Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Falleg mynd af holdakú og kálfi.
Falleg mynd af holdakú og kálfi.
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir
Á faglegum nótum 20. apríl 2015

Vangaveltur um fóðrun, aðbúnað og bústjórn

Höfundur: Anna Lóa Sveinsdóttir
Í meginatriðum skiptist búgreinin í tvær framleiðslulínur, hjarðeldi byggt á holdakúm eða uppeldi á aðkeyptum eða eigin gripum úr mjólkurframleiðslu. Margt eiga þessar framleiðslulínur sameiginlegt en einnig er margt sem skilur að. 
 
Góð fóðrun og aðbúnaður eru stórar forsendur þess að gripur nái að skila því sem ætlast er til út frá þeim markmiðum sem bóndinn setur sér, hvor framleiðslulínan sem er valin. Horfa þarf gagnrýnum augum á búið sitt þótt vel gangi, spyrja sig spurningar og láta móðu hversdagsleikans ekki yfirtaka skýra hugsun og yfirsýn. Margar spurningar geta vaknað en gott er að þær skjóti upp kollinum annað slagið því það gefur til kynna að framleiðslan er undir gagnrýnu eftirliti.
 
Fóðrun gripa
 
Hvað er verið að gefa nautgripum í uppeldi? Vaxtarhraðatilraun á Möðruvöllum, sem fékk fyrstu kynningu á síðasta Fagþingi LK, hefur sýnt að forskot náðist meðal nauta sem fengu betra eldi fram til 150 daga aldurs heldur en hinir. Þótt tilrauninni sé ekki lokið þá hefur annar hópurinn haldið vaxtarforskoti sem þeir fengu í upphafi og væntingar benda til að fyrr megi ná settum markmiðum, t.d. um lokaþunga, heldur en hjá hinum gripunum. Einhverjir spyrja sig að því hvort þetta sé nokkuð hægt hjá hinum almenna bónda, þá er spurt á móti; af hverju ætti það ekki að ganga? Þetta eru aðkeyptir gripir þar sem fóðrun og aðbúnaður er í lagi, með stýrðu eftirliti. 
 
Er próteinþörfum yngri gripa uppfyllt og orkuþörf eldri gripa fullnægt? Hver er hentugur fóðurstyrkur? Fá gripir nægt vatn að drekka? Er hugað að uppfylla steinefnaþörf? Eða er bara hent í þessa gripi einhverju heyi, stundum moði frá öðrum gripum, af því að þessir gripir eru duglegir að éta það sem fyrir þá er lagt? Þá er spurt, eru þeir duglegir því þeir vilja lifa af og hafa ekkert annað? Mætti ekki taka heysýni og skoða heygæði og gera fóðuráætlun, hvort sem það er á hverju ári eða annað hvert ár sé gróffóður sambærilegt milli ára? Ná fram því mesta sem gripur hefur að bjóða? Miða þarf áætlanir við þarfir gripa á mismunandi tímabilum, hvort sem það er áætlun holdakýr eða unggripa í vexti, því hægt er að gera áætlun frá fæðingu kálfs til slátrunar.
 
Aðbúnaður – Vaxtarrými gripa og meðhöndlun
 
Með tilkomu nýrrar aðbúnaðar­reglugerðar fyrir nautgripi, nr. 1065/2014, má velta fyrir sér hvort einhverjir hlutar ákvæða hennar séu ekki uppfylltir við uppeldi gripanna á búinu. Hægt er að fjalla um marga þætti en vaxtarrými er ein þeirra forsenda sem hefur áhrif á vaxtarhraða gripa. Fyrir þá sem ala gripi í stíum kemur m.a. fram að „stíur fyrir gripi í uppeldi skulu þannig gerðar eða það margar að hægt sé að skilja misstóra gripi að“. Annars staðar stendur líka að „óheimilt er að halda gripi í uppeldi saman í stíu þar sem aldursmunur og/eða þyngdarmunur er verulegur þannig að það valdi einelti, vanfóðrun eða vanþrifum“. Þá kemur fram tafla í viðauka reglugerðarinnar þar sem tilgreint er áætlað lágmarks vaxtarrými gripa miðað við aldur og þunga – afrit af þessari töflu má sjá hér að neðan. 
 
Þegar horft er yfir fjósið, getur borgað sig að fækka gripum í stíu og fá í staðinn fljótvaxtnari og veglegri gripi ef miðað er við ofangreindar upplýsingar? Skert vaxtarrými dregur úr vexti sem nemur auknum kostnaði við fóðrun gripa.
 
Er aðbúnaður ungkálfa á mjólkurskeiði, hvort sem gripur gengur undir móður eða er gefið mjólk, og fyrst þar á eftir ásættanlegur? Ungir kálfar hafa mikið yfirborð miðað við lífþunga og eru sumir hverjir holdgrannir. Umhverfi hefur því talsverð áhrif á yngri grip en eldri við sambærilegar aðstæður. Ef þeir eru aldir í stíum með steinbitagólf er hægt á einfaldan og ódýran máta að útbúa legupalla t.d. úr Euro-vörubrettum (80x120 cm) til að auka velferð þeirra. Bretti væri klætt með timbri á milli rifa og fest t.d. básamotta ofan á. Til að ná kröfum um 3–8% halla, skv. reglugerð, væri innri endi hækkaður með 10,5 cm þykku timbri sem fest er undir brettið. Frágangur þarf þó að vera slíkur að gripir geti ekki fest fætur á pallinum, milli rifa eða slíkt. Gangi kálfur með móður væri hægt að búa til hreiðurkassa sem væri sambærilegur legupallur með hliðum til að hindra að kýrin fari á pallinn en kálfurinn komist inn og út eftir hentisemi. Skv. reglugerðinni er krafa um að viðkomandi legusvæði sé að lágmarki 1 m2 fyrir hvern 100 kg lífþunga og miðað við að fæðingarþungi íslenskra kálfa er um 35 kg þá gæti eitt bretti sinnt um það bil tveimur kálfum á meðan þeir eru um 30–50 kg lifandi þunga hver. 
 
