Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Um lambakjöt
Lesendarýni 26. september 2017

Um lambakjöt

Höfundur: Kjartan Örn Kjartansson
Góðvinur minn, Gunnar Þór Ólafsson heitinn forstjóri, sem að lærði hagfræði m.a. í Manchester á Englandi, sagði mér þá sögu að hann hefði eitt sinn verið á ferð í Skotlandi og gist þá hjá eða a.m.k. hitt þar fjárbónda nokkurn. Þeir hafi tekið tal saman um búskapinn og að bóndinn hafa m.a. sagt honum að  „I take a few at a time to the market and sometimes the price is good and sometimes it isn‘t“.  
 
Þetta rifjast upp núna þegar mikið er talað og ritað um vanda íslenskra sauðfjárbænda, enda sláandi dæmi um muninn um tilhögunina í útlandinu þar og á Íslandi í þessum efnum. 
 
Að gömlum sið, sem er væntanlega til kominn vegna veðurfars og að menn vilja nota sumrin til þeirra ókeypis hæginda að beita til fjalla þrátt fyrir ýmsar slæmar gróðurfarslegar afleiðingar, eru ærnar hérlendis settar undir á sama tíma, lömbin borin á sama tíma, þeim slátrað á sama tíma árs og svo er kjötið fryst og geymt og selt smám saman þangað til að leikurinn hefst á ný að ári liðnu. Með þessari skipan eru lítil tengsl við markaðinn og menn vita ekki hvað á að gera við offramleiðsluna þegar hún verður og ágreiningur um útflutning hingað eða þangað eða skyldu þar á skapast og þá hver á að greiða sölukostnaðinn og tapið? Það verður ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvort að þessi gamli háttur sé nauðsynlegur eða þá yfir höfuð skynsamur og farsæll fyrir greinina nú á tímum? Í svínaræktinni er stöðug og jöfn framleiðsla allt árið og það sem selt er ferskt og á þetta einnig við um stórgripi. Spurningin er hvort að það þurfi ekki að fara sömu leið í framleiðslu á kindakjöti og bjóða þannig upp á betri og eftirsóttari vöru allt árið um kring? 
 
Þegar ég lærði og bjó um tíma í sömu borg og ljúfvinur minn Gunnar forðum þá  fannst mér skemmtilegra að kaupa í matinn í litlum verslunum frekar en stórmörkuðunum. Það var því miður erfitt að nálgast nýjan fisk sem hefur leitt til þess að Bretar kunna fæstir að meta eða elda hann sem er annað mál, en þegar að kom að kjöti að þá naut ég þess að heimsækja slátrarana á horninu. Þar var stöðugt framboð á fersku nauta-, svína- og lambakjöti og lærði ég að njóta ýmissa afurða sem að fást ekki á Íslandi. Í stað þess að iðnvélsaga allt lambakjöt frosið í ákveðna grófa bita og setja í óaðlað­andi plastpoka einu sinni á ári eða svo, eins og Íslendingar gjarnan gera, þá skera og snyrta enskir slátrarar ferskt og rétt meyrnað kjötið þess vegna jafn óðum eftir óskum hvers og eins og skera þá eftir því hvernig vöðvarnir liggja náttúrulega, þeir höggva við bein þar sem við á og handkjötsög er aðeins notuð þar sem komast þarf í gegnum stærri bein. Útkoman var og er mikið úrval aðlaðandi og ljúffengra afurða sem að neytendur sækjast eftir og er allt annað en það sama gamla og takmarkaða sem að boðið er upp á hér á landi: hryggur, læri og kæfa skulum við segja til áherslu. Á meðfylgjandi mynd má sjá heilt lamb hlutað niður að enskum sið, en þetta er ekki eina dæmið um hvað hægt er að fá hjá enskum slátrurum. Þá er í löndum eins og t.d.  Frakklandi og Bandaríkjunum kjötið skorið hvort með sínum hættinum, en auðvelt er að draga lærdóm af þessu öllu.
 
