Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þið fáið aldeilis veðrið!
Mynd / HKr.
Leiðari 3. júlí 2014

Þið fáið aldeilis veðrið!

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Það er alþekkt í sögu okkar Íslendinga og reyndar annarra þjóða að ræða manna á milli um veðrið. Þegar bændur hittast er mjög algengt að ræða um tíðarfarið enda fullkomlega skiljanlegt þar sem bændur eiga allt sitt undir sól og regni. Best er þó að þetta sé allt í hæfilegu hlutfalli og í hófi.

Undan vorinu er ekki hægt að kvarta. Víðast hvar um landið var frábært veður, hlýtt og gott, gróður fór mjög vel af stað sem auðveldaði öll vorverk, t.d sauðburð og jarðrækt. Júnímánuður var hins vegar mjög misjafn eftir landshlutum. Mánuðurinn fór reyndar vel af stað í byrjun og þeir sem áttu tún sem voru tilbúin til sláttar í júníbyrjun náðu úrvalsheyjum. Megnið af júnímánuði hefur þó verið votviðrasamt á suður og vesturlandi en mun betri á norðanverðu landinu.

Knapar og gestir á Landsmóti hestamanna á Hellu hafa ekki farið varhluta af veðrabrigðum undanfarna daga. Mótið byrjaði í góðu veðri á sunnudag en rigning og rok urðu þess valdandi að fresta þurfti dagskrá mótsins á þriðjudag eftir að unglingarnir höfðu riðið eins og hetjur við erfið skilyrði. En eins og við vitum þá stytta öll él upp um síðir og því ekkert til fyrirstöðu að drífa sig á Gaddstaðaflatir við Hellu og skoða bestu kynbótahross og gæðinga landsins.

Hestakostur Landsmótsins nú í ár er nefnilega magnaður, einkunnir úr forkeppnum gæðinga á mótinu staðfesta framför í ræktun og reiðmennsku og sá fjöldi kynbótahrossa sem skráður er til leiks sýnir að mikil framför á sér stað í ræktun kynbótahrossa í landinu.

Hrossaræktin er öflug búgrein innan vébanda Bændasamtaka Íslands og ljóst að mikil gróska er í ræktun íslenska hestsins og í hestamennsku almennt. Aldrei hafa fleiri kynbótahross unnið sér rétt til þátttöku á Landsmóti Það er hins vegar áhugaverð staðreynd, þó svo að kynbótahrossin séu fleiri nú en á síðasta landsmóti, þá komu færri hross til dóms í ár heldur en árið 2012. Samkvæmt samantekt Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins ná 22% sýndra hrossa lágmörkum inn á Landsmót í ár en þetta hlutfall var 14% árið 2012.

Íslenski hesturinn hefur vanist því í gegnum tíðina að vera brúkaður við ýmsar aðstæður og í öllum veðrum. Hann kippir sér því ekki upp við það þó svo að lítillega blotni og blási þegar hann er tekinn til kostanna. Það sama má segja um gesti Landsmóts, áhugamenn um íslenska hestinn mæta til að fylgjast með sínum hestum og knöpum alveg óháð veðurspá.

Gæðastýring og vistvæn vottun

Það er að verða árlegt og alveg óháð veðráttu að Fréttablaðið og aðrir miðlar 365 noti sumarmánuði til að fjalla um landbúnaðarmál, sem er fagnaðarefni. Undanfarna daga hafa miðlarnir fjallað um merkingar og vottanir á landbúnaðarvörum. Gagnrýnt hefur verið að íslenskir búvöruframleiðendur séu að nota vottun um vistvæna framleiðslu sem ekki sé innstæða fyrir.

Þegar reglugerð um þetta var sett á sínum tíma var af hendi BÍ lögð áhersla á að aðgreina vistvæna framleiðslu skilmerkilega frá lífrænni framleiðslu, enda á þeim tíma að kvikna áhugi á hvers konar merkingum og vottunum á búvörum.

Það verður hins vegar að viðurkennast að á seinni árum hefur þessi vottun orðið merkingarlítil, bæði vegna þess að reglubundnu eftirliti hefur ekki verið haldið uppi af opinberum aðilum og ekki hefur verið fylgt eftir þróun og nýjum viðhorfum í merkingum slíkra afurða. Það er því mikilvægt að staldra við og endurskoða slíkar merkingar á búvörum. Bændasamtökin hafa lagt mikla áherslu á upprunamerkingar matvæla og skorast ekki undan ábyrgð í að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Mikilvægt er að neytendur geti treyst öllum slíkum merkingum, viti hverjir framleiðsluhættirnir eru og jafnframt hvernig eftirlitinu er háttað. Þar fara hagsmunir bænda og neytenda vissulega saman.

Gæðastýring í sauðfjárrækt hefur einnig verið til umræðu og þar hefur verið gagnrýnt að það skorti á aðgreiningu lambakjöts til neytenda, hvort um sé að ræða gæðastýrt kjöt eður ei. Þessi umræða er eðlileg og rétt að skýra út hvernig gæðastýringin er til komin.

Í samningi við ríkið um starfskilyrði sauðfjárræktar sem tók gildi 2001 er samið sérstaklega um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er taka átti gildi árið 2003. Markmið gæðastýringar voru að framleiða dilkakjöt eftir kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd.

Með tilkomu gæðastýringar í sauðfjárrækt var lagður grunnur að aukinni fagmennsku og betri búskaparháttum í framleiðslu lambakjöti með því að beina stuðningi ríkisins að hluta til í þann farveg. Á þeim tíma var ekki lagt upp með að aðgreina vöruna til neytenda heldur fyrst og fremst að nýta hluta af fjármunum sauðfjársamnings til að tryggja ákveðna framleiðsluhætti. Umræða undanfarinna daga vekur hinsvegar um upp spurningar um hvort ekki sé komið að þeim tímapunkti að aðgreina gæðastýrða framleiðslu frá annarri framleiðslu eða hreinlega að ganga alla leið, og framleiða eingöngu lambakjöt sem stenst kröfur um gæðastýrða framleiðslu?

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...