Útigangshross í Árborg og víðar
Í Sunnlenska fréttablaðinu 16. mars og í Bændablaðinu 22. mars er viðtal um útigangshross við Óðin Örn Jóhannsson, dýraeftirlitsmann Matvælastofnunar. Þar fullyrðir hann, að eg hafi sagt að útigangshross á Suðurlandi hafi það slæmt, þeim sé ekki gefið, þau hafi ekki skjól og þau hafi ekki vatn. Þetta er í besta falli ónákvæmni hjá Óðni.
Það sem ég sagði var að SUMS STAÐAR væri ekkert eða lítið gefið, þrátt fyrir litla beit og hagbönn. SUMS STAÐAR vanti skjól og drykkjarvatn.
Óðinn afbakar orð mín og segist svo vera ósammála því sem hann býr til sjálfur. Hross og kindur vilja frekar vera úti en inni, ef aðstæður leyfa.
Það er skoðun mín að flestum hrossum líði vel úti að vetrinum, ef þau fá nóg af góðu fóðri, greiðan aðgang að góðu drykkjarvatni og skjól fyrir illviðrum annaðhvort náttúruleg skjól eða manngerð skýli, sem uppfylla kröfur þ.e. hæð 2,5 metrar, skjólvængir gegn 3 vindáttum 4 metrar að lengd minnst. Flest útigangshross fá nóg fóður en víða vantar skjól og svo vatn í þurrviðrum og frosti. Þar er e.t.v. verkefni, sem dýraeftirlitsmenn hafa vanrækt að fylgja eftir.
Í hrakviðrum í janúar sl. höfðu samband við mig nokkrir menn sem hafa gott vit á hrossum og báðu mig að koma á framfæri athugasemdum vegna illrar meðferðar á nokkrum hrossahópum á útigangi við Selfoss og í nærsveitum. Á einum staðnum væru hátt í 70 hross, þar af nokkur folöld og engin skjól. Farið væri að sjá á hrossunum, einkum folöldunum. Á nokkrum öðrum stöðum væru hópar með færri hrossum. Hvergi væru fullnægjandi skjól, sáralítið, jafnvel ekkert gefið af heyi og ekki sinnt um að flytja að vatn í þurrafrostum. Flestir þessara manna vildu halda nafni sínu leyndu til að lenda ekki í illdeilum við félaga sína. Ég hef lofað því að koma á framfæri ábendingum og það gildir áfram. Tölvupóstur er: sigsig@hi.is, sími er: 892 1644.
Einhverjir þeirra, sem höfðu samband við mig höfðu talað við Matvælastofnun, sem er skylt að bregðast við slíkum málum. Það hafði ekki nægileg áhrif að þeir sögðu. Ill meðferð hélt áfram og enn var haft samband.
Ég fór strax að fylgjast með þessum hrossahópum daglega og geri það ennþá til að vita hve oft er gefið eða sinnt um dýrin og taldi þetta gæti verið vanhirða, sem þyrfti að athuga. Ég skrifaði Matvælastofnun fyrst einu sinni og fekk strax svar um að málið yrði ,,sett í ferli“. Þegar ekkert virtist bóla á umbótum eftir næstum 2 umhleypingasama mánuði skrifaði ég Matvælastofnun aftur og bað um athugun og ég hafði líka samband við lögregluna, en henni er skylt að bregðast við, þegar kvartað er yfir illri meðferð dýra.
Lögreglan sagðist senda menn til myndatöku og fylgja málinu eftir við þann, sem framkvæmdavald hefur þ.e. Matvælastofnun. Einnig þetta virtist lítil áhrif hafa. Ég skrifaði því grein um málið í Dagskrána. Þá vildi sjónvarpsmaður ræða við mig og hann birti myndir af misjafnlega höldnum útigangshrossum. Ég sagði honum að eg myndi birta nöfn þeirra sem vanhirtu skepnur sínar, ef á þyrfti að halda. Þá fór allt af stað.
Fjölmiðlar vöknuðu, fjöldi manns hafði samband. Enginn var ósammála því sem eg sagði nema dýraeftirlitsmaður Matvælastofnunar.
Fleira má nefna um vanhirðu: hófar vaxa fram og fara að líkjast skíðum, þegar hross ganga alltaf á mýrlendi og valda því að þau geta varla gengið og verður slysahætt, ef hófarnir eru ekki klipptir. Ef fax og tagl eru ekki snyrt, getur myndast flóki, sem byrgir sýn og getur meitt. Folöldum, tryppum og vanþrifahrossum er ekki gefið ormalyf og ekki sinnt um að eyða lús. Ég hef talað hér um Selfoss vegna þess að þar þekki ég best til nú um stundir. Á Selfossi er þó ekki verra ástand en víða annars staðar. Ég hef líka fengið fjölda ábendinga frá öðrum stöðum á landinu. Ég hefi haft samband við eigendur, þar sem eg hefi þekkt til. Flestir taka því vel og bæta ráð sitt, en það gera ekki allir. Meira en 40 manns hafa sent mér tölvupósta, hringt eða talað við mig til að taka undir þetta sem ég sagði og þeir sem þekkja til á Selfossi og nærsveitum staðfesta vanhirðu á útigangshrossum á þessu svæði. Það er slæmt, að sá sem á að vaka yfir velferð dýranna, dýraeftirlitsmaðurinn, sem á að vera bjargvættur dýranna gegn vanhirðu og illri meðferð sér ekki það sem allir aðrir sjá. Eftir að umræða hófst fóru flestir sem vanrækt höfðu skyldur sínar að gefa. Nafnbirting er því óþörf enn um sinn.
Sigurborg Daðadóttir og fleiri dýralæknar eiga heiður skilinn fyrir baráttu fyrir bættri velferð dýra og kynningu á nýjum lögum og reglum, en eftirlitsmenn mega ekki bregðast skjólstæðingum sínum, dýrunum.
Matvælastofnun og dýraeftirlitsmenn þurfa að breyta um starfshætti og hafa til hliðsjónar í viðbrögðum sínum, hvernig staðið er að verki í barnaverndarmálum. Aðgerðir gegn hungri og hrakningi þola aldrei bið.
Sigurður Sigurðarson,
dýralæknir Selfossi