Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ingunn Jónsdóttir, annar af verkefnisstjórum „Umhverfis Suðurland“, segist vera nokkuð umhverfissinnuð, hún flokkar t.d. sitt rusl, keyrir um á rafmagnsbíl og  notar fjölnota poka svo eitthvað sé nefnt.
Ingunn Jónsdóttir, annar af verkefnisstjórum „Umhverfis Suðurland“, segist vera nokkuð umhverfissinnuð, hún flokkar t.d. sitt rusl, keyrir um á rafmagnsbíl og notar fjölnota poka svo eitthvað sé nefnt.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf og starf 14. desember 2018

Sunnlendingar fengu „Umhverfis Suðurland“ í afmælisgjöf

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Umhverfis Suðurland er áhersluverkefni á vegum sóknar­áætlunar Suðurlands og er gjöf sveitarfélaganna fimmtán á Suður­landi til íbúanna í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. 
 
Verkefnið gengur út á öflugt árvekni- og hreinsunarátak þar sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög í landshlutanum eru hvött til enn meiri flokkunar og endurvinnslu en nú er, auk þess sem ætlunin er að ráðast í enn meiri almenna tiltekt í landshlutanum og stefnan er sett á að gera Suðurland að umhverfisvænasta landshlutanum.  Ingunn Jónsdóttir í Flóahreppi og Kristín Vala Þrastardóttir hjá Nýheimum á Höfn halda utan um verkefnið. Þær eru með marga samstarfsaðila á svæðinu. Ingunn svaraði nokkrum spurningum um verkefnið.
 
– Hvað kemur til að það var ákveðið að fara út í þetta verkefni?
„Mörg sunnlensk sveitarfélög hafa staðið framarlega þegar kemur að umhverfismálum, byrjuðu snemma að flokka rusl og almennt látið sig þessi mál varða. Umhverfismál er STÓRA málið í dag eins og sést á fjölmiðlaumfjöllun og á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haustið 2017 en þá var ákveðið að fara af stað með verkefni sem myndi fókusa á umhverfismál. Formlega fór verkefnið af stað í vor og stendur að minnsta kosti fram á vorið 2019 en okkar von er sú að verkefnið haldi áfram í einhverri mynd enda ekki hægt að horfa á umhverfismál sem átaksverkefni heldur mál sem við verðum að fara að taka alvarlega alla daga ársins í allri okkar hegðun.“ 
 
Árvekniverkefni
 
– Hvað hafið þið verið helst að gera og hvernig hefur gengið?
„Verkefnið er í grunninn svokallað árvekniverkefni sem gengur út á almenna fræðslu um umhverfismál  í mjög víðu samhengi og að hvetja Sunnlendinga til breyttrar og bættrar hegðunar þegar kemur að þessum stóra málaflokki. Við settum strax í loftið vefsíðu þar sem hægt er að fræðast um umhverfismál, lesa fréttir og skoða viðburðardagatal og sú síða tengist að sjálfsögðu einnig Facebook-síðu með sama nafni. 
Við sendum einnig út mánaðarlegt fréttabréf þar sem við leggjum áherslu á eitt ákveðið þema fyrir hvern mánuð og leggjum til hugmyndir hvernig hægt er að vinna með þessi þemu og hvetjum sveitarfélögin, félagasamtök og íbúagrasrótir til þess að standa fyrir viðburðum á sínu svæði sem við svo aðstoðum við að koma á framfæri og miðla fréttum af,“ segir Ingunn.
 
– Þið eruð með sérstakt verkefni í verslunum á svæðinu, út á hvað gengur það og hvernig viðbrögð hafið þið fengið við því ?
„Já, við erum endalaust að reyna að hugsa upp leiðir til þess að vekja athygli á verkefninu og hvað það stendur fyrir. Eitt af stóru umhverfismálunum er að hvetja fólk til þess að vera meðvitaðir neytendur og okkur datt í hug að það gæti verið góð leið til þess að ná til fólks að setja upp lítil fróðleiksmolaskilti í verslunum þar sem við t.d. bendum á að „það þurfi helmingi minna af þvottaefni en maður heldur“ og að „brúnir bananar séu bestir í búst“ og fleira í þeim dúr. Þessi skilti hanga hér og þar um verslanirnar og vonandi vekja fólk til umhugsunar um leið og það minnir á verkefnið sjálft. Það skemmtilega var að þegar við fórum af stað til þess að ræða við þær keðjur sem eru með verslanir á Suðurlandi, kveiktu þær á hugmyndinni og vildu allar vera með. Það eitt og sér segir okkur líka hversu stór umhverfismálin eru þegar verslanir sjá sér hag í því að taka þátt.“
 
