Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Tímar breytinga
Mynd / BBL
Skoðun 9. febrúar 2017

Tímar breytinga

Höfundur: Sigurður Eyþórsson
Landbúnaðurinn er lifandi atvinnugrein, enda byggir hann á því að vinna með lifandi verur, bæði úr plöntu- og dýraríkinu. Það er enginn dagur eins í sveitinni og í því liggur einmitt aðdráttarafl hennar fyrir marga. Þróunin í íslenskum landbúnaði hefur verið mikil síðustu áratugina. 
 
Afurðir á hvern grip í búfjárræktinni hafa aukist verulega, jafnvel meira en nokkur hefði trúað fyrir fáum árum. Samhliða endurskipulagningu mjólkuriðnaðarins frá grunni hefur búum í nautgriparækt fækkað mikið og þau stækkað. Af því hefur orðið mikil hagræðing sem hefur skilað sér til neytenda og bænda. Miklar breytingar hafa einnig orðið hjá öðrum afurðastöðvum.  
 
Fyrir fáum áratugum voru sauðfjársláturhús um 50 en eru núna 8. Framleiðendum í garðyrkju hefur líka fækkað verulega en á sama tíma hefur þeim tekist að auka virði afurða sinna með skýrri upprunatengingu „þú veist hvaðan það kemur“. Sama hefur gerst í öðrum búgreinum. Öll þessi hagræðing hefur skilað sér í lægra verði til neytenda, en hún hefur ekki verið sársaukalaus. Störfum hefur fækkað og innviðir sumra samfélaga í dreifbýlinu hafa veikst. Þrýstingur hefur um langt árabil verið á sífellt lægra verð og meiri hagræðingu og svo er enn.  
 
Tvær stuðningsstoðir
 
Stuðningur við landbúnað hérlendis er eins og kunnugt er byggður upp á tveimur stoðum.  Annars vegar er um að ræða beina styrki sem kveðið er á um búvörusamningum og hins vegar tollvernd sem kveðið er á um í lögum.  Báðar eru mikilvægar undirstöður og önnur verður ekki felld niður án þess að það hafi áhrif á hina.  
 
90% landbúnaðarafurða ESB-tollfrjálsar
 
Tollvernd hefur tekið töluverðum breytingum á liðnum árum. Oft hefur tollverndin verið fest í ákveðinni krónutölu sem síðan rýrnar að verðgildi eftir því sem árin líða. Líklega myndu flestir taka því fegins hendi gæfist þeim kostur á að kaupa vörur á verði frá 1995. Að auki hefur tollvernd almennt minnkað og nýjasta breytingin er tollasamningur sem stjórnvöld gerðu við Evrópusambandið 2015 og tekur sennilega gildi síðar á þessu ári. Með honum verða 90% landbúnaðarafurða ESB fluttar hingað inn tollfrjálst. Þetta er samkvæmt mati sambandsins sjálfs og kemur fram í gögnum sem liggja fyrir nefnd Evrópuþingsins sem núna hefur samninginn til skoðunar. 
 
Óvissa um endurskoðun búvörusamninga
 
Breytingar eru líka verulegar í nýju búvörusamningunum sem tóku gildi um áramótin.  Þar eru margar áherslubreytingar, m.a. verið að gera stuðninginn almennari en um leið verið að styðja við fjölbreyttari verkefni.  Innleiðing samninganna stendur núna yfir og mun gera fram eftir árinu. Þeir sem halda að þetta séu ekki breytingasamningar hafa sennilega ekki lesið þá eða að minnsta kosti ekki þá samninga sem á undan komu. 
 
Gagnrýni á samningana var vissulega veruleg, en hún kom úr tveimur ólíkum áttum, annars vegar frá þeim sem töldu þá breyta of miklu og hins vegar frá þeim sem töldu þá breyta of litlu. Milli þessara fylkinga er erfitt að ná samstöðu en forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig öllum þeim ólíku öflum sem búið er að kalla að endurskoðun samninganna gengur að komast að niðurstöðu. Um það er óvissa, til viðbótar við möguleg áhrif þeirra lítt mótuðu áherslna í landbúnaðarmálum sem finna má í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við útfærslu þeirra þarf rödd bænda að heyrast með sterkum og ákveðnum hætti.
 
Þarf að svara eftirspurn betur
 
Það er erfitt að spá og sérstaklega um framtíðina var eitt sinn sagt. Víst er þó að þróunin í landbúnaðinum mun halda áfram. Ef til vill eru möguleikarnir ekki síst fólgnir í því að ná nánara sambandi við neytendur. Áhugi þeirra á því hvernig maturinn verður til og við hvaða aðstæður fer sífellt vaxandi. Landbúnaðurinn þarf að svara þeirri eftirspurn betur. 
 
Neytendur eru tilbúnir að greiða meira fyrir afurðir sem hafa ákveðna eiginleika og verða til við ákveðnar aðstæður. Slíkt samband verður þó ávallt að byggjast á trausti sem getur eyðilagst á einum degi eins og mál Brúneggja sýndi okkur. En það er margt landbúnaðinum í hag, eins og lítil sýklalyfjanotkun, bann við notkun hormóna, lífrænar varnir, gott landrými, gnægð af hreinu vatni, fáir búfjársjúkdómar og margt fleira. Þetta er sérstaða sem margir aðrir hafa glatað en verður nú sífellt meira virði. 
 
Við höfum byggt okkar búfjárrækt á innlendum stofnum sem gefa ekki eins miklar afurðir og margir erlendir en þeir eru hluti af okkar sögu og menningu eins og sveitirnar sjálfar eru. Ferðaþjónustan viðurkennir líka að menningarlandslag og starfsemin í sveitunum hefur mikla þýðingu fyrir þeirra starf. Þá er mikil þörf á að rannsaka betur loftslagsmál og landbúnaði og hvernig greinin getur betur komið að lausn þeirra mála.
 
Þessu þurfum við öllu að huga að.  Samkeppnin mun aukast en hún þarf að vera sanngjörn. Neytendur þurfa að fá að vita það sama um innfluttar matvörur eins og við viljum fá að vita um eigin framleiðslu. Það er eðlilegt.  Gerum sömu kröfur til annarra og við gerum til okkar sjálfra.  
 
Félagsgjöld í stað búnaðargjalds
 
Það eru líka breytingar hjá samtökum bænda.  Í þessum mánuði munu félagsmönnum berast í fyrsta sinn greiðsluseðlar fyrir félagsgjöldum Bændasamtaka Íslands. Innheimta búnaðargjalds var lögð af frá og með byrjun þessa árs og á næstu vikum og mánuðum mun reyna á vilja bænda til að standa saman í öflugum samtökum á nýjum grundvelli. Það liggur fyrir að bændur vilja eiga sterk hagsmunasamtök sem tala máli landbúnaðarins, enda eiga samtök bænda sér langa sögu – 180 ára langa nánar tiltekið. Bændur hafa mismunandi skoðanir á mönnum og málefnum eins og aðrir hópar í samfélaginu, en segja má að það sé ekki síst mikilvægt nú, á breytinga- og óvissutímum að standa saman um sameiginleg mál. Ég hvet alla til að kynna sér vel hvaða þýðingu hin nýja félagsaðild mun hafa og vera með í að byggja upp sterk Bændasamtök Íslands á nýjum forsendum.
 
Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...