Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þarf dugnað, elju, metnað og þekkingu til að lifa af 30 ár í þessum rekstri
Mynd / MÞÞ
Viðtal 29. apríl 2015

Þarf dugnað, elju, metnað og þekkingu til að lifa af 30 ár í þessum rekstri

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það þarf dugnað, elju, metnað og þekkingu bæði á faginu og markaðinum til að lifa af  30 ár í rekstri sem þessum,“ segir Gunnlaugur Eiðsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis.  Fyrirtækið fagnaði í liðnum mánuði 30 ára afmæli sínu, en það var stofnað í mars árið 1985. 
 
Starfsemin hófst í litlum bílskúr á Akureyri og störfuðu eigendurnir, bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, í fyrstu tveir við framleiðsluna ásamt fjölskyldum sínum.
 
Skemmst er frá því að segja að félagið hefur vaxið og dafnað, jafnt og þétt var bætt við húsnæði og það sama má segja um starfsmenn sem nú eru um 130 talsins.  Fyrirtækið flutti alla síns starfsemi að Svalbarðseyri sumarið 2014. Þar hefur félagið komið sér fyrir til framtíðar.
 
Gunnlaugur  segir aðstæður á markaði sífellt harðnandi, samkeppni hafi aukist og miklar kröfur séu gerðar hvað varðar gæði og verð. 
 
„Það er aldrei á vísan að róa á þessum markaði, en það heldur okkur á tánum, bæði eigendum og starfsfólki, afmælisbarnið ber sig vel á þessum tímamótum og er mikill hugur í fólki sem nú stefnir einbeitt inn í næstu 30 árin í sögu fyrirtækisins,“ segir Gunnlaugur.  
 
„Við höfum ávallt haft á að skipa mjög góðu starfsfólki, margir hafa unnið hjá okkur nánast frá upphafi og við erum þakklát fyrir þá tryggð sem okkar fólk hefur sýnt fyrirtækinu.“
 
Framtíðarstaðsetning á æskuslóðum
 
Bílskúrinn, þar sem bræðurnir Eiður og Hreinn bjuggu til pitsur og salöt, varð fljótt of lítill undir starfsemina þannig að fest voru kaup á húsnæði við Fjölnisgötu á Akureyri og síðar, eða árið 1993, keypti félagið hús á Svalbarðseyri, þar sem áður hafði verið sláturhús og kjötvinnsla K.S.Þ. Markvisst var eftir það byggt upp á Svalbarðseyri sem leiddi til þess að síðastliðið sumar var öll starfsemi félagins flutt þangað. Þar hefur félagið yfir að ráða fulkominni aðstöðu og segir Gunnlaugur að inn í þá  ákvörðun að byggja fyrirtækið upp á þeim stað hafi spilað að fyrir hendi eru góðir möguleikar til stækkunar.
„Og það skemmir ekki fyrir að bræðurnir ólust þar upp, þannig að þeir reka nú umsvifamikið fyrirtæki á sínum æskuslóðum.“
 
Gríðarlegur flutningskostnaður
 
Gunnlaugur segir að ef einungis hefði verið horft til peningasjónarmiða og hvernig félagið gæti haft sem mestan ávinning af sinni starfsemi hefði best farið á því að koma því fyrir á höfuðborgarsvæðinu, sem næststærsta markaði landsins.  Á þann hátt losnaði félagið við gríðarlegan flutningskostnað, kostnað sem hleypur á hundruðum milljóna ár hvert. „Fyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu sleppa við þann kostnað og skekkir það samkeppnisstöðuna auðvitað mikið.  En engu að síður var ákveðið að framtíðarstaðsetning Kjarnafæðis yrði á Svalbarðseyri, félagið hefur fundið sér fastan samastað í tilverunni og verður þar um ókomin ár.
 
Bæta stöðu sína á markaði
 
Hin síðari ár hefur Kjarnafæði aflað sér ýmissa leyfa sem gera að verkum að staða þess á markaði er betri.  Þar má nefna útflutningsleyfi sem kemur í kjölfar úttektar MAST þar sem Kjarnafæði uppfyllir matvælalöggjöf Evrópusambandsins en það gefur fyrirtækinu fullt leyfi til að selja íslenskar vörur erlendis. Einnig hefur félagið A-vottun Samtaka iðnaðarins og er eina fyrirtækið á þessum markaði sem státar af slíkri vottun. Gunnlaugur segir að það hafi í för með sér að úttektir á gæðamálum fyrirtækisins séu enn ítarlegri en ella og ábyrðin meiri. Þá er unnið að innleiðingu á alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001 sem byggist á stöðluðum  gæðum þjónustu við viðskiptavini.  
 
„Þau fyrirtæki sem náð hafa A vottun Samtaka iðnaðarins eiga stutt í að ná ISO-vottuninni, en mun enn auka gæði á okkar vörum og þjónustu og í kjölfarið væntanlega tiltrú hugsanlegra viðskiptavina, bæði innanlands og utan.
 
„Það má eiginlega segja að nú á þessum tímamótum hafi litla barnið í bílskúrnum komið sér ágætlega fyrir í lífinu, með góða háskólagráðu á leið í sérnám,“ segir Gunnlaugur.
 
Seldu Norðanfisk og Nonna litla
 
Kjarnafæði hefur um árin átt hlut í nokkrum fyrirtækjum, en þar má m.a. nefna SAH-Afurðir á Blönduósi þar sem stórgripum og sauðfé er slátrað.
 
Þá á fyrirtækið einnig hlut í Sláturfélagi Vopnafjarðar og fær þaðan til að mynda hin víðfrægu Vopnafjarðarsvið, en sérstök aðferð sem menn nota þar á bæ við verkun sviðanna hefur heillað landsmenn. „Hún er gamaldags og góð,“ segir Gunnlaugur. Félagið átti lengi helmingshlut í Norðanfiski, en seldi hann um mitt síðasta ár.  „Það má segja að við séum nú með allan hugann við kjötið og sölu þess. Sala á Norðanfiski og öðru félagi sem við áttum, Nonna litla, var notuð til að fjármagna breytingar sem fylgdu innleiðingu á evrópsku matvælalöggjöfinni. Styrkur sem vilyrði var fyrir til að undirgangast það regluverk fékkst ekki, þannig að við fórum þessa leið,“ segir Gunnlaugur.
 
Skemmtilegur og krefjandi tími
 
Gunnlaugur segir að sala hafi verið mikil um nýliðna páska, enda hefð fyrir því að bjóða upp á páskalamb á þeim árstíma.
 
„Páskalamb er ómissandi á borðum landsmanna ár hvert. Við höfum afskaplega gaman af svona árstíðabundnum törnum, þegar kjötið rýkur út og starfsmenn eru allir í fimmta gír.  Þetta er krefjandi og skemmtilegur tími,“ segir hann en helstu tarnir eru í kringum jól, páska og þorrann, en eiginlega er sumarið allt eins og það leggur sig ein stærsta vertíðin hjá fyrirtækjum sem framleiða kjötvöru.
 
Halda í hefðir yfir hátíðir
 
„Sumarið er okkar stærsta vertíð, Íslendingar eru greinilega sólgnir í grillmat og eru farnir að teygja sig fyrr að vorinu eftir grillinu og pakka því seinna saman fyrir veturinn.  Raunar eru það æ fleiri sem hafa grillið upp allan ársins hring og við erum hæstánægð með það,“ segir Gunnlaugur.
 
Hann segir að þær árstíðabundnu tarnir sem teknar séu hjá fyrirtækinu hafi um tíðina verið hefðbundnar og á þá m.a. við um vöruúrval. „Almennt má segja að fastheldni sé mikil hjá landsmönnum.  Við reyndum fyrir þorrann að hugsa aðeins út fyrir kassann og framleiddum m.a. þorrasultu, sem er kjötsúpa í sultuformi, og einnig grænmetissultu. Hvorutveggja vakti töluverða athygli. Þetta er okkar leið til að sinna þörfum markaðarins og við munum ótrauð halda áfram á þessari braut og bjóða upp á eitthvað nýtt áður en næsti þorri gengur í garð. Breytingar í kringum ýmsar hátíðir gerast hægt, en gerast þó.  Ég nefni sem dæmi að á árum áður vildu langflestir hafa sitt hangikjöt með beini. Nú er einungis lítið brot af okkar hangikjötssölu í því formi, flestir kjósa nú úrbeinaðar hangikjötsrúllur. Enn vilja flestir fá svínahamborgarhrygg sinn með beini, en þeim fjölgar sem vilja fá hann úrbeinaðan. Ef til vill verður þróunin sú að eftir tíu til tuttugu ár kjósi flestir að fá úrbeinaðan hamborgarhrygg,“ segir Gunnlaugur.
 
Nýjungar í boði yfir sumarið
 
Sumarið er fram undan og miðað við aukinn áhuga  landsmanna á grilluðu kjöti má búast við að starfsfólk Kjarnafæðis hafi í nógu að snúast næstu mánuði.
 
„Yfir sumarmánuðina höfum við meira svigrúm en fyrir aðrar „kjöthátíðir“ að vinna að vöruþróun, prófa eitthvað nýtt, því landinn vill mjög gjarnan reyna nýjungar af ýmsu tagi á þeim árstíma. Við ætlum ekki að láta það framhjá okkur fara og eru með eitt og annað í farvatninu,“ segir Gunnlaugur og nefnir m.a. í því sambandi tvær nýjungar, lambaleggi sem tilbúnir eru beint á grillið og svo bógsteik með beini.
 
„Ég er viss um að þessar vörur eiga eftir að slá í gegn,“ segir hann.  Þá má nefna heilar frampartssneiðar, „frábærar sneiðar og alveg til beint á snarpheitt grillið.“
 
Pylsur af öllu tagi rjúka út
 
Gunnlaugur segir Íslendinga sækja mjög í sig veðrið þegar kemur að pylsum ýmiss konar, mikil aukning hafi um árin orðið í pylsukaupum landsmanna.
„Það er bara ljómandi fínt og við fylgjum þeirri þróun og bætum alltaf við okkar vöruúrval, erum t.d. í sumar með fimm nýjar tegundir á boðstólum. Góð grillpylsa er gulls ígildi sem forréttur fyrir góða grillmáltíð. Við erum með ýmislegt í pípunum, en það er ekki rétt að ljóstra því öllu upp strax, menn verða bara að bíða spenntir eftir nýjum vörum frá okkur sem líta munu dagsins ljós þegar líður að sumri.“
 
Spáir góðu grillsumri
 
Önnur breyting sem tengist grillvenjum Íslendinga er að sögn Gunnlaugs sú að æ fleiri kjósa að kaupa grillkjöt sitt kryddað.
 
„Það hefur aukist mjög, fólk vill greinilega hafa kjötið tilbúið og skella því beint á grillið án fyrirhafnar,“ segir hann.  Kjarnafæði hafi um árin verið heppið með kryddblöndur.  Nefnir hann m.a. í því sambandi Heiðarlambið, sem hreinlega hafi slegið í gegn meðal landsmanna og sé ein mest selda vara fyrirtækisins á markaði um þessar mundir. Félagið hafi einnig boðið upp á kryddlegna Argentínu og Brasilíu og hafi báðir átt vinsældum að fagna. Svínvirka segir hann, bæði á grísa- og lambakjöt.  
 
„Ég ætla nú að leyfa mér að vera bjartsýnn og spá því að veðrið í sumar verði einstaklega gott um allt land og landsmenn verði duglegir að standa við grillin sín og auðvitað að rífa í sig grillkjöt frá Kjarnafæði í tilefni af 30 ára afmælinu okkar,“ segir Gunnlaugur. 

5 myndir:

Skylt efni: Kjarnafæði

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...