Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ásgeir Pétursson, loðdýrabóndi í Helgadal í Mosfellsbæ, segir að í áformum norsku stjórnarinnar felist bullandi hræsni varðandi umhverfismál.
Ásgeir Pétursson, loðdýrabóndi í Helgadal í Mosfellsbæ, segir að í áformum norsku stjórnarinnar felist bullandi hræsni varðandi umhverfismál.
Fréttir 26. janúar 2018

Stórundarlegt og dæmi um hræsni segja íslenskir og danskir loðdýrabændur

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslenskir loðdýrabændur sem og danskir hafa áhyggjur af þeirri stefnu norskra stjórnvalda að leggja niður loðdýraræktina fyrir árið 2025. Bent er á að í henni felist mikill tvískinnungur hvað varðar náttúruverndarsjónarmið frjálslynda flokksins Venstre.

Tage Petersen, formaður samtaka loðdýraræktenda í Danmörku, segir á vefsíðu Kopenhagen Fur að það sem er að gerast í Noregi sé ófyrirgefanlegt. Sérstaklega þar sem norskir loðdýrabændur séu nýbúnir að fá stuðningsyfirlýsingu frá norska Stórþinginu um að haldið verði áfram stuðningi við sjálfbæran loðdýrabúskap í landinu.

„Þetta er stórundarleg U-beygja sem við erum að heyra að tekin hafi verið í Noregi. Við verðum bara að bíða og sjá hvort þetta muni raunverulega ná fram að ganga þegar ríkisstjórnin leggur fram þessar tillögur í þinginu.“

Segir Petersen að bæði norski forsætisráðherrann, Erna Solberg, formaður Hægri flokksins (Höyre með 25% fylgi) og Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins (Fremskrittspartiet með 15,2% fylgi), hafi lýst því yfir að samkomulagið við  frjálslynda flokkinn Venstre (með 4,4% fylgi) um að leggja niður loðdýraræktina sé gert með mikilli eftirsjá. Þær segi að þetta hafi þó verið nauðsynlegt til að ná samkomulagi um stjórnarmyndun.

Tvískinnungur og undarlegt að smáflokkur fái svo mikið vægi

Ásgeir Pétursson, loðdýrabóndi í Helgadal í Mosfellsbæ, er einn af frumkvöðlunum í loðdýraræktinni á Íslandi og hóf rekstur 1971. Hann lærði loðdýrabúskap í Noregi og segist ekki skilja að flokkur sem sé með svo lítið fylgi á bak við sig fái að komast upp með að leggja niður heila búgrein. Þá byggi þeir hugmyndafræði sína á meintri náttúruvernd, en séu með þessu að láta banna framleiðslu á hreinni náttúruafurð sem aðallega er notuð í fatnað. Á sama tíma tíma þyki þessu fólki ekkert athugavert við að ganga í flíspeysum og öðrum fatnaði sem að stærstum hluta er framleiddur úr plastefnum sem unnin eru úr olíu. Þetta sé ekki síst athyglisvert í ljósi nýlegrar rannsóknar í Noregi sem sýndi að skeldýr og aðrar lífverur við strendur landsins eru orðnar uppfullar af örplasti. Er ástandið verst nyrst í Noregi þar sem örplastið safnast saman. Í rannsókninni kom einmitt í ljós að mest af örplastinu var ættað úr fatnaði.

Þá bendir Ásgeir einnig á að loðdýrabúskapur, allavega eins og hann er rekinn á Íslandi, sé að fullnýta afgangs matvæli frá veitingahúsum, sláturhúsum og afskurð frá fiskvinnslu í fóður fyrir dýrin. Þannig sé verið að búa til verðmæta vöru og um leið að koma í veg fyrir matarsóun.

Ættu frekar að líta á vistvænan lífsstíl forfeðranna

Ásgeir segir að þegar náttúru­verndarsamtök hafi farið í óvægna herferð gegn loðdýraræktinni 1988 hafi þau verið styrkt til þess af olíufélögum sem hafi m.a. hagsmuni af framleiðslu á plasti sem notað er í fatnað. Enda hafi  olíufélögin verið undir hótunum frá náttúruverndarsamtökum um að birta myndir af náttúruspjöllum í  umhverfi olíuhreinsunarstöðva, sér í lagi í Bandaríkjunum og Bretlandi. Segir hann að í Bretlandi hafi náttúrusamtökum líka tekist að fá verkamannaflokkinn til að loka loðdýrabúum í upphafi tímabils Tony Blairs sem forsætisráðherra.

Segir Ásgeir að ef menn meini eitthvað með náttúruvernd, þá ætti menn frekar að líta til fortíðar. Forfeður okkar hafi lifað algjörlega á því sem náttúran gaf af sér, m.a. dýrum sem gáfu þeim mat og skjólflíkur. Öll þessi efni hafi horfið aftur inn í náttúrulega hringrás og þessir forfeður okkar hafi ekki skilið eftir sig