Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Tíminn líður áfram
Mynd / TB
Skoðun 11. júlí 2019

Tíminn líður áfram

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður BÍ
Það eru annatímar í sveitum landsins og heyskapur er víða kominn vel á veg, en er annars staðar að hefjast. Fyrstu nýju kartöflurnar eru að berast í búðir og fyrsta útiræktaða grænmetið, sem er alltaf ánægjulegur tími. Landið okkar er stórt og aðstæður geta verið afar ólíkar milli svæða og við höfum séð að veðurfarið hefur verið nokkuð mismunandi. Bændur hafa sumir þurft að eiga við þurrka, aðrir sveiflur í hitastigi, en þó ekki rigningartíðina sem gerði mörgum á suður- og vesturhluta landsins erfitt fyrir í fyrrasumar.  
 
Það er óskandi að sumarið verði gjöfult um allt land og uppskera í samræmi við það.  Það á alltaf við sem segir í ljóði Stephans G. Stephanssonar, Eftirköstum, „Ég er bóndi, allt mitt á undir sól og regni“.
 
Landbúnaðurinn fylgir breyttum tímum
 
En tímarnir breytast líka og því verður landbúnaðurinn að fylgja eins og aðrir í samfélaginu. Við verðum að þróast með og vera óhrædd við að stíga ný skref og takast á við nýjar áskoranir. Allt byggist þetta á því að framleiða mat eða veita þjónustu sem fólk vill kaupa af okkur.  
 
Þrátt fyrir að deilt sé um ýmislegt, er um leið ljóst að almenningur í landinu er mjög velviljaður landbúnaðinum og vill standa með honum. Að sama skapi verðum við að gera það sem við getum til að sinna innlendri eftirspurn og draga sífellt fram það sem við höfum upp á að bjóða og þá sérstöðu sem við búum yfir. Við getum ekki gengið að því vísu að aðrir skilji hlutina á sama hátt og við. Það er og verður okkar verkefni að auka skilning og þekkingu á því sem við gerum, hvernig við gerum það og hvaða þýðingu það hefur, samfélagslega, umhverfislega eða efnahagslega.  
 
Það er ekki alltaf einfalt. Nútíminn er hraður og margbrotinn og leiðirnar til að koma upplýsingum á framfæri eru óteljandi.  Það er miklu stærri spurning hvort þær komast í gegnum suðið sem kemur úr öllum áttum, úr venjulegum fjölmiðlum heima eða erlendis, netmiðlum, samfélagsmiðlum, athugasemdakerfum, hlaðvörpum eða einhverjum enn öðrum leiðum. Það eru engar sameiginlegar upplýsingaveitur lengur og líftími frétta er miklu skemmri en áður.
 
Á sama tíma erum við ákaflega þakklát ykkur lesendum fyrir þann stuðning sem þið sýnið Bændablaðinu og ítrekað hefur verið staðfestur í lestrarkönnunum. Blaðið er sterk rödd bænda og landsbyggðar sem nær til miklu fleiri en bænda sjálfra.
 
Öflug nýsköpun, þróun og þekkingaröflun
 
Áframhaldandi þróun landbúnaðarins byggir ekki síst á öflugri nýsköpun, þróun og þekkingaröflun. Það er ákaflega þýðingarmikið að ýta undir slíkt hvort sem það er um að ræða frumframleiðsluna sjálfa svo sem fóðuröflun og ræktun, eða afurðunum sjálfum.  
 
Búnaðarþing 2018 ályktaði að styrkja þyrfti samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar með öflugra vísinda-, mennta- og rannsóknastarfi í greininni, til dæmis með því að vinna vandaða sérstöðugreiningu fyrir landbúnaðinn í heild þar sem jafnframt yrði kortlagt hvar þörfin er mest á rannsókna- og þróunarstarfi. Tryggja þyrfti landbúnaðarháskólunum í landinu nægilegt fjármagn til að starfrækja öflugt rannsóknarstarf, þ.m.t. með rekstri tilrauna- og kennslubúa í búfjár- og jarðrækt með áherslu á hagnýtar landbúnaðarrannsóknir. 
 
Enn fremur var lagt til að komið yrði á fót sérstökum vísindasjóði landbúnaðarins til þess að efla rannsókna- og þróunarstarf, auka virði afurða og búa til fleiri hvata fyrir nemendur til að afla sér framhaldsmenntunar á sviði landbúnaðar.  Unnið yrði að fjármögnun í samvinnu samtaka bænda, stjórnvalda og fyrirtækja í landbúnaði til dæmis með því að láta tolltekjur renna í sjóðinn.
 
Þessar hugmyndir hafa því miður ekki þokast mikið áfram enn. Þær eru hins vegar enn jafn þýðingarmiklar eða þýðingarmeiri ef eitthvað er. Fjölmargir hafa hugmyndir um nýsköpun og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar eins og sást vel þegar kynnt voru verkefni fyrir skömmu sem komust inn í viðskiptahraðalinn „Til sjávar og sveita“.  Það er því mikil gerjun í gangi en hana þurfum við að styðja og styrkja.
 
Mestu máli skiptir hins vegar að við sem samfélag sameinumst um skýra stefnu um hvernig við viljum sjá landbúnað og tengda starfsemi þróast áfram í landinu.  Það eru margs konar verkefni í gangi eins og Matarauður Íslands, Landbúnaðarklasinn og ýmislegt fleira.  
 
Verið er að móta matvælastefnu og fyrir liggur verkefnalisti í 17 liðum sem samþykktur var samhliða lögum um innflutning á ófrosnu kjöti á vorþingi. Á meðal þeirra eru ýmis verkefni sem geta haft verulega þýðingu fyrir landbúnaðinn og það skiptir höfuðmáli að þeim verði fylgt fast eftir.  En meginatriðið er að við reynum að sameinast um það markmið að gera góða framleiðslu enn betri. Það kemur okkur öllum til góða.
 
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...