Tvenn gullverðlaun
Íslenska kokkalandsliðið keppti á Ólympíuleikunum í matreiðslu í Stuttgart í Þýskalandi á sunnudaginn og þriðjudaginn sl. og fékk íslenska liðið gull fyrir báða dagana.
Á sunnudeginum var „Chefs tabledagur“, þar sem 11 réttir eru eldaðir fyrir 12 manns. Á seinni keppnisdeginum eldaði íslenska landsliðið þriggja rétta máltíð fyrir 110 manns.
Þjóðlegt hráefni
Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs íslenskra matreiðslumeistara, segir að íslenska landsliðið leggi mikið upp úr þjóðlegu hráefni. „Við notum fullt af íslensku grænmeti, íslenskan fisk og lambakjötið sem lykilhráefni. Íslenskt grænmeti er í margvíslegu hlutverki sem meðlæti og í smáréttum og raunar má segja að við reynum að nota innlent hráefni eins mikið og við getum. Á seinni deginum vorum við með þorsk í forrétt og lambahrygg í aðalrétt,“ segir Þórir.
Allt notað
Spurður hvernig hryggurinn hafi verið eldaður, hvort vöðvinn hafi verið notaður einn og sér, segir Þórir að þau hafi fengið heilan hrygg frá Kjarnafæði en úrbeini hann svo sjálf, að eiginlega allt sé notað með einum eða öðrum hætti. „Fitan er notuð, en hún er ekki með þegar við berum matinn fram. Eins notum við ýmiss konar afskurð sem notaður er til að búa til fars, sem síðan er notað sem fylling í eins konar brauðkollu. Hluti keppninnar er einmitt að sýna fram á góða nýtingu á hráefninu. Þetta snýst fyrst og fremst um að sýna fram á framúrskarandi fagmennsku í meðhöndlun og nýtingu á hráefninu til að skila afburðagóðum mat á diskana. Íslenska kokkalandsliðið er að mörgu leyti vannýtt auðlind fyrir markaðssetningu á íslenskum matvælum á erlendri grundu.“
Heildarstigafjöldinn gildir
Til að fá gull þurfa landsliðin að ná í stig á bilinu 91100. Samanlögð stigatala úr báðum keppnisdögum gildir svo í heildarkeppninni.
Þegar blaðið fór í prentun var enn beðið eftir heildarúrslitum frá keppnisdögunum tveimur.