Styrkir til garðyrkjubænda vegna lýsingar í gróðurhúsum
Búnaðarstofa Matvælastofnunar hefur úthlutað styrkjum til uppsetningar á lýsingarbúnaði í gróðurhúsum. Umsóknir frá þremur aðilum bárust og skipta þeir með sér heildarframlagi ársins, rúmlega átta milljónum.
Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að unnið hafi verið í samræmi við gildandi aðlögunarsamning um starfskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og samsvarandi reglugerð.
„Árið 2016 bárust þrjár umsóknir og hlutu þær allar afgreiðslu og var samanlagður áætlaður kostnaður við uppsetningu á lýsingarbúnaði í gróðurhúsum samkvæmt innkomnum umsóknum krónur 53.850.000 á grunnfleti sem nemur alls 3.264 fermetrum. Samkvæmt reiknireglum um úthlutun styrkja hefði heildarstyrkupphæð þurft að vera 10.978.200 krónur vegna umsókna í ár.
Heildarframlag skv. fjárlögum 2016 er kr. 8.000.000, en eftir stóðu kr. 340.146 frá fyrra ári. Heildarframlag styrkja var því 8.340.146 krónur að þessu sinni. Í nýjum búvörusamningum sem taka gildi um áramót er ekki gert ráð fyrir frekari lýsingarstyrkjum, og því er þetta að öllum líkindum í síðasta skipti sem þeim er úthlutað,“ segir í tilkynningunni.