Undirbúa aðgerðir ef gos brýst út
Matvælastofnun hefur brugðist með ýmsum hætti við hugsanlegu eldgosi í Vatnajökli. Héraðsdýralæknar í Norðausturumdæmi og Austurumdæmi hafa sett sig í samband við sýslumenn á svæðunum en hlutverk héraðsdýralækna er meðal annars að tryggja sem best velferð og heilbrigði dýra. Umræddir dýralæknar hafa setið fundi aðgerðarstjórna á svæðunum og einnig sett sig í samband við búfjárráðunauta og aðra aðila í sínum umdæmum sem tengjast aðgerðum er lúta að dýrum. Munu þeir aðilar fylgjast með og koma upplýsingum til héraðsdýralækna sem aftur munu aðstoða eftir þörfum.
Unnið er að því að skipuleggja hvert má fara með sauðfé ef til þess kemur að flytja þurfi það yfir varnarlínur. Þá hefur verið haft samband við forsvarsmenn sláturhúsa og þeir beðnir að vera viðbúnir að annast neyðarslátrun búfjár ef þörf krefur.
Landupplýsingaþekjur Matvælastofnunar sem sýna staðsetningu búa og hvaða búfjártegundir er að finna á hverju búi hafa verið sendar til Veðurstofunnar sem vinnur að gerð líkans um flóð af völdum eldgoss. Þekjurnar hafa einnig verið sendar til Almannavarna.
Samband hefur verið haft við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og óskað endurvakningu samráðshóps um vöktun á flúori í jarðvegi, gróðri, vatni og búfé.
Stofnunin óskaði eftir að eiga fulltrúa í Samhæfingarstöð Almannavarna sem sæti þar eftir þörfum og þjónaði sem tengiliður milli miðlægra viðbragðsaðila og þeirra aðila sem sinna málum er lúta að velferð og heilbrigði dýra. Almannavarnir hafa orðið við þeirri ósk.