Nýtnivika
 
– Þið eruð líka með skemmtilegt verkefni núna, „Nýtnivika á Suðurlandi“, út á hvað gengur það og hvernig hefur til tekist?
„Þema nóvembermánaðar var „notað og endurnýtt“ en þar erum við líka að horfa til annarra viðburða og verkefna sem verið er að vinna úti um allan heim í umhverfismálum. Dagana 17.–25. nóvember var í gangi „evrópska nýtnivikan“ sem miðar að því að fólk líti sér nær og skoði hvað það á nú þegar áður en það fer að kaupa nýtt. Má laga/breyta/bæta það sem fyrir er og draga þannig úr sóun hluta sem enn eiga inni líftíma. Þessa daga stóð t.d. starfsmannafélag Fjölheima á Selfossi fyrir fataskiptimarkaði. Hann gekk út á það að fólk gat komið með föt á markaðinn og skilið eftir og tekið önnur í staðinn, allt ókeypis. Fólk gat líka komið og fengið föt eða bara skilið eftir föt, allt eftir því hvað hentaði og þau föt sem urðu eftir í lokin voru færð Nytjamarkaðinum á Selfossi.  Á Höfn var haldinn svokallaður Viðgerðar­hittingur en þá getur fólk komið saman og fengið aðstoð við að gera við hluti eða fatnað og lært hvernig á að bera sig að við slíkt, bæði mjög skemmtileg verkefni sem tókust vel.“ segir Ingunn.
 
– 1. desember var merkilegur dagur hjá verkefninu, hvað var gert í tilefni dagsins?
„Það er rétt en 1. desember er fullveldisafmælið en það er einmitt kveikjan að þessu verkefni. Hugmyndin var að Suðurland „færi í sparifötin“ fyrir afmælið og hvöttum við fólk til þess að hreinsa til í sínu nánasta umhverfi. Enn og aftur þá snýst okkar þáttur mest um að kveikja í öðrum til þess að fara af stað og við sjáum ekki betur en að þó nokkur félagasamtök og sveitarfélög hafi gripið boltann á lofti. Skipulögð var strandhreinsun í Vík og plokkarar í gulum vestum sáust meðfram þjóðvegum og göngustígum.“ 
 
Spennandi verkefni á nýju ári
 
– Er eitthvað meira fram undan á þessu ári og ertu farin að skipuleggja eitthvað á nýju ári?
„Við munum halda áfram að koma með nýtt þema fyrir hvern mánuð og svo erum við með eitt mjög spennandi verkefni á prjónunum sem vonandi fellur í kramið. Ég vil ekki segja of mikið en það gengur út á að hjálpa fólki að stíga sín fyrstu skref við að verða umhverfisvænni í sínu daglega lífi … en kannski með smá tvisti!“
 
Áhersla á að íbúar sveitarfélaganna séu meðvitaðir um þetta verkefni 
 
– Hvernig hefur gengið að fá sveitarfélögin til að taka þátt og hvað leggja þau aðallega til verkefnisins?
„Við leggjum áherslu á að íbúar sveitarfélaganna séu meðvitaðir um þetta verkefni og sendum fréttabréfið á öll sveitarfélög og formenn umhverfisnefnda sveitarfélaganna. Við höfum einnig verið að bjóða sveitarfélögunum að setja „hnapp“ inn á heimasíður sínar sem tengist beint á Umhverfis Suðurland-síðuna og þau eru nokkur komin með slíkt. Það er mjög misjafnt hversu virk sveitarfélögin eru og mörg eru að gera ýmislegt þó þau láti okkur ekki alltaf vita af því. En dropinn holar steininn og því sýnilegri sem við erum því meiri krafa ætti að koma frá íbúunum sjálfum um að þeirra sveitarfélag taki á sínum umhverfismálum,“ segir Ingunn enn fremur.
 
–En hvað er skemmtilegast við verkefnið?
„Hingað til hefur verið skemmtilegast að sjá hin ýmsu félaga- og grasrótar­samtök íbúa um allt Suðurland taka boltann og skipuleggja alls­ konar viðburði í tengs­lum við þemun okkar. Þá erum við að tala um strandhreinsunar­viðburði og aðra hreinsunarviðburði í tengslum við Alheims­hreins­unar­daginn í september; diskó­súpu­viðburði í tengslum við matar­sóunarþema í október og núna fataskiptimarkaði og viðgerðar­viðburði í tengslum við nýtni og endurnýtingar- þemað í nóvember. Fyrir mig persónu­lega þá hefur þetta verkefni gert mig meðvitaðri á svo miklu stærri skala en áður, sem er bæði skemmtilegt en líka erfitt. Það er svo auðvelt að pæla bara ekkert og halda áfram að lifa lífinu eins og allt sé bara í góðum gír. En þegar maður veit betur þá er það ekki lengur hægt,“ segir Ingunn að endingu. 

4 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...