Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Undirstaða lífsins
Fréttir 4. júní 2015

Undirstaða lífsins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jarðvegur er undirstaða allrar matvælaframleiðslu á þurrlendi jarðar. Gróður þrífst ekki án jarðvegs og jarðvegur verður ekki til án gróðurs. 120 þúsund ferkílómetrar af ræktarlandi tapast á heimsvísu á hverju ári vegna landhnignunar og jarðvegsrofs.

Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, segir að til að skilja hvað við sé átt verði fyrst að gera sér grein fyrir því hvað jarðvegur eða mold er.

Fleiri örverur í lófafylli af mold en fólk á jörðinni

„Jarðvegur eða mold er gerður úr bergmylsnu, leir og flóknum lífrænum efnasamböndum. Í jarðveginum finnst urmull lífvera, bæði stórra og smárra, allt frá örverum og sveppum yfir í stærri hryggleysingja. Því er oft slegið fram að það finnist fleiri örverur í lófafylli af mold en fólk á jörðinni. Svo má ekki gleyma mikilvægum hluta jarðvegsins sem er holurýmið, þar leikur loft um eða vatn eftir tíðarfari og staðháttum.“

Jóhann segir að jarðvegurinn sé flókinn og fólki oft illskilinn hluti vistkerfa.  Fyrir vikið sé tíðum litið framhjá mikilvægi hans. Þetta stafar vafalaust bæði af því að jarðvegurinn er yfirleitt hulinn gróðri og vegna þess að það sem þar fer fram getur verið illsjáanlegt.

Starfsemin í moldinni

„Í jarðvegi á sér stað niðurbrot og rotnun lífrænna efna og nýmyndun lífrænna efnasambanda. Þessi ferli valda því að smám saman safnast upp lífrænn efnamassi. Stundum eru þau kölluð humusefni einu nafni. Þessi lífrænu efnasambönd eru undirstaða þess mikilvæga hlutverks sem jarðvegurinn gegnir og er einfaldlega undirstaða alls lífs á jörðinni.
Í jarðveginum undir fótum okkar á sér stað miðlun og geymsla vatns og þar með temprun flóða. Eyðilegging jarðvegs á strandsvæðum er ein ástæða aukinnar flóðahættu víða um heiminn enda getur jarðvegurinn ekki lengur tekið við vatninu og miðlað því hægt frá sér aftur. Menn hafa jafnvel látið sér detta í hug að endurskapa gróðurlendi við sjávarborð til að draga úr flóðahættu í stórborgum eins og New York. Þar er verið að nýta vatnsmiðlunarmátt jarðvegsins.“

Stærstur hluti fæðu kemur af ræktarlandi

Stundum er talað um þjónustu sem vistkerfi heimsins veita og vísað til alls þess gagns sem við höfum af náttúrunni og er okkur nauðsynlegt.

„Á heimsvísu kemur stærsti hluti fæðunnar af ræktarlandi og við eigum allt okkar undir því að jarðvegurinn haldi frjósemi sinni. Byggingaviður, eldiviður og stór hluti klæða okkar eru afurðir jarðvegs og vatn síast og hreinsast með því að renna í gegnum jarðlög. Við eigum í raun og veru allt okkar undir því að jarðvegurinn bæði haldi frjósemi sinni og að hann tapist ekki vegna rofs.“

Staða jarðvegs á heimsvísu

Að sögn Jóhanns er talið að 24% af frjósamasta landi jarðar séu farin að sýna merki hnignunar vegna minnkandi framboðs næringarefna, minnkandi uppskeru og skertrar getu til miðlunar næringarefna og vatns. 

„Þetta er alvarleg staða og ekki auðvelt að snúa henni við. Ástandið er verst á þéttbýlustu og fátækustu svæðum jarðar og þar fer það versnandi.  Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna segir vandamálið svo alvarlegt að jarðvegur núverandi akuryrkjusvæða heimsins, sem eru jafnfram frjósömustu og aðgengilegustu ræktarsvæðin, dugi einungis í 60 ár til viðbótar áður en frjósemi þeirra hafi hrakað svo að þau verði illnýtanleg.

