Velferðarsjóður BÍ verði stofnaður
Á ársfundi Bændasamtaka Íslands nú rétt í þessu kynnti Guðný Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands (BÍ), áform um stofnun velferðarsjóðs í nafni BÍ.
Í máli Guðnýjar kom fram að sjóðurinn muni hafi það hlutverk að styðja við bakið á félagsmönnum samtakanna þegar þeir verði fyrir meiriháttar áföllum í búskap sínum. Það yrði til dæmis gert með því að að veita styrki til að ráða fólk til afleysinga í veikindum og stuðning vegna útgjalda til heilbrigðisþjónustu sem ekki eru greidd af Sjúkratryggingum. Einnig gæti hlutverk sjóðsins verið að veita styrki til heilsueflingar og til forvarnarverkefna.
Stofnframlag verður ein milljón króna sem greiðist af Bændasamtökum Íslands.
Í drögum að stofnun Velferðarsjóðs BÍ er gert ráð fyrir að stjórn BÍ verði falin eftirfarandi hlutverk:
- að vinna reglur um styrkhæf verkefni sjóðsins.
- að afla viðbótarfjármagns í sjóðinn, að lágmarki 150 milljónir króna.
- að skipa stjórn sjóðsins.
Reglur verði sendar til umsagnar aðildarfélaganna áður en þær eru staðfestar af stjórn BÍ.
Sjóðurinn hefji starfsemi þegar lágmarks fjármögnun hefur verið náð.