Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Tölum af ábyrgð
Mynd / TB
Skoðun 16. janúar 2017

Tölum af ábyrgð

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Það er komin ný ríkisstjórn eftir erfiðar fæðingarhríðir. Meirihluti hennar er sá minnsti mögulegi og ekki er víst að hún fái neina hveitibrauðsdaga. En hér skal henni óskað velfarnaðar. 
 
Nýr ráðherra málaflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, er einnig boðin velkomin til starfa en hún er jafnframt fyrsta konan sem fer með þennan málaflokk og ástæða er til að fagna því sérstaklega. Bændur vænta góðs samstarfs við hana um málefni landbúnaðarins sem og ríkisstjórnina í heild.
 
Hvað varðar stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar þá er fagnaðarefni að sjá að hún tiltekur styrkleika íslensks landbúnaðar og litið er til samkeppnisstöðu hans, legu landsins og veðurfars. Einnig er mikilvægt að sjá að jafna eigi stöðu bænda, sem er þýðingarmikið til að landbúnaður í öllum búgreinum verði stundaður um allt land.
 
Jafnframt verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin ætli að virða samþykkt Alþingis og þann sáttarfarveg sem þingið setti málefni landbúnaðarins í og fram kemur í áliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpi um búvörusamninga í september sl. Þetta er mikilvægt því landbúnaður gegnir ríku hlutverki við að tryggja byggð og atvinnulíf um allt land. Það er þó ljóst að ný ríkisstjórn leggur áherslu á ákveðin mál sem hún þarf að skýra betur, þar á meðal tollvernd búvara. Það liggur fyrir að bændur eru ekki sammála áherslum þeirra sem vilja auka innflutning á búvörum sem framleiddar eru hér á landi.
 
Í öllu falli lýsa bændur sig reiðubúna til samstarfs sem miðar að því að efla íslenskan landbúnað í þágu bænda og almennings á Íslandi. Það er meginatriðið. Flokkurinn sem nú fer með málefni landbúnaðar hefur aldrei setið í ríkisstjórn áður fremur en annar hinna ríkisstjórnarflokkanna. Þessir flokkar hafa báðir talað vel til landbúnaðar með almennum hætti en verið afar gagnrýnir á landbúnaðarstefnuna, án þess að leggja mikið til málanna um hvernig hún ætti þá að vera. Nú þegar þessir flokkar eru komnir að ríkisstjórnarborðinu og hafa aðstöðu til áhrifa á hvernig mál þróast þá verður að vænta þess að menn séu reiðubúnir að ræða málin frá öllum hliðum. Á meðan stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir þá birti ég á vef Bændasamtakanna umfjöllun um nokkur þeirra atriða sem þar skipta máli og ég leyfi mér að ítreka þau hér á þessum vettvangi.
 
Hverju vilja stjórnmálamenn fórna?
 
Bændur hafa oftsinnis bent á þann fórnarkostnað sem aukinn innflutningur á erlendum búvörum eins og kjöti, grænmeti og mjólkurvörum hefur í för með sér. Það kann að vera að hægt sé að flytja inn ódýran mat sem á uppruna sinn í fjarlægum löndum þar sem kröfur um heilnæmi afurða og aðbúnað dýra eru lakari en á Íslandi, vinnulöggjöf er í skötulíki og launastig annað en við eigum að venjast. Um leið og innflutningur eykst á sambærilegum vörum og hér eru framleiddar um allt land mun byggðamynstur breytast og bændum fækka hratt.
 
Íslensk búvöruframleiðsla skipar sér á bekk með þjóðum sem nota hvað minnst af sýklalyfj­um í framleiðslunni. Heilbrigði búfjár er betra en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Lyfjaþolnar bakteríur hafa ekki fundist hér á landi og meiri kröfur eru gerðar til framleiðenda varðandi eyðingu á salmonellusmituðum afurðum og þannig má lengi áfram telja. Vilja stjórnmálamenn og kjósendur þeirra gefa eftir þessa stöðu í skiptum fyrir ódýrar matvörur að utan?
 
Ræðum saman um starfsumhverfi landbúnaðarins
 
Ýmsir stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og vilja umsvifalaust breyta fyrirkomulagi við sölu og verðlagningu á mjólk og mjólkurafurðum. Þar er við lýði skipulag sem hefur skilað neytendum og bændum góðum ábata. Það hefur m.a. verið rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2015. Ein af niðurstöðum þeirrar skýrslu var að mjólkurafurðir hefðu hækkað minna í verði en aðrar neysluvörur á árabilinu 2003–2013. Verðlagning á mjólk er opinber og tryggt að almenningur fær grunnvörur á afar hagstæðum kjörum. Þetta hefur að vísu verið þyrnir í augum ýmissa stórkaupmanna sem ekki geta í ljósi stærðar sinnar krafist hærri afslátta en kaupmaðurinn á horninu fær.
Bændur eru ekki mótfallnir því að endurskoða starfsumhverfi sitt í samvinnu við stjórnvöld og það gera þeir reglulega. Einhliða yfirlýsingar og sleggjudómar um rekstur Mjólkursamsölunnar og hennar rekstrarumhverfi eru ekki til þess fallnar að skila okkur fram á veginn.
 
Umræða á skjön við tíðarandann
 
Undanfarin ár hefur umræða í samfélaginu um mikilvægi dýravelferðar, aðbúnaðar húsdýra og heilnæmi matvöru stóraukist. Fólk hlýtur því að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að marka þá stefnu að auka framboð af innfluttri matvöru þar sem neytendur fá litlar eða engar upplýsingar um hvort að kröfur þeirra séu uppfylltar.
 
Ekki má gleyma að aukinn innflutningur á vörum sem við getum framleitt hér á Íslandi mun auka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það er í andstöðu við þær skuldbindingar sem ríki heimsins, þar á meðal Ísland, hafa undirgengist til að draga úr útblæstri og sporna við hlýnun jarðar.
 
Eflum íslenska matvælaframleiðslu
 
Hér hafa verið nefndir nokkrir mikilvægir þættir sem vonir stóðu til að teknir yrðu til umræðu í því samráðsferli sem Alþingi vísaði mótun landbúnaðarstefnu í við afgreiðslu búvörusamninga síðastliðið haust. Bændur hafa fullan hug á að taka þátt í því ferli með opnum huga og með það að markmiði að efla íslenska matvælaframleiðslu og komast að niðurstöðu sem er í þágu bænda og almennings á Íslandi. Það er því krafa Bændasamtaka Íslands að ný ríkisstjórn haldi því starfi til streitu og standi við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Einhliða tollalækkanir og stórkarlalegar yfirlýsingar um aukinn innflutning á mat ógna tilvist íslenskrar matvælaframleiðslu og eru feigðarflan að mati bænda. Við skulum tala saman af ábyrgð.
Rannsakar skyggnar konur
Fréttir 7. febrúar 2023

Rannsakar skyggnar konur

Dr. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir sagnfræðingur rannsakar sögu skyggnra kvenn...

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri
Fréttir 6. febrúar 2023

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri

Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir, bændur á bænum Brú í Blás...

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...