Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Á Melgerðismelum má finna skemmtilega TREC-þrautabraut í útjaðri skógræktarinnar. Þar er t.d. hlið, tröppur, brú, hindranir, skurður og brautin fer að hluta til inn á milli trjáa.
Á Melgerðismelum má finna skemmtilega TREC-þrautabraut í útjaðri skógræktarinnar. Þar er t.d. hlið, tröppur, brú, hindranir, skurður og brautin fer að hluta til inn á milli trjáa.
Fréttir 3. apríl 2017

TREC í takt við íslenska reiðmennsku

Innleiðing nýrrar keppnisgreinar stendur nú yfir hjá Landssambandi hestamannafélaga. Um er að ræða þrauta- og víðavangshlaup, svokallað TREC, sem hefur verið að breiðast út um Evrópu. 
 
Greinin svarar eftirspurn eftir nýrri nálgun og fjölbreyttari keppnisgreinum á íslenskum hestum en hún hentar vönum sem óvönum reiðmönnum. TREC kallar einnig fram það besta í góðum reiðhesti, að sögn Sigurðar Ævarssonar, því hesti sem vegnar vel í greininni sé frábær hestur fyrir alla.
 
Rík hefð er fyrir ferðamennsku á hestum á Íslandi. Reyndar fer sú grein vaxandi með auknum straumi erlendra ferðamanna sem vilja upplifa náttúru og víðerni landsins á baki fótvissum, þjálum og traustum íslenskum fáki. Þá er ekki ýkja langt síðan hesturinn var aðal samgöngutæki þjóðarinnar og okkar þarfasti þjónn. Þótt öldin sé nú önnur og hestamennska sé stunduð í gjörbreyttri mynd er reynt að halda í hefðir og aðferðir með ýmsu móti. Ein birtingarmynd þess er keppnisgreinin TREC sem virðist vera að ryðja sér til rúms í íslenskri hestamennsku.
 
TREC, sem er stytting á franska heitinu „Techniques de Randonnée Équestre de Compétition“, er keppnisgrein í reiðmennsku sem kannar færni og samspil hests og manns. Greinin er upprunnin í Frakklandi og er til þess fallin að efla færni í almennum útreiðum.
 
Þrjár tegundir þrauta
 
Samkvæmt opinberu regluverki samanstendur TREC af þrenns konar þrautum; gangtegundastjórnun á um 150 m braut, þrautabraut sem nemur 1,5–5 km langri leið og ratleikur sem er um 25–35 km víðavangshlaup. Enn sem komið er hefur aðeins verið keppt í þrautabraut og gangtegundastjórnun hér á landi. Verkefnin sem þátttakendur taka að sér eiga sér stað í náttúrulegum aðstæðum í víðavangshlaupinu og býður íslensk náttúra þar upp á fjölbreytta möguleika. Í þrautabraut þurfa þátttakendur að takast á við ýmis verkefni, bæði á baki og í hendi, s.s. að fara yfir brú, stökkva yfir hindrun, ríða gegnum hlið án þess að sleppa af því hendinni. Í gangtegundastjórn reynir á aga og þjálfun hests sem og gott samspil en þar er þátttakendum ætlað að sýna snerpu og stjórnun á hægum og hröðum útfærslum af gangtegund.
 
Góð reiðmennska og vel taminn hestur njóta sín vel í TREC, þar sem keppnin reynir á útsjónarsemi og ratvísi knapans ásamt þjálni hests og, upp að vissu marki, gæði gangtegunda án þess þó að gera kröfu um yfirburða ganghæfileika. 
 
„TREC er keppnisgrein sem hentar öllum sem hafa áhuga á hestamennsku og er í raun keppni í alhliða hestamennsku,“ segir Sigurður Ævarsson, en hann situr í TREC-nefnd hjá Landssambandi hestamannafélaga. 
 
„Það að hestur sé traustur, mjúkur, þjáll og að knapinn höndli verk­efni eru mjög í takt við íslenska reiðmennsku, hvort sem um er að ræða smalamennsku, ferðalög, bústörf og heilt yfir okkar náttúrulegu og frjálslegu frístundahestamennsku,“ segir Valur Ásmundsson, sem einnig situr í nefndinni.
 
