Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Tollverndin virkar
Leiðari 16. janúar 2015

Tollverndin virkar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Ég óska lesendum Bændablaðsins gleðilegs árs með þökkum fyrir lesturinn á liðnum árum. Tollvernd er önnur af tveimur meginstoðum stuðnings við landbúnað, bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum.
 
Tilgangur tollverndar er að jafna stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttri.  Á Íslandi er hún meðal annars notuð til að styðja við fjölbreytta framleiðslu úr íslenskri sveit, þar sem hreinleiki umhverfisins er ótvíræður, sjúkdómar fáir, sýklalyfjanotkun þar af leiðandi í lágmarki og skapar þýðingarmikil störf fyrir byggð í landinu. Ekkert af þessu er sjálfgefið og byggir meðal annars á því að tollverndin sé fyrir hendi.
 
Engin þjóð vill alfarið treysta á innflutt matvæli
 
Allar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja eigin búvöruframleiðslu með tollvernd að meira eða minna leyti. Rökin eru einkum þau að hagsmunir neytenda séu ekki fólgnir í því að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi á mat sem hægt er að framleiða í heimalandinu. Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Engin þjóð vill alfarið treysta á innflutt matvæli enda sýnir reynsla annarra þjóða að slíkt leiðir á endanum til hærra verðs, þegar aðrir kostir en innflutningur eru ekki lengur í boði.
 
Langflestar landbúnaðarvörur eru tollfrjálsar
 
Stjórnvöld leggja tolla á innfluttar búvörur sem eru sambærilegar þeim sem framleiddar eru hér á landi. Einkum er um að ræða mjólkurvörur, kjötvörur og blóm. Einnig nýtur útiræktað grænmeti eins og gulrætur, gulrófur og kartöflur tollverndar þegar íslenska framleiðslan annar eftirspurn. Þegar íslenskar vörur eru ekki til eru erlendu vörurnar fluttar til landsins án tolla. Langflestar landbúnaðarvörur eru fluttar inn án tolla. Þetta á til dæmis við um allt hveiti og kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávexti og stærstan hluta af innfluttu grænmeti.
 
Oft er leyft að flytja inn takmarkað magn af búvörum sem almennt bera tolla á lægri eða jafnvel engum tollum. Það er þá gert með úthlutun á tollkvótum. Stjórnvöld hafa hér farið þá leið að bjóða kvótana út og gefa hverjum sem er færi á að bjóða í þá. Með því eru allir jafnsettir og sá fær kvótann sem treystir sér til að greiða mest fyrir hann. Vissulega eru til aðrar aðferðir við úthlutun en ekki hefur verið sýnt fram á að annað fyrirkomulag sé sanngjarnara þegar eftirspurnin er meiri en framboðið.  
 
Innflytjendur kvarta endurtekið yfir þessu enda vilja þeir engar takmarkanir á innflutningi yfirleitt, hvorki á grundvelli atvinnulegra eða heilbrigðistengdra sjónarmiða. Þeim er sama um innlenda framleiðslu, eða heilbrigði innlends búfjár. Gjarnan er reynt að láta líta þannig út að hér séu bæði hæstu og víðtækustu tollar á byggðu bóli. Hvorugt er rétt. Við tollum rúman þriðjung af innfluttum matvælum sem er minna en víðast hvar annars staðar. Tollkvótar eru auk þess margþættir. Í gildi eru kvótar vegna innflutnings frá ESB, frá EFTA-löndunum, frá Noregi og einnig kvótar sem kveðið er á um í samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).  Til viðbótar því koma síðan einhliða aðgerðir stjórnvalda.  Meirihluta ársins 2014 var til dæmis hægt að flytja inn nauta- og svínakjöt á lágmarkstollum. Magn var ekki takmarkað þannig að ekki þurfti að greiða fyrir þá kvóta.
 
Um nokkurra ára skeið hafa verið viðræður um frekari aðgang fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir inn á ESB markaðinn. Evrópusambandið vill eðlilega ekki láta okkur hafa þann aðgang fyrir ekki neitt – þeir nota nefnilega tollvernd líka.  Niðurstaða þeirra viðræðna er ekki í sjónmáli en mikilvægt er að tekið verði mið af stærð markaða í báðum tilvikum. 
 
Fullyrðingar sem ekki standast
 
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðis­flokksins, fjallaði um landbúnaðinn í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir skömmu. Þingmaðurinn hélt þar ýmsu fram sem ekki stenst skoðun.
Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins árið 2014 var 51,6 milljarðar króna. Framleiðsluverðmæti er án vörutengdra styrkja s.s. beingreiðslna. Það eru rúmar 140 milljónir á dag – alla daga ársins.  Samkvæmt gögnum Hagstofunnar starfa 4.700 við landbúnað.  Rannsóknir benda til þess að með afleiddum störfum starfi meira en 12.000 manns við landbúnað eða tengdar greinar.
 
Þá hélt þingmaðurinn fram að 97% tekna sauðfjárbænda eftir að búið er að greiða breytilegan kostnað kæmu af beingreiðslum. Ekki er gott að segja hvaða tölur þingmaðurinn valdi sér til að fá þessa prósentu fram, enda gerði hann enga grein fyrir því. Í Hagreikningum landbúnaðarins sem Hagstofan tekur saman má hins vegar sjá að af heildartekjum meðalsauðfjárbús koma 39,5% af beingreiðslum eða öðrum framleiðslustyrkjum.  Sambærilegt hlutfall hjá meðalkúabúi er 31,2%.  
 
Þetta er í meira lagi sérkennilegur málflutningur hjá þingmanninum, enda eru orð hans hvorki í samræmi við opinbera stefnu Sjálfstæðisflokksins, né heldur stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.  Þvert á móti eru í stjórnarsáttmálanum tillögur um að efla íslenskan landbúnað og matvælaframleiðsluna í heild. Það hefur alltaf legið fyrir að íslenskur landbúnaður nýtur stuðnings úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og mikils velvilja meðal almennings. Stuðningurinn nýtist fyrst og fremst til að lækka verð til neytenda.
 
Hins vegar steig Alþingi það óheillaskref fyrir jól að hækka matvælaverð með því að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins. Bændur voru og eru á móti þeirri ráðstöfun. 
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...