Þúsundir ferðamanna heimsækja ölkeldu á Snæfellsnesi
Bærinn Ölkelda í Staðarsveit er kennd við uppsprettu við bæinn sem í er ölkelduvatn. Jón Svavar Þórðarson bóndi og Kristján bróðir hans létu fyrir allmörgum árum bora fyrir heitu vatni á hlaðinu við bæinn en í stað heits vatns kom upp ölkelduvatn.
„Á 30 metra dýpi var komið niður á æð en stað þess að fá upp heitt vatn kom upp kalt ölkelduvatn. Við settum krana á holuna og í dag er stanslaus straumur hingað til að smakka á vatninu, einkabílar og rútur fullar af ferðafólki. Ég hef ekki tekið nákvæmlega saman hversu margir ferðamenn heimsækja staðinn en heimilisfólkið hér giskar á að hingað komi að minnsta kosti 10.000 manns á ári til að fá sér sopa.“
Svavar segir að hann hafi síðar borað nokkrar holur eftir heitu vatni fjær bænum, þar af tvær 800 m djúpar, og í dag hafi hann aðgang að rúmum sekúndulítra af 50 °C heitu vatni.