Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr.
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr.
Á faglegum nótum 2. desember 2015

Um garnaveiki

Höfundur: Sigrún Bjarnadóttir Dýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá Matvælastofnun
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. 
Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1–2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2½ ár eða lengri.
 
Einkenni garnaveiki 
 
Einkenni garnaveiki eru hægfara vanþrif, skituköst og deyfð þrátt fyrir sæmilega lyst. Í bólusettu fé, sem gengur með smit, ber minna á skituköstum. Best er að fylgjast með þrifum (vigta) til að finna smitbera. Þar sem veikin kemur upp í óbólusettu fé getur verið margt um ,,heilbrigða“ smitbera. Garnaveiki er ólæknandi og dregur sýkt dýr óhjákvæmilega til dauða. Það getur hins vegar tekið langan tíma, oftast mánuði, eftir að fyrstu einkenni koma fram. Skilyrðislaust ætti að taka sýni úr öllum gripum sem lógað er vegna sjúkdóma eða vanþrifa, eða drepast af óþekktum orsökum.
 
Smitdreifing
 
Smitdreifing milli bæja verður fyrst og fremst við flutning á sýktum gripum frá garnaveikismitaðri hjörð. Einnig getur smit borist milli bæja með óhreinum skófatnaði. Ekki er hægt að útiloka smitdreifingu með heyi eða samnýtingu landbúnaðartækja. Nagdýr og vissar fuglategundir geta hýst bakteríuna og verið smitberar án þess að sýna sjúkdómseinkenni.
 
Innan hjarðar verður smitdreifing frá fullorðnum dýrum í ungviði og frá umhverfinu, einkum á húsi með saurmengun í drykkjarvatni og jötum, síður úti í haga nema smitmagn í umhverfinu sé þeim mun meira. 
Næmi gagnvart smiti minnkar með aldrinum. Fóstur og ungdýr upp að fjögurra mánaða aldri eru móttækilegust. Eldri dýr smitast síður þó svo að þau geti sýkst ef smitálagið er mikið.
 
Greining
 
Greining sjúkdómsins í einstökum dýrum er miklum vandkvæðum bundin vegna þess að sjúkdómurinn þróast mismunandi í hverjum einstaklingi og svörun greiningarprófa er háð því á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Ekkert greiningarpróf í lifandi dýrum gefur hundrað prósent tryggingu fyrir því að einstaklingur sé ekki smitaður þrátt fyrir að útkoman sé neikvæð. 
 
Á vissu stigi sjúkdómsins má finna bakteríuna í saurnum. Þó í mjög litlum mæli í upphafi sýkingar og síðar meir er útskilnaður mjög sveiflukenndur. Bakterían sést þá í smásjá eftir sérstaka sýklalitun á slími úr saur eða slímhúð. Það afbrigði sýkilsins sem veldur sjúkdómnum hér á landi hefur reynst óræktanlegt í rannsóknarstofu. Blóðpróf, sem mæla mótefni gegn sýklunum er önnur greiningaraðferð. Prófið er ónákvæmt, hentar betur sem hjarðpróf en einstaklingspróf. Blóðpróf er ónothæft á bólusett fé nema til að kanna bólusetningarárangur. Það greinir ekki á milli mótefna, sem myndast við bólusetningu, og mótefna frá sýkingu með bakteríunni.
 
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum skoða mjógörnina við langann og garnaeitlana í fullorðnum kindum og nautgripum. Sjái þeir einhverjar breytingar senda þeir sýni til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum til nánari rannsóknar.
 
Bólusetning
 
Mikilvægt er að huga að því hvort allar kindur hafa verið bólusettar. Ef einhvers staðar leynist smit eða smitberi í fénu er mikilvægt að velja ásetningslömb snemma hausts. Bólusetja skal ásetningslömbin sem allra fyrst og merkja þau jafnharðan, taka þau frá fullorðna fénu, setja þau á tún, sem jórturdýrum hefur ekki verið beitt á að vorinu, taka þau svo í hreinar stíur án snertingar við óhreinindi frá fullorðnu fé og tryggja þrifalega umgengni um hey og vatn.
 
Því miður er vönduð bólusetning ekki trygging fyrir því að garnaveiki hverfi úr bústofni. Bólusett dýr geta skilið út bakteríuna. Einnig virðist vera að ein og ein kind svari ekki bólusetningu. Í ljós hefur komið að 2–5% af hrútum sem hafa verið rannsakaðir vegna mögulegrar töku inn á sæðingastöð eru ekki með mótefni þó að þeir hafi verið bólusettir og greinileg merki finnist eftir bólusetninguna. Þessir gripir geta hæglega veikst í hjörðum þar sem bólusetning er í lagi og þá er mikilvægt að restin af hjörðinni sé bólusett svo ekki verði hjarðsmit.
 
Rétt er að minna á að samkvæmt reglugerð nr 933/2007 um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki er eigendum/umráðamönnum sauðfjár og/eða geita á garnaveikisvæðum skylt að láta bólusetja öll ásetningslömb/kið til varnar garnaveiki á tímabilinu frá 15. september til 31. desember ár hvert.
 
Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum með samstilltu átaki búfjáreigenda, Matvælastofnunar, dýralækna og sveitarfélaga.
 
Sigrún Bjarnadóttir
Dýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma

Skylt efni: garnaveiki

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi
Fréttir 20. júní 2025

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi

Hófsperra er kvalafullur sjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari h...

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Fréttir 20. júní 2025

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum

Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem...

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Fréttir 19. júní 2025

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili

Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl á...

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða
Fréttir 19. júní 2025

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða

Næsta haust mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, mæ...

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Fréttir 19. júní 2025

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið

Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er ís...

Einkunnamet slegin á vorsýningum
Fréttir 19. júní 2025

Einkunnamet slegin á vorsýningum

Glæsileg kynbótahross hafa hlotið háar einkunnir og eftirtekt fyrir framgöngu sí...

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús
Fréttir 19. júní 2025

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús

Í maí 2024 fannst heitt vatn í Tungudal við Ísafjörð, aðeins um þremur kílómetru...

Spornað við útrýmingu
Fréttir 19. júní 2025

Spornað við útrýmingu

Nýlega var stofnað Fagráð um geitfjárrækt. Er það talið nauðsynlegt til að stuðl...