Ástandið er litlu betra sé litið til vestrænna samfélaga sem ættu öll að hafa tækifæri til að stýra landnýtingu með sjálfbærum hætti. Breskir vísindamenn hafa nýlega gefið út að þarlendir akrar verði einungis nothæfir í eina öld til viðbótar með sama áframhaldi.

Ekki þarf að koma á óvart að ræktarland hefur minnkað undanfarna áratugi. Árið 1961 var talið að til reiðu væru fjögur þúsund fermetrar af ræktarlandi á hvert mannsbarn. Í dag er þessi tala komin niður í tvö þúsund fermetra og árið 2050 er talið að einungis 1500 fermetrar af ræktarlandi verði tiltækir á hvert mannsbarn. Á sama tíma áætla Sameinuðu þjóðirnar að það þurfi að auka ræktarland um 60 þúsund ferkílómetra á ári.

Staðreyndin er aftur á móti sú að við erum að tapa 120 þúsund ferkílómetrum af ræktarlandi á hverju ári vegna landhnignunar og jarðvegsrofs,“ segir Jóhann.

24 milljarðar tonna tapast á ári

„Áætlað er að 3,4 tonn af frjósömum jarðvegi tapist árlega á hvert mannsbarn í heiminum, það eru 24 milljarðar tonna. Til að setja þetta í samhengi hefur verið áætlað að á Íslandi tapist um 1,6 milljónir tonna af jarðvegi á ári. 

Íslendingar eru í kringum 320 þúsund svo að í þessu eigum við heimsmet því á hvern Íslending gera þetta fimm tonn af jarðvegi á ári og hér er eingöngu átt við rof tengt rofabörðum. Í raun er jarðvegseyðingin sennilega mun meiri.“

Efsta lagið frjósamast

Jarðvegur inniheldur um fjögur þúsund milljarða tonna af kolefni. Kolefnið er undirstaða frjósemi hans enda það efni sem humusefnin byggjast á. Kolefni í jarðvegi mælist ellefu sinnum meira en allt kolefni í skógum heims og fimm sinnum meira en það sem finnst í andrúmsloftinu.

„Ástæðan fyrir þessu mikla kolefnisinnihaldi jarðvegsins er hversu stöðugt kolefnið er í jarðveginum á meðan honum er ekki raskað. Við jarðvegsrof og rask, þar með talin jarðrækt, losnar kolefnið og það berst bæði út í andrúmsloftið sem lofttegundir. Á ræktarlandi er moldin, þessi frjósamasti hluti jarðvegsins, aðeins efst í jarðveginum. Það getur gengið hratt á moldina og við áttum okkur ekki endilega á því fyrr en gengið hefur verið verulega á frjósömu efstu lögin og uppskerubrestur blasir við.

Mannkynssagan er talandi dæmi um afleiðingar slíkrar ósjálfbærrar landnýtingar. Norður-Afríka var eitt besta ræktunarsvæði Rómverja og matarforðabúr þeirra en er eyðimörk í dag. Sama má segja um svæðið þar sem Írak og Íran eru í dag. Menningarsamfélögin þar nýttu frjósamt ræktarlandið við árna Tigris og Efrates en þar eru nú eyðimerkur. Menn hafa getið sér þess til að Mayar hafi horfið í Suður-Ameríku vegna minnkandi uppskeru. Reyndar þurfum við ekki að líta svona langt aftur til að finna svipuð dæmi. Saga landhnignunar og uppblásturs í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar er saga rányrkju manna á jarðvegsauðlindinni.“

Myndun jarðvegs í þeim gæðum og magni að við getum farið að tala um sjálfbær frjósöm vistkerfi tekur áratugi eða árhundruð. Á norðlægum slóðum getur það tekið enn lengri tíma.
„Vegna þess hve lengi jarðvegur er að myndast verðum við því að líta svo á að jarðvegsauðlindir séu óendurnýjanleg. Þetta er vegna þess að miðað við landnýtingu í dag er hún það á þeim mælikvarða sem við miðum yfirleitt við, sem er ein mannsævi. Þess vegna skiptir miklu að vel sé farið með auðlindina kynslóð fram af kynslóð og að nýting hennar sé með þeim hætti að meiru sé skilað til komandi kynslóðar en við var tekið.“

