Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Val á vottun
Á faglegum nótum 19. september 2018

Val á vottun

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir

Þegar metið er hvaða vottun hentar fyrir afurð, þarf að kynna sér þann staðal sem vottað er eftir.

Sífellt fleiri fyrirtæki velta því fyrir sér hvers konar staðli, einum eða fleirum, þau ættu að fá vottun samkvæmt til að höfða til þeirra sístækkandi hópa neytenda sem leita að vottunarmerkjum á umbúðum (t.d. lífrænni vottun, siðgæðisvottun og GMO-free vottun). Eins til að auka virði afurðanna og auka eða hreinlega hafa aðgang að hágæða mörkuðum. Upptaka skilvirks stjórnunarkerfis leiðir einnig jafnan til bætts reksturs, stjórnunar og aukinna gæða afurðanna.

Til upprifjunar er staðall sem vottað er samkvæmt kröfulýsing á ferli, aðferð eða afurð - vöru eða þjónustu - sem unnt er að sannprófa á grundvelli formlegrar úttektar. Í staðli er að finna skilgreiningar, skýringar og reglur sem tilgreina nánar hvað þurfi að gera til þess að uppfylla kröfur á tilgreindu sviði.

Vottunin felst í því að vottunarstofa staðfesti skriflega að kröfur staðalsins (eða löggjafarinnar) séu uppfylltar. Að því loknu er hægt að öðlast heimild til að nota vottunarmerki á umbúðir og við markaðssetningu.

Skipta má stöðlum gróflega upp í stjórnunar­kerfisstaðla, sjálfbærni- og umhverfisstaðla í fiskveiðum og fiskeldi og svo almenna vörustaðla.

Undir stjórnunar­kerfisstaðla falla almennir gæðakerfis- og umhverfisstaðlar eins og ISO 9001 og 14001 sem og matvælaöryggis- og gæðastaðlar eins og BRC, IFS, Global GAP og FSSC22000 sem æ fleiri fyrirtæki vinna eftir. Þeir byggja á HACCAP og eru allir  viðurkenndir af samtökunum GFSI (Global Food Safety Initiative).

Undir sjálfbærni- og umhverfisstaðla fyrir fiskveiðar og fiskeldi falla staðlar eins og IRF (Iceland Responsible Fisheries) og MSC (Marine Stewardship Council) fyrir sjálfbærar fiskveiðar, og ASC (Aquaculture Stewardship Council) og BAP (Best Aquaculture Practice) fyrir umhverfisvænt fiskeldi.

Þeir eru allir viðurkenndir af samtökunum GSSI (Global Seafood Sustain­able Initiatives). Staðl­arnir eru bæði notaðir í viðskiptum milli fyrirtækja og á umbúðir til að höfða til ábyrgra neytenda þó alls ekki allar vottaðar afurðir hafi vottunarmerkið á umbúðum.

Undir svonefnda vörustaðla falla m.a. reglur um lífræna framleiðslu, siðgæðisstaðlar (fair trade), trúartengdir staðlar (Halal og Kosher) og svonefndir „free-from“ staðlar (án GMO, glútens, dýraafurða o.s.frv.) sem verða sífellt algengari.

Þegar tegund vottunar er ljós, t.d. siðgæðisvottun, þarf að velja á milli þeirra siðgæðisstaðla sem í boði eru.

Þá ber að hafa í huga hverjir hafi náð mestri útbreiðslu, því mikilvægt er að vottunarmerkið sé vel þekkt og njóti trausts meðal neytenda/markhópa fyrirtækisins.

Rétt er að hafa í huga að ólíkt er eftir mörkuðum, hvaða vottanir og vottunarmerki eru vel þekkt. Sum eru t.d. einkum þekkt í Evrópu, en önnur í Bandaríkjunum. Í þeim tilfellum gæti verið nauðsynlegt að fá vottun samkvæmt fleiri en einum staðli (t.d. bæði Fair Trade International, sem er öflugt í Evrópu og Fair Trade USA sem er sterkt innan Bandaríkjanna).

Til eru kannanir sem gefa gagnlegar upplýsingar um útbreiðslu og traust til vottunarmerkja á viðkomandi mörkuðum sem finna má á netinu.

Oft er valið einfalt, sérstaklega þegar kemur að matvælaöryggis- og gæðastöðlum annars vegar og sjálfbærni- og umhverfisstöðlum í fiskveiðum og fiskeldi hins vegar; einfaldlega krafa frá mikilvægum viðskiptavini/vinum.

Þá getur sú staða komið upp að mikilvægur viðskiptavinur, t.d. í Bretlandi, krefjist vottunar samkvæmt matvælaöryggis- og gæðastaðlinum BRC, en viðskiptavinur í Þýskalandi samkvæmt IFS.

Þá má byrja á að spyrja annan þeirra hvort hann sætti sig við vottun samkvæmt öðrum staðli sem talinn er sambærilegur af GFSI, eða innleitt og fengið vottun samkvæmt báðum. Það þarf ekki að vera flókið þar sem staðlarnir eru að megninu til sambærilegir og oft hægt að láta gera úttekt á þeim báðum á sama tíma.

Þegar ákveðið hefur verið hvaða vottun skuli sækja um, þarf að komast að því hvaða vottunaraðilar eru faggildir til að votta skv. viðkomandi staðli, en um val á vottunaraðila var fjallað í síðustu grein.


Oddný Anna Björnsdóttir er bóndi og sjálfstætt starfandi ráðgjafi.  Greinar í Bændablaðinu um vottanir og upprunamerkingar byggjast á verkefni sem hún vann fyrir Íslandsstofu veturinn 2018.

7 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...