Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Toyota Land Cruiser 150 VX túrbó dísil: Kraftmikill og traustur jeppi
Mynd / /HLJ
Á faglegum nótum 5. júní 2014

Toyota Land Cruiser 150 VX túrbó dísil: Kraftmikill og traustur jeppi

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson

Ef verið er að leita að bíl sem hefur mikið pláss, góður til langkeyrslu, fjórhjóladrifin, áreiðanlegur og endingargóður kemur hjá mér fyrst upp í hugann Toyota Land Cruiser. Þó að ýmsir aðrir bílar komi til greina er Land Cruiser fyrsta val miðað við fjölda bíla á götunum, lága bilanatíðni og vinsældir.

Margar útfærslur og stærðir á Land Cruiser

Helgina 24. og 25. maí var stórsýning hjá Toyota og fór ég þangað með það í huga að prófa Land Cruiser. Það var auðfengið mál að fá bíl, en hvaða tegund og stærð? Land Cruiser er fáanlegur í mörgum útfærslum og með mismunandi vélar. Ég kaus að taka bíl sem nefnist: Land Cruiser VX túrbó dísil, sjálfskiptur og er með 190 hestafla vél. Eintakið sem ég prófaði kostar 13.330.000 en ódýrasta útgáfan af 150 bílnum með 190 hestafla dísilvélinni er frá 9.920.000 en sá dýrasti er 4,0 lítra bensínbíll með 282 hestafla vél og kostar 14.690.000.

Einstaklega þægilegur í akstri og umgengni

Öll stjórntæki eru á mjög þægilegum stöðum og tölvubúnaður auðveldur að læra á. Hljómgæði frá hljómtækjunum eru einhver þau bestu sem ég hef heyrt í bíl, en samkvæmt auglýsingabæklingi eru JBL hátalarar í bílum sem voru sérhannaðir til að flytja sem tærastan hljóm inni í bílnum. Í bílnum var leiðsögukerfi (eins og mörgum nýjum bílum), það fór aðeins í taugarnar á mér að Íslandskortið var vitlaust og sagði að hámarkshraðinn á Reykjanesbraut væri 70, en er í raun 80.

Á 77 km hraða byrjaði allt í einu konurödd að skammast á ensku að ég væri að keyra of hratt. Ekkert dugði að segja henni að þegja, nema hvað að hún snarþagnaði þegar ég lækkaði hraðann niður fyrir 70. Ég bauð syni mínum í bíltúr og hann var fljótur að hræra í tölvu leiðsögukerfisins með þeim árangri að ekki heyrðist meira nöldur um hraðakstur.

Á þrettán milljón króna bíl spyr maður ekki um eyðslu

Ég ók bílnum ekki mikið, en samt nóg til þess að finna hvernig hann er á möl,vegslóða og á malbiki. Á malbiki er hann ekkert ósvipaður í akstri og fólksbíll, liggur vel og leitar lítið ofan í hjólförin á slitnu malbiki stofnbrautanna hér í Reykjavík. Á grófum malarvegi finnur maður hvað hljóðeinangrunin er góð því að malarvegahljóð er sáralítið inni í bílnum, en ef opnuð er hliðarrúða heyrist vel skruðningarnir í mölinni undir hjólbörðunum.

Hrifnastur var ég af fjöðruninni fyrstu 10 cm, en ef ekið var í stórar holur voru svolítil högg (þess má geta að flestum bílum sem ég prófa ek ég sama grófa malarvegastubbinn til að fá samanburð).

Þegar maður er á bíl sem kostar yfir 10 milljónir á maður ekki að vera að tala um eyðslu, en hún uppgefin í bæklingi 8,1 lítrar á hverja hundrað kílómetra á þessum bíl, en ég var að eyða 11,5 lítrum á þessum 77 km sem ég ók og meðalhraðinn á mér var 32 km. á klukkustund. Það er eflaust fyrir einhverjum mikil eyðsla hjá mér, en ég var að prófa bílinn á malarvegslóðum og að athuga snerpu og viðbragð svo að ég afsaki mína eyðslu. Hún var samt að mínu mati ekkert óeðlilegt og ef eitthvað er hefði mátt búast við að eyðslan hjá mér væri meiri.
Innrétting og pláss inni í bíl
til fyrirmyndar

Að sitja inni í bílnum í akstri er hreint frábært, manni líður næstum of vel, sem gæti verið hættulegt í langakstri fyrir þá sem eru gjarnir á að dotta undir stýri. Alls staðar eru hirslur fyrir smáhluti, kaffimál og hólf fyrir ýmsan smávarning. Aftursætin eru óvenju vönduð miðað við flesta aðra bíla sem ég hef prófað og plássið aftur í bílnum er með allra mesta móti. Gæti ímyndað mér tveggja metra menn sitja í aftursætaröðinni án kvartana, allavega fannst mér ég vera ansi lítill sitjandi í aftursætinu.

Ég er mikill speglamaður og á þessum bíl eru einhverjir stærstu hliðarspeglar sem ég hef séð á jeppa, en innispegillinn var ekkert sérstakur. Fyrir ofan innispegilinn er þó góður spegill sem ætti að vera í öllum bílum. Spegillinn er í boga og sér ökumaður alla sem inni í bílnum eru mjög vel. Ég hef aðeins tekið eftir þessu einu sinni áður í bíl sem ég hef prófað.

Átján tommu felgurnar á sumrin, 17“ felgur fyrir vetrardekkin

Allt fannst mér gott við bílinn og ekkert út á hann að setja, en ég er ekkert yfir mig hrifin af 18 tommu felgum og dekkjunum sem í boði eru fyrir þær, ekki síst þegar maður sér bíla sem geta verið á minni felgum (16 eða 17 tommu felgum). Ef einhver ætlar að fá sér svona bíl og vera með auka sett af felgum með vetrardekkjum, fáðu þér eins litlar felgur og undir bílinn komast. Þannig fæst betri fjöðrun með hærri hjólbörðum sem gefa eftir í klakahröngli og öðru sem fylgir vetrarakstri. Allar nánari upplýsingar um Toyota Land Cruiser 150 má finna á vefslóðinni www.toyota.is. 

6 myndir:

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.