Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 14. mars 2016
Tvö formannsefni komin fram hjá kúabændum
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Sigurður Loftsson, kúabóndi og formaður Landssambands kúabænda, tilkynnti fyrir skömmu að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku fyrir LK. Kosið verður í nýja stjórn á næsta aðalfundi sem fer fram í Bændahöllinni í Reykjavík dagana 31. mars og 1. apríl. Tveir frambjóðendur hafa lýst yfir áhuga sínum á að setjast í formannsstólinn, þeir Arnar Árnason, bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði, og Jóhann Nikulásson, bóndi í Stóru-Hildisey 2, í Austur-Landeyjum.
Arnar Árnason er 41 árs og hefur búið á Hranastöðum frá 2001. Í kynningu á vef LK, naut.is, segir að Arnar hafi setið í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar frá árinu 2002 til 2014 og síðustu átta árin sem oddviti. Hann gegndi jafnframt starfi sveitarstjóra um nokkurra mánaða skeið á því tímabili. Arnar er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1994 og iðnaðartæknifræðingur af matvælasviði Tækniskóla Íslands árið 2000. Hann er kvæntur Ástu Arnbjörgu Pétursdóttur og eiga þau þrjú börn.
Jóhann Nikulásson er fimmtugur og giftur Sigrúnu Hildi Ragnarsdóttur og eiga þau 4 uppkomin börn. Þau hófu búskap á vordögum 1991 með kaupum á Akurey 2 í Vestur-Landeyjum og bjuggu þar í níu ár eða þar til þau keyptu Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum. Þar búa þau nú með um 90 kýr. Jóhann hefur í hartnær tvo áratugi gegnt margskonar trúnaðarstörfum á félagslegum vettvangi kúabænda og m.a. verið í stjórn LK frá árinu 2007, í samstarfsnefnd SAM og BÍ frá árinu 2009 auk fleiri starfa.