti erindið. Hér verður stiklað á stóru yfir helstu atriði sem lúta að hönnun þessara svæða í lausagöngufjósum nú til dags.
 
Hvaða gripir?
 
Kýr sem eru hafðar á velferðarsvæði í fjósi eru oftast nýbærur (3–14 daga eftir burð), kvígur og kýr sem mætti skilgreina sem „vandamálakýr“. Þetta gætu verið eldri kýr sem e.t.v. mjólka vel en þurfa meiri hvíld en aðrar kýr, eða kýr sem eru að jafna sig eftir einhver áföll o.s.frv. Í raun er það einfaldlega hver og einn bóndi sem ákveður og skilgreinir sjálfur hvaða gripi hann vill hafa í sínu velferðarsvæði. Reynslan sýnir að þessum kúm og kvígum er hættara við að fá framleiðslusjúkdóma og ef þær eru hafðar í tiltölulega litlum hópi er mun auðveldara að veita einstaklingseftirlit en ef þær væru saman með t.d. öðrum 40–50 kúm eða þaðan af fleiri.
 
Hvar staðsett?
 
Eins og hér að framan greinir eru þessi svæði oft staðsett á bak við mjaltaþjóna en í fjósum með mjaltabásum eru þessi svæði langoftast höfð eins nálægt mjaltaaðstöðunni og unnt er og gjarnan hönnuð þannig að þessi svæði séu eitt af því sem oftast er gengið framhjá við dagleg störf í fjósinu.
 
Hvernig aðbúnaður?
 
Velferðarsvæði í fjósum eru langoftast hefðbundnir legubásar, líkt og eru í þeim hluta fjóssins þar sem kýrnar sem eru í hópunum 14–100 daga frá burði og 100–305 daga frá burði. Það sem einkennir þó þetta svæði er að það er lokað af frá hinum svæðunum og með stuttar gönguleiðir í vatn, kúabursta og að fóðurgangi. Í sumum fjósum í Danmörku, sér í lagi stærri fjósunum, er velferðarsvæðunum skipt upp í tvo aðbúnaðarhluta. Annar og mun stærri hlutinn er með legubásum en hinn hlutinn með hálm- eða sanddýnu. Til þess að komast inn á þetta svæði, sem er afar eftirsótt af kúnum sjálfum, þurfa þær að fara í gegnum forflokkunarhlið og einungis þær kýr eða kvígur sem hafa heimild, t.d. geta verið að jafna sig eftir aðgerð eða fótamein, geta komist inn á þetta góða legusvæði. Frá því liggur svo leiðin um einstefnuhlið og inn á hefðbundna velferðarsvæðið á ný. Ef ég væri að hanna fjós í dag myndi ég tvímælalaust hanna velferðarsvæðið með þessum hætti. 
 
Hve stórt svæði?
 
Þessi svæði rúma oft um það bil fjórðung  og allt að þriðjung gripanna og er helsti kostur kerfisins að „vinnufélagarnir“ eru miklu færri og því mun auðveldara að veita eftirlit og aðstoð í fjósinu. 
Stærðin ræðst þó mikið af óskum kúabóndans sjálfs, en ef miðað er við jafnan burðartíma og 35 prósent kvíguhlutfall má gera ráð fyrir að plássþörfin sé um það bil 12–14 gripir í 50 árskúa fjósi. Þetta þarf þó hver og einn að reikna með sínum ráðgjafa að sjálfsögðu.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

5 myndir:

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...