Íslenski hesturinn sniðinn að TREC
 
Sigurður segir að fyrir um áratug hafi þáverandi sendiherra Íslands í Frakklandi, Tomas Ingi Olrich, vakið athygli Landssambands hestamannafélaga á greininni, en þá var mikil gróska í TREC þar í landi. 
„Í framhaldi sendi Lands­sambandið nokkur ungmenni til Frakklands til að keppa Í greininni en um leið kynntu fulltrúar frá stjórn LH sér greinina. Fyrir um 4 árum gekk LH svo í FITE, sem eru alþjóðasamtök hestaferðamennsku og hafa fulltrúar frá LH og nokkrum hestamannafélögum haldið hróðri TREC á lofti síðan þá.“ 
 
Eitt þeirra er hestamannafélagið Funi í Eyjafirði sem heldur TREC-keppni á Melgerðismelum ár hvert. 
„Þetta hefur verið rauður þráður í æskulýðsstarfinu og árið 2013 og 2014 vorum við einnig með æfingar og keppnir fyrir fullorðna. Á Melgerðismelum höfum við tekið fallegt svæði upp á hól í útjaðri skógræktarinnar undir þrautabraut. Þar er t.d. hlið, tröppur, brú, hindranir, skurður og brautin fer að hluta til inn á milli trjáa,“ segir Valur. 
 
Fjölhæfni og geðslag íslenska hestinn eru vel til þess fallin að nota í TREC.
 
„Okkar íslenski hestur er frábær í þetta verkefni og reiðhefð okkar er byggð á sama grunni, þ.e. ferða- og vinnuverkefnum með hestinum í gegnum aldirnar. Geðslagið og vinnusemi þessa einstaka kyns er sniðin í þetta verkefni,“ segir Valur. „Til þess að farnast vel í TREC þarf hesturinn að vera vel taminn, kjarkaður og hlýðinn,“ bætir Sigurður við.
 
Hvetur til nýliðunar
 
Innleiðing á TREC hér á landi heldur áfram á þessu ári, en nú þegar hafa reglur greinarinnar verið þýddar og áfram mun LH standa fyrir fræðslu á greininni og hvetja aðildarfélög til að bjóða upp á þrautabrautir. Að sögn Vals er eftirspurn eftir nýrri nálgun og fjölbreyttari keppnisgreinum sem hentar vönum sem óvönum reiðmönnum að aukast. TREC svarar slíkri köllun.
 
„Æfingaferlið hefur ekki bara haft gríðarlega jákvæð áhrif á samband hesta og knapa heldur reynst félagslega eflandi. Þetta er auðvelt í framkvæmd og kostar ekki mikið. Aðstaðan þarf ekki að kosta mikið og mótakostnaður er heldur ekki hár miðað við það sem þekkist í hringvallagreinunum,“ segir Valur og Sigurður tekur í sama streng. 
 
„Við viljum fjölga þátttakendum í hestamennsku, nýliðun byggist á fjölbreytni og möguleikum sem flestra að vera með og finna sér vettvang. Hestur sem er góður í TREC er frábær hestur fyrir alla. TREC-heimurinn er gríðarlega stór og umfangsmikill erlendis og því er það markaðslega sterkt fyrir okkur að vera sýnileg á alþjóðavísu. Það fylgir mikil ferðamennska þessari grein, fólk fer á milli landa og ríða TREC-þrautir. Ísland gæti því skapað sér frábæran vettvang með því að bjóða upp á slíkar þrautir hérlendis.“
 
Valur segir að lokum að TREC hafi í reynd vakið mikla lukku hjá þeim sem hafi reynt fyrir sér í greininni.
„TREC er bæði skemmtileg og lærdómsrík. Það geta allir stundað þetta og þegar kemur að keppni er þetta kjörinn vettvangur fyrir krakka og áhugamenn til að setja sér markmið en líka mjög skemmtileg viðbót fyrir atvinnufólk í greininni.“
 
Hestamannafélagið Sprettur stóð fyrir TREC-keppni árið 2013 þar sem keppendur þurftu að leysa ýmis verkefni í þrautabraut.
 
Íslenski hesturinn er vel til þess fallinn að nýta í hina nýju keppnisgrein. Svissnesk stelpa, að nafni Maude Radelet, keppir í TREC á íslenskum hesti í Evrópu. Þeim hefur gengið mjög vel og urðu meðal annars í 2. sæti á Evrópumeistaramóti ungmenna. 
Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...