Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sveitastelpa frá Gunnbjarnarholti lærir flutningafræði í Ástralíu
Viðtal 2. október 2015

Sveitastelpa frá Gunnbjarnarholti lærir flutningafræði í Ástralíu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Auður Olga Arnarsdóttir, ung stúlka frá Gunnbjarnarholti,  valdi sannarlega ekki auðveldu leiðina við að afla sér menntunar. Hún fór alla leið til Melbourne í  Ástralíu þar sem hún er að læra mjög svo áhugavert nám er varðar flutningafræði. 
 
Auður er dóttir þeirra hjóna Arnars Bjarna Eiríkssonar og Berglindar Bjarnadóttur í Gunnbjarnarholti á Skeiðum í Árnessýslu. Námið sem Auður er í kallast „Logistics and Supply Chain Managment“ og er kennt í vel þekktum háskóla, „RMIT University of Melbourne“.
 
Nám Auðar er þó ekki eingöngu bundið við skólastofuna því hluti af því er að starfa úti á mörkinni, m.a. með flutningabílstjórum sem flytja m.a. nautgripi langar leiðir í sláturhús. Vegna þessa hefur hún að undanförnu búið í borginni Toowoomba í Queensland en vinnan er 40 mínútur þaðan út í sveit. Þar hefur hún unnið við skráningar og „hands on“ á flutningum gripa. Það er stór hluti af hennar námi og í raun skylda að skila þar inn eins árs verklegum þætti.  
 
Auður er fyrsti nemandinn úr þessu námi sem vildi fara út fyrir borgarmörkin til að öðlast starfsreynslu sem er hluti af náminu „work experience“. Sú leið sem hún valdi sér í starfsnáminu hefur enginn farið áður. Það gat hún gert með því að nýta sér sambönd við aðra Íslendinga sem búa í Ástralíu sem vísuðu henni réttu leiðirnar. Greinilegt er að íslenska ákveðnin hefur skipt þar miklu máli. Bændablaðið setti sig í samband við Auði til að fá frekari fregnir af henni og dvöl hennar í Ástralíu. 
 
Frá Gunnbjarnarholti til Ástralíu
 
„Ég er frá kúabúi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Gunnbjarnarholti, þar sem ég bjó þangað til ég flutti til Ástralíu,“ segir Auður. 
 
„Ég útskrifaðist af viðskipta- og hagfræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir jólin 2010 og fór til Ástralíu í janúar 2011. Þar hef ég svo verið meira og minna síðan, fyrir utan rúmt hálft ár sem ég var heima og svo hef ég auðvitað tekið jólafrí heima. 
 
Þegar ég útskrifaðist stefndi ég á háskóla um haustið og hafði hálft ár til að skoða heiminn, mig hafði alltaf langað til Ástralíu og ákvað bara að skella mér þangað í hálft ár sem varð svo mun lengra en hálft ár.“
 
Byrjaði á stóru kúabúi
 
„Ég byrjaði að vinna á stóru kúabúi í Suður-Ástralíu, þar sem voru að meðaltali 700 kýr mjólkaðar þegar ég var þar og fór mest upp í rúmlega 900. Þar var notuð mjaltahringekja sem tók 42 kýr í einu, þær löbbuðu inn og maður setti mjaltatækin á aftan frá. Síðan var manneskja sem þurfti að taka þau af eða senda þær annan hring eftir því hvað þær mjólkuðu mikið. 
 
Þar var ég í almennum sveitastörfum í næstum eitt og hálft ár og kynntist þar afslappaða ástralska lífsstílnum,  nægjuseminni og hjálpsemi og almennilegheitum allra í kring.“
 
Allt annar lífsstíll
 
„Lífsstíllinn var allt öðruvísi, fólk alltaf komið á fætur fyrir allar aldir, og fólk úr sveitum er yfirleitt ekki að mennta sig mikið. Það er bara mjög ánægt með að eignast fínan jeppa og svo ágætis hús og leyfa sér svo að fara í veiðiferðir eða útilegur.
 
Ég lenti í alls konar ævintýrum þar, til dæmis að vera pikkföst í jeppa í þjóðgarði lengst í burtu, vera við varðeld á ströndinni með góðum vinum, eltast við kengúrur á kvöldin og refaveiðar. 
 
