Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Óuppfært yfirlitskort yfir sóttvarnarhólfin. Breytingin frá þessu korti er sú að hólfum hefur fækkað úr 25 í 22 og þrjú ný hólf hafa orðið til; eitt Vestfjarðarhólf í stað tveggja, Norðvesturlandshólf í stað Vatnsneshólfs og Húna- og Skagahólfs og loks verður til Norðurþings- og Múlahólf í stað Norðausturhólfs og Héraðshólfs.
Óuppfært yfirlitskort yfir sóttvarnarhólfin. Breytingin frá þessu korti er sú að hólfum hefur fækkað úr 25 í 22 og þrjú ný hólf hafa orðið til; eitt Vestfjarðarhólf í stað tveggja, Norðvesturlandshólf í stað Vatnsneshólfs og Húna- og Skagahólfs og loks verður til Norðurþings- og Múlahólf í stað Norðausturhólfs og Héraðshólfs.
Fréttir 11. júlí 2025

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þrjár sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið lagðar niður og fækkar varnarhólfum um þrjú.

Þær línur sem leggjast af eru; Kollafjarðarlína, Vatnsneslína og Jökulsárlína.

Þegar Kollafjarðarlína er lögð niður verður til eitt Vestfjarðarhólf, í stað þess að því sé skipt í eystra og vestra. Þegar Vatnsneslína hverfur sameinast Vatnsneshólf annars vegar og Húna – Skagahólf hins vegar í eitt Norðvesturlandshólf. Við niðurfellingu Jökulsárlínu verður til Norðurþings- og Múlahólf í stað Norðausturhólfs og Héraðshólfs.

Varnalínurnar verða 23 og varnarhólfin 22. Vestfjarðarhólf verður númer fimm, Norðvesturlandshólf verður númer sjö og Norðurþings- og Múlahólf númer 12. Hjá Matvælastofnun er unnið að uppfærslu á yfirlitskorti yfir hólfaskiptingu landsins.

Sama sjúkdómastaða beggja vegna

Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er ráðherra heimilt að leggja niður varnarlínu hafi farið fram ítarlegt heilbrigðiseftirlit á búfé á þeim varnarsvæðum sem að línunni liggja og að fenginni umsögn frá Matvælastofnun.

Í umsögn Matvælastofnunar um Kollafjarðarlínu, sem nær úr Kollafirði í Ísafjarðarbotn, segir að sama sjúkdómastaða sé beggja vegna línunnar. „Austan megin línunnar hefur riða aldrei komið upp og vestan hennar hefur riða ekki komið upp síðan 1984, eða í 40 ár. Svæðin beggja vegna línunnar eru garnaveikifrí. Mörg ár eru liðin síðan síðast voru lagðir fjármunir til viðhalds á girðingunni og er ástand hennar þannig í dag að hún ýmist liggur niðri með tilheyrandi slysahættu fyrir skepnur eða hún hefur verið fjarlægð.“

Kollafjarðarlína tilheyrir C-flokki – lægsta verndarstigsflokki varnarlína samkvæmt Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu.

Sama sjúkdómastaða er einnig beggja vegna Vatnsneslínu, sem liggur úr Miðfjarðarvatni í Síðukrók við ósa Víðidalsár. „Svæðin beggja megin eru virk riðusvæði og bólusett er gegn garnaveiki á báðum svæðum. Ekki hefur verið lagt fjármagn til viðhalds á girðingunni síðastliðin tvö ár. Vatnsneslína er ein þeirra lína sem afmarka áhættuhólf frá öðru áhættuhólfi og engin þörf er á vernd milli hólfa vegna þess að sértækar sóttvarnareglur gilda í þessum hólfum,“ segir í umsögn Matvælastofnunar. Vatnsneslína tilheyri varnarlínum þar sem engin þörf er á vernd milli varnarhólfa samkvæmt Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu.

Jökla ekki lengur fjárheld

Jökuldalslína er Jökla og Hálslón. Matvælastofnun segir sömu stöðu vera komna upp með Jöklu og var með Blöndu fyrir nokkrum árum. „Eftir að Kárahnjúkavirkjun kom til minnkaði rennslið í ánni og er hún ekki lengur fjárheld. Kindur renna yfir ána fram og til baka og sumir bændur á svæðinu eru hættir að virða hana sem varnarlínu, sækja fé sem farið hefur yfir ána án þess að fá til þess leyfi, stunda heyskap og flytja hey yfir línuna án þess að sækja um leyfi o.s.frv. Sama sjúkdómastaða er beggja vegna árinnar, þ.e. í Héraðshólfi og Norðausturhólfi sunnan Smjörfjallalínu. Staða gagnvart riðuveiki er sú sama og bólusett er við garnaveiki beggja megin. Norðan Smjörfjallalínu er aftur á móti önnur sjúkdómastaða. Þar hefur riða aldrei komið upp og ekki er bólusett við garnaveiki. Þau svæði sem eru norðan Smjörfallalínu eru Vopnafjörður, Bakkafjörður, Þistilfjörður, Melrakkaslétta og Öxarfjörður.

Matvælastofnun segir þrjú síðastnefndu svæðin tilheyra líflambasölusvæði sem nær frá Jökulsá á Fjöllum að Brekknaheiði. Jökuldalslína tilheyri C-flokki – lægsta verndarstigsflokki varnarlína skv. Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu.

Um varnarlínur er fjallað í skilgreiningum í fjórðu grein laga um dýrasjúkdóma, en þar segir að sóttvarnarsvæði séu landsvæði „sem afmarkast af varnarlínum, ám, vötnum, sjó eða öræfum sem ásamt fyrirskipaðri vörslu og öðrum varúðarráðstöfunum mynda farartálma eða fullkomna hindrun á samgangi dýra“.

Þannig er það grundvallaratriði að varnarlínur séu fjárheldar, óháð því hvort það séu girðingar eða ár sem myndar varnarlínu. Auk þess að hefta för fjár hafa varnarlínur stjórnsýslulega þýðingu því bannað er að flytja sauðfé yfir varnarlínu án sérstaks leyfis Matvælastofnunar.

Sveitarfélög geta eignast viðkomandi girðingar

Með fækkun varnarlína sem ekki hafa lengur þýðingu vegna dýrasjúkdóma þá fækkar takmörkunum á flutningum fjár yfir varnarlínur og stjórnsýsla tengt leyfisveitingum.

Þegar varnarlínur eru lagðar niður þarf að kanna vilja viðkomandi sveitarfélaga til að eignast girðingar sem um ræðir. Gefa skal aðliggjandi sveitarfélögum kost á að eignast girðingarnar endurgjaldslaust, enda taki þau ábyrgð á að girðing valdi ekki slysum eða tjóni. Að lokinni birtingu nýrrar auglýsingar um varnarlínur mun ráðuneytið gefa viðkomandi sveitarfélögum kost á að eignast viðkomandi girðingar.

Skylt efni: sóttvarnir | varnarlínur

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Fréttir 27. janúar 2026

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum

Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum...

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið
Fréttir 27. janúar 2026

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið

Hjónin Eva Sæland frá Espiflöt í Bláskógabyggð og Óskar Sigurðsson frá Sigtúni í...

Orka án næringar
Fréttir 23. janúar 2026

Orka án næringar

Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri v...

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði
Fréttir 20. janúar 2026

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði

Hinn 29. desember fór fram úthlutun í Múlaþingi úr svonefndum Snorrasjóði en þet...