Með því að bændur ræktuðu lömb jafnt allt árið og seldu þau jafnt og þétt „a few at a time“ á mörkuðum á fæti, að lítil sláturhús keyptu féð og/eða önnuðust slátrunina samkvæmt tilboðum og frjálsum samninum allt árið um kring og að hér spryttu upp alvöru kjötkaupmenn og slátrarar  er von á að markaðurinn, þ.e. neytendur, þ.e. fólkið, fengi kost á afurðum sem það sækist raunverulega eftir og eftirspurn ykist til hagsbóta fyrir fjárbændur. Í útgerð og fiskvinnslu ráða gæði framleiðslunnar og stöðugt framboð verði og sölumöguleikum. Í sauðfjárframleiðslu leggja bændur hins vegar féð inn sem svo er kallað til afurðastöðvanna og allt er keypt á sama verði. Með því að setja féð eða þá kjötið af því á opinn markað má ætla að samkeppni yrði um að framleiða besta kjötið og markaðurinn yrði hið virka eftirlit og aðhald og helst keypt og þá á betra verði það sem að kemur frá hreinlegum og góðum búum. Jafnhliða mundi framleiðslan væntanlega stöðugt laga sig að eftirspurn, kjötkaupmenn og slátrarar keppast um hylli neytenda með sem mest spennandi afurðum o.s.frv. og verðið til viðkomandi aðila í keðjunni ákvarðast á hverjum tíma samkvæmt eðli frjálsra samninga, samkeppni og markaða þar sem kaupendur og seljendur mætast á miðri leið.
 
Þetta eru auðvitað ekki nein geimvísindi, en er það ekki þess vert að skoða þetta í alvöru og nýta betur krafta og hugvit einkaframtaksins og leysa núverandi knúta með þekktum aðferðum í stað þess að sitja í sama gamla farinu og deila sífellt um hvað það nú allt heitir og er s.s. framleiðslumagn, verð og ríkisstyrki?  Það yrði sparnaður af því að þurfa ekki að kosta upp á dýrar frystigeymslur og væri það líka ekki mikil framför fyrir þjóðfélagið að minnka sem mest rándýr ríkisapparöt eins og t.d. Matís, sem að sögn er orðið að sístækkandi og að mörgu leyti á ýmsum sviðum of  fyrirferðarmiklum og óþægilegum eins konar marghöfða bergþurs með sinn  þunga og ópraktíska kontórisma,  flókið og mikið reglugerðafargan eða þá aðra ofstýringu og pólitík? 
 
Þá langar mig að nota tækifærið og varpa fram þeim spurningum hvort að það sé ekki ráð að ríkið kaupi núverandi offramleiðslu og gefi matinn í fátækra- og þróunarhjálp, e.t.v. þurrkað eða niðursoðið kjöt þangað sem frystar afurðir ná ekki til? Ríkið er nú bæði með dýrt kontórlið og fulltrúa sem ferðast um lönd, einnig við ærinn kostnað, á vegum Þróunarstofnunar utanríkisráðuneytisins, en væri ekki betra að senda aldrei gjaldeyri skattgreiðenda til útlanda og minnka og spara báknið og allan kostnað með því að öll þróunaraðstoð verði framvegis eingöngu íslenskar vörur eftir efnum og ástæðum hverju sinni  þ.m.t. iðnaðarvörur, en örfáir starfsmenn ráðuneytisins gætu vel sinnt því verki. Þá spyr ég hvort að það séu ekki mest óþjóðhollir Evrópusambandssinnar sem að vilja að við verðum háð innflutningi á matvælum þaðan í stað þess að leita leiða til þess að gera íslenskan landbúnað sem mest lifandi, frjálsan og sterkan? 
 
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri
Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.

Esther hættir eftir tólf ára starf
Fréttir 21. febrúar 2024

Esther hættir eftir tólf ára starf

Esther Sigfúsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins á...

Hvítlaukssalt úr Dölunum
Fréttir 21. febrúar 2024

Hvítlaukssalt úr Dölunum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölunum búast við sex til átta tonna uppsker...

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið
Fréttir 21. febrúar 2024

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið

Matvælaráðherra hefur með breytingu á reglugerð um ólífrænan áburð gefið bráðabi...

Fuglum fækkar í talningu
Fréttir 19. febrúar 2024

Fuglum fækkar í talningu

Vetrartalning á fuglum dróst út janúar, en hefð er fyrir því að telja í upphafi ...

Gúrkuuppskera aldrei meiri
Fréttir 19. febrúar 2024

Gúrkuuppskera aldrei meiri

Metuppskera var í gúrkuræktun á síðasta ári, eða 2.096 tonn. Stöðugur vöxtur hef...

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins
Fréttir 16. febrúar 2024

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins

Leyft verður að veiða alls 800 hreindýr á þessu ári, 403 tarfa og 397 kýr. Þessi...

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps
Fréttir 16. febrúar 2024

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps

Hreppa skyrdrykkur kemur á markaðinn í apríl. Í honum eru, að sögn framleiðanda,...