Ég þurfti svo að fara aftur heim, en fann nám í Ástralíu sem mér leist vel á í Royal Melbourne Institute of Technology, sem á íslensku kallast flutningafræði eða Logistics and Supply Chain Management. 
Þetta er fjögurra ára BA-nám, þar sem ég klára fyrstu 2 árin og vinn svo í flutningum eða einhverju tengdu náminu í eitt ár og kem svo aftur í skólann og klára síðasta árið. Þar er okkar kenndur grunnur í viðskiptafræði fyrsta árið, með stærðfræði, bókhaldi, markaðsfræði, hagfræði, lögfræði í þessum almennu tímum, en á öðru ári förum við að sérhæfa okkur meira. Þar lærum við birgðastjórnun, innkaup, þjónustuflutninga, birgðastjórnunargreiningu og lærum hvaða tækni er í boði fyrir allt þetta. Það er mikið af hugtökum og mun meiri hugsun á bak við þetta allt en maður heldur. Þeir kenna okkur og reyna að undirbúa okkur undir alvöruna með krefjandi verkefnum, oft í hópum og byggt á raunverulegum vandamálum. 
 
Verkefnin eru mjög oft þannig að maður velur fyrirtæki sjálfur og greinir vandamálin og reynir að koma með hentugar lausnir í þeim hlutum sem við erum að læra. 
 
Eitt skiptið áttu allir í bekknum að koma með dæmi um skort á einhverju og það fyrsta sem mér datt í hug var smjörskorturinn á Íslandi fyrir ein jólin. Kennarinn var í svo miklu sjokki yfir þessu að öll kennslustundin fór í að tala um mjólkurframleiðslu á Íslandi.“ 
 
Vildi tengja námið þekkingunni úr sveitinni
 
„Þar sem ég var með mikla bakgrunnsþekkingu úr sveitinni og hef ekki unnið við margt annað en sveitastörf, vildi ég blanda því við mína vinnureynslu. Skólinn er hins vegar í miðborg Melbourne sem er lítið tengd sveitinni. Þegar ég ákvað að taka vinnuárið með í gráðuna mína fór ég og talaði við kennarann sem sá um þetta. Ég sagði honum að ég vildi vinna við flutning á nautgripum, því ég hafði jú séð ótölulegan fjölda risatrukka sem voru endalaust að flytja nautgripi. Ég vildi læra hvernig það væri að vinna með trukka sérstaklega í Ástralíu, landi sem stólar á góða trukkaflutninga vegna stærðar.“ 
 
Eitthvað sem enginn hafði áður gert
 
„Kennarinn vildi hjálpa mér en gerði mér grein fyrir því að svona vinnu­reynslu hefði enginn annar farið í og spurði hvort ég væri viss um þetta. Hvort ég vildi ekki sækja um vinnu hjá þessum venjulegu stóru „fínu“ fyrirtækjum í Melbourne, eins og General Motors, Nissan, Mercedes Benz, L'oreal og þess háttar. Ég sagðist myndi skoða þetta en innst inni vildi ég blanda sveitareynslunni inn í námið, því það er ekkert grín að flytjast úr sveit í stórborg eins og Melbourne. Ég þurfti því oft að fara í helgarferðir í gömlu sveitina mína til að ná hreinlega að draga andann, og hafa ekki endalaust af fólki, háhýsum og bílum í kringum mig. Svo var ég svo heppin að kynnast frábæru fólki frá Íslandi í Melbourne sem hafði sambönd í því sem mig langaði að gera. Það kom mér í samband við mann sem hjálpaði mér svo að finna vinnuna sem ég endaði í.“
 
Hóf störf hjá trukkafyrirtæki sem flytur búfé
 
„Ég byrjaði hjá Martins Stock Haulage núna í janúar en það er trukkafyrirtæki sem flytur nautgripi og kindur, og hefur það verið þvílík reynsla. 
 
Við erum með 3 skrifstofur, aðalskrifstofan er í Scone, NSW, önnur í Dubbo, NSW og svo þessi sem ég er á í Oakey, QLD. Frá okkar skrifstofu erum við með í kringum 42–45 trukka sem flytja nautgripi, en hin útibúin flytja líka kindur.“
 
Flytjum þúsund nautgripi á dag
 
„Í Queensland er ekki eins stór markaður og í New South Wales með kindur, allavega ekki á okkar svæði, svo öll okkar vinna er í kringum nautgripi. Við erum að flytja þúsundir daglega. Við erum aðallega að flytja nautgripi af „stöðvum“ í „feedlot“ og svo þaðan í sláturhús eða af mörkuðum og þaðan annaðhvort á stöðvar, feedlot eða sláturhús. 
 