Mikilvægt er að hugsa flæði framleiðslunnar frá upphafi til enda m.t.t. aðbúnaðar. Í hjarðeldi þarf að meðhöndla gripi líkt og í stíueldi, en við hvaða aðstæður er það gert? Við meðhöndlun gripa þarf að gæta að öryggi bæði manna og gripa og tryggja að gripir komist óhindrað og óhræddir um aðhaldssvæði gripanna. Það eitt að vera með prik með poka á endanum til rekstrar án þess að fara inn á svæði sem gripirnir standa á, eykur öryggi til muna. Hvort sem um er að ræða í stíum eða í rekstrarhólfi. Þarf að betrumbæta aðhalds- og meðhöndlunaraðstöðu fyrir gripi á búinu? Við hönnun meðhöndlunaraðstöðu þarf að hafa langtímamarkmið framleiðslunnar í huga en hægt er að setja sér þrjá stefnupunkta: 
 
Verð að gera: eitthvað sem mun skipta miklu máli fyrir bónda og grip m.t.t öryggis
 
Ætti að gera: ekki nauðsynlegt en myndi betrumbæta aðbúnaðinn
 
Langar að gera: ekki mikilvægt en fjárfestingin myndi vera til bóta fyrir framtíðina
 
Öll meðhöndlun þarf að vera yfirveguð, hvort sem það er að reka grip upp á sláturbíl eða í rennu til að fara í vigtun. Ef bóndinn er yfirvegaður er gripurinn yfirvegaður. 
 
Bústjórn
 
Áður hefur verið fjallað um bústjórn í öðrum búgreinum en þessi pistill á að miða að nautakjötsframleiðslu. Þótt komi fram athugasemdir um að hún sé lítilvæg og óarðbær hliðarbúgrein við mjólkurframleiðsluna þá er hún búgrein með eftirspurn afurða sem veita þarf virðingu líkt og öðrum búgreinum. Eftirspurnin sem er til staðar ætti að virka sem frekari hvatning til bænda að vanda enn betur til verka og bæta framleiðsluna þar sem hægt er. 
 
Stunda mjólkurframleiðendur það nógu markvisst að velja sér gripi til framræktunar og nota aðra gripi til kjötframleiðslu t.d. með holdanautasæði? Kynbótaáætlanir í mjólkurframleiðslu geta styrkt nautakjötsframleiðslu til muna ef hugsað er fyrirfram í hvað gripurinn á að nýtast. Í framhaldi af þessu má velta fyrir sér er bóndi í mjólkurframleiðslu líka í nautakjötsframleiðslu eða hentar frekar að gera samning við nautakjötsframleiðendur um kaup á kálfum sem ekki nýtast í mjólkurframleiðslu en nýtast annars staðar í nautakjötsframleiðslu? Þá um leið má skapa gott rými til uppeldis á gripum á hvorri framleiðslueiningu fyrir sig. Þeir bændur sem kaupa gripi þurfa að gera ákveðnar kröfur til gripa sem keyptir eru. Er hann búinn að fá nægan brodd, er hann heilbrigður eða er hann með skitu, innfallinn eða úfinn? Hvernig er flutningur og meðhöndlun við komu í nýtt umhverfi? Hvernig grip á að byggja nautakjötsframleiðsluna á?
 
Bústjórn felur m.a. í sér að setja raunhæf markmið og finna hvaða leiðir á að fara til að ná þeim markmiðum. Yfirsýn yfir framleiðsluna hjálpar verulega til við að ná markmiðum ásamt því að hafa skapað sér umhverfi sem nýtist við eftirlit og mælieiningar á hvernig gangi að ná markmiðum.  Skýrsluhaldskerfi nautgriparæktar, Huppa.is, er verkfæri sem nýtist í nautakjötsframleiðslu þótt aðaláhersla þess sé á mjólkurframleiðslu. Þar er hægt að skrá inn upplýsingar, halda utan um ætterni, frjósemi holdakúa, halda utan um skiptingu framleiðslukyns, skrá þunga, sjá sláturyfirlit, halda utan um burð gripa o.s.frv., allt eftir því hvernig menn kjósa að nýta sér það sem forritið hefur upp á að bjóða. 
Líkt og áður hefur verið nefnt hefur þessi búgrein ekki verið talin arðbær en er vitað hver kostnaðurinn er? Er sundurgreining á kostnaðarliðum tengd nautakjötsframleiðslu ef önnur framleiðsla er á búinu? Til að vita hvar veikleikar eða styrkleikar framleiðslunnar liggja, þarf að vinna með raunhæfar forsendur til að bæta afkomu og rétta stöðu búgreinarinnar.
 
Annað bústjórnarverkfæri er gripurinn sjálfur. Hvað er gripurinn að segja okkur? Hvernig er hann heilsufarslega, atferlislega og hverju skilar hann? Gripur lýsir því sem fyrir honum er haft. Ef fóðrið er gott, nægt vaxtarrými og gripur er heilbrigður skilar hann meira til bónda heldur en gripur sem líður skort. Þetta vita allir en gera menn sér grein fyrir því í hvaða ástandi fjósið er hjá þeim þótt það flokkist ekki slæmt? Mikilvægt er því að horfa yfir fjósið, fylgjast með fóðrun, meðhöndla gripi og gera viðeigandi ráðstafanir því það skilar sér til baka. 
– Verum tilbúin fyrir framtíðina.

3 myndir:

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...