Uppbygging íþróttasvæðis á Hrolllaugsstöðum
Á Hrollaugsstöðum í Suðursveit er unnið hörðum höndum að uppbyggingu á fjölnota íþróttavelli að frumkvæði Ungmennafélagsins Vísis. Með styrk frá sveitarfélaginu og ótrúlegu átaki heimafólks er verið að skapa aðstöðu þar sem verður hægt að keppa í öllum greinum frjálsra íþrótta.
Hver bær og nánast hver einasti íbúi í Suðursveit hefur lagt hönd á plóg á einn eða annan hátt við verkefnið. Bjarni MalmquistJónsson er formaður Vísis. „Ungmennafélagið var endurvakið úr dvala 2022 og síðan þá má segja að það hafi allt verið á fullu hjá okkur enda mikill kraftur í fólki sveitarinnar. Nýi frjálsíþróttavöllurinn er langstærsta verkefnið en sá völlur verður vonandi orðinn klár í haust með tartanbrautum og öllu öðru, sem sæmir góðum frjálsíþróttavelli. Það verður líka körfuboltavöllur á svæðinu og svo má segja frá því að það er mikill borðtennisáhugi í félaginu og fullt af krökkum að æfa borðtennis en við eigum fimm borð í dag,“ segir Bjarni, sem er frá bænum Jaðri í Suðursveit en býr í dag í Kópavogi. „Já, það er svolítið langt að fara þegar ég þarf að sinna formennskustarfinu en það er minnsta mál, hjartað slær í Suðursveit,“ segir Bjarni hlæjandi.
Allt unnið í sjálfboðavinnu
Um 130 félagar eru í Vísi og allir mjög áhugasamir um starfsemi félagsins. „Já, það eru orð að sönnu því allt, sem hefur verið unnið við nýja völlinn hefur verið unnið í sjálfboðavinnu af félögunum, ungum sem öldnum. Við þurftum að steypa heilmikið í sumar og þá mættu um 25 manns með bros á vör til að hjálpa til. Eftir steypuna var grillað og framtaki félaganna þannig fagnað,“ bætir Bjarni við.
Borðtennis slær í gegn
Í félagsheimilinu á Hrolllaugsstöðum er ungmennafélagið með nokkur borðtennisborð, sem njóta mikilla vinsælda. „Já, við erum með fimm borð og það eru alltaf einhverjir að spila á þeim þegar við erum með æfingar á miðvikudögum eða höldum mót. Það eru að jafnaði að mæta 15 til 20 á æfingarnar, sem hlýtur að teljast gott í ekki stærra félagi,“ segir Bjarni.
Ánægður bæjarstjóri
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, dáist að kraftinum hjá félögum í Vísi. „Já, þetta er samfélagsverkefni í sinni tærustu mynd, hver bær og nánast hver einasti íbúi í Suðursveit hefur lagt hönd á plóg á einn eða annan hátt. Sannkallaður ungmennafélagsandi ríkir í Suðursveit og við erum gríðarlega stolt af því,“ segir Sigurjón.