Hér er endalaus fjöldi af nautgripamörkuðum þar sem viðskipti með nautgripi fara fram oft á dag. 
Við erum með 4 menn í fullu starfi bara í Queensland sem fara á nautgripasölur og tala við viðskiptavinina og skipuleggja trukka eftir því hvað þeir kaupa mikið á hverjum markaði. Á stærstu mörkuðunum fara í gegn í kringum 7.000 til 8.000 gripir í hverri einustu viku nánast allt árið um kring. Stundum getur það þó verið aðeins minna og fer það eftir veðri, þurrkum og þess háttar.“
 
Mest flutt á B-Double trukkum
 
„Stærðirnar hérna á öllu eru svakalegar. Við erum að flytja yfir 300 gripi daglega fyrir suma í sláturhús. Flestir trukkarnir eru svokallaðir B-Double en það er algengasta trukkasamsetningin í Ástralíu fyrir lengri flutninga. Aftan í hvern trukk er hengdur 20 feta vagn að framan og 40 feta vagn að aftan. Slík æki eru leyfð á langflestum vegum. Þegar bílarnir eru ekki að fara í borgir eða á staði með stærðartakmörkum, sem sagt lengra vestur eða norður þaðan sem við erum, þá eru þeir oft B-Triple. Sú samsetning er 20 feta vagn, 20 eða 30 feta vagn og aftast 40 feta vagn. Þegar þeir fara svo enn lengra vestur verða þeir oft „roadtrain“ en þá eru þeir með tvo til þrjá 40 feta vagna og þegar þeir eru fullhlaðnir eru þeir oft að brenna 1 lítra af dísilolíu á hverja 850 metra.
 
Ég hef verið heppin með vinnuna mína, að því leyti að mér hefur verið sýnt allt, eða svo marga hluti af fyrirtækinu. Ég byrjaði þar sem flutningarnir eru skipulagðir og flutti mig svo í bókhaldið, þar sem ég aðstoðaði við reikninga, sá um alla pappírsvinnuna frá bílstjórunum og fleira. Nú er ég komin aftur í skipulagninguna. Þótt ég geti ekki enn gert það sjálf, fylgist ég með og læri á alla staðina.
 
Þetta er allt gert upp úr einni bók deginum áður en verkefnin eru bókuð. Þar eru verkefnin skráð niður og tekið fram hversu marga trukka þarf. Svo eru ferðir trukkanna skipulagðar eftir því hvar þeir voru deginum áður og hvernig planið þeirra er. 
 
Okkar stærstu dagar eru sunnudagar og sumir bílstjórar fara ekki heim í mánuð en það er yfirleitt þeirra val. Oftast er þó miðað við frí aðra hverja helgi. Takmarkið er auðvitað að láta þá keyra sem minnst tóma og passa upp á að þeir fari ekki yfir hvíldartímana sína í akstri. Þeir eru oft að fara svakalegar vegalengdir. Sumir gripir eru því að ferðast í flutningabíl í kringum 2.000 kílómetra, bara til að fara í sláturhús. Um daginn fór einn bílstjóri 4.000 kílómetra með naut en slíkt gerist víst einu sinni á ári. 
 
Við flytjum ekki gripi sem fara í útflutning. Það þarf alls konar leyfi, eins og fyrir gripi til Evrópu, Rússlands eða Sádí-Arabíu.  Þeir fara þó yfirleitt í sláturhúsið fyrst og kjötið er svo selt í útflutningi. 
Við erum með verkstæði þar sem eru 14 bifvélavirkjar og suðumenn eru í fullri vinnu, bara við að skoða trukkana og vagnana og laga það sem þarf. Hver trukkur er skoðaður að meðaltali einu sinni í mánuði en það fer eftir aldri, það er alltaf verið að endurnýja og fá nýja inn.“
 
Allt landsbyggðarfólkið í kúrekastígvélum, gallabuxum og með kúrekahatt
 
Til að fylla inn í helgarnar er mikið um rodeo og þess háttar, og hér eru allir bændur og fólk „úti á landi“ í kúrekastígvélum, gallabuxum, skyrtum og með kúrekahatt. Margir af okkar bílstjórum eru til dæmis með gömul meiðsli eftir að hafa dottið af nautum þegar þeir kepptu í rodeo og hér hlusta nánast allir á kántrítónlist.
 
Þetta er stundum bara alveg eins og maður hefur séð í bíómyndum. Svona er lífið allavega hérna núna. Þetta ár hefur mikið farið í að elta uppi rodeo, útihátíðir og kántrítónleikahátíðir. 
Ég hef ekki enn ákveðið hvað ég stefni á eftir að ég útskrifast, ætla að láta það ráðast. Það væri gaman að fá meiri reynslu og kunnáttu í þessu, en Ástralía er mjög langt í burtu. Ég sé því bara til hvort ég færi mig kannski aðeins nær þegar ég hef fengið meiri reynslu,“ segir þessi eldhressa, unga sunnlenska kona.
 

13 myndir:

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...