0,1 millimetri af jarðvegi á ári

„Á Íslandi getum við auðveldlega séð hvaða hluti jarðvegsins myndaðist fyrir landnám vegna landnámsöskulagsins. Við vitum jafnframt að sá jarðvegur byrjaði að myndast fyrir um 10 þúsund árum. Ef við gefum okkur að þetta jarðvegslag sé um einn metri á þykkt, þá hefur myndast um 0,1 millimetri af jarðvegi á ári hér á landi fyrir landnám. Á einni mannsævi nær jarðvegsmyndunin því ekki einum sentímetra við aðstæður þar sem engin ræktun eða önnur landnýting var til staðar.“

Hnignun jarðvegs

„Yfir helmingur Íslands einkennist af landhnignun og fjórðungur landsins hefur verið talinn óhæfur til beitar vegna jarðvegsrofs. Þessi staða er afleiðing margra þátta og samspils þeirra. Hér er yfirleitt vísað til loftslags, eldvirkni, jarðvegsgerðar og landnýtingar.

Hnignunarferli sem enda að lokum með hraðfara rofi geta staðið yfir í langan tíma, jafnvel marga mannsaldra. Merkin sem blasa við eru minnkandi frjósemi jarðvegs, breytingar á tegundasamsetningu, þróttminni gróður og þar með rýrnandi rótarkerfi. Ef þessum hnignunarferlum vindur fram fer gróðurhulan loks að gefa eftir og ber jarðvegurinn kemur í ljós sem er þá auðrofinn af vatni og vindi. 

Við getum ekki breytt jarðveginum, stýrt eldvirkninni eða loftslaginu en við getum stýrt landnýtingunni og löngu kominn tími til að miða landnýtinguna við ástand jarðvegs. Að gróður sé í slíku ástandi að frjósöm mold myndist og safnist fyrir. Við þurfum að átta okkur á hversu mikilvæg þessi auðlind er til allrar framtíðar,“ segir Jóhann.

Að græða upp land

„Þrátt fyrir að við teljum okkur geta grætt upp örfoka land verðum við að gera okkur grein fyrir því að flatarmál uppgræðslusvæða á Íslandi er um 1% af flatarmáli landsins og að það hefur tekið rúma öld að ná því marki. Bein uppgræðsla lands til að snúa því ástandi sem nú ríkir er því óraunhæf leið.

Við verðum einfaldlega að horfast í augu við að eina leiðin til að snúa vörn í sókn er að taka á því hvernig við nýtum landið. Á tímum hlýnandi loftslags og gróðurs í sókn hlýtur að vera tækifæri til að græða upp landið. Í raun er þyngra en tárum tekur hversu illa hefur tekist að koma þessum skilaboðum til þjóðarinnar eins og ýmis átök um beitarrétt og hefðbundna landnýtingu sýna. Við verðum líka að hafa í huga að endurheimt landgæða, hvort sem það gerist með uppgræðslu eða friðun, er forsendan fyrir myndun frjósamrar moldar.

Landgræðsla snýst í raun um að rækta jarðveg en ekki gróður. „Gróðurinn er hins vegar tækið sem við höfum til að búa til frjósaman jarðveg,“ segir Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslu Íslands.

Skylt efni: Jarðvegur | mold | Jarðvegur

Mikill áhugi á íbúðum
Fréttir 7. október 2024

Mikill áhugi á íbúðum

Þrettán umsóknir um sex íbúðir á Kirkjubæjarklaustri bárust íbúðarfélagi Brákar.

Þrjár efstu frá sama bæ
Fréttir 7. október 2024

Þrjár efstu frá sama bæ

Fjórtán hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Þrjár efstu hryssurna...

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...