Svína-, eggja-, og kjúklingabændur hyggjast ráða sameiginlegan talsmann
Bændablaðið greindi frá því á dögunum að félög svína-, eggja- og kjúklingabænda hygðust ráða sameiginlegan framkvæmdastjóra. Í fréttinni var vísað til orða Ingva Stefánssonar, formanns Félags svínabænda, á aðalfundi þeirra.
Í kjölfar birtingar fréttarinnar sendi Ingvi blaðinu eftirfarandi yfirlýsingu sem hér er birt orðrétt og í heild sinni:
„Í Bændablaðinu sem gefið var út þann 9. maí sl. voru fluttar fréttir af aðalfundi félags svínabænda. Í ræðu undirritaðs sem vitnað var í kom m.a. eftirfarandi fram....“að óskað hafi verið eftir því á síðasliðnu sumri að þessi búgreinafélög (eggja-, kjúklinga- og svína) myndu ráða sér sameiginlegan framkvæmdastjóra. Sá framkvæmdastjóri yrði jafnframt talsmaður þessara búgreina“. Hið rétta er að eggja-, og kjúklingabændur hafa nú þegar sinn eigin framkvæmdastjóra. Þannig var rangt af undirrituðum að nota orðið framkvæmdastjóri og réttara hefði verið að nota eingöngu orðið talsmaður eða upplýsingafulltrúi. Hafa hlutaðeigandi aðilar verið beðnir afsökunar á þessu orðavali. Það leiðréttist hér með.
Virðingarfyllst, Ingvi Stefánsson
Formaður Félags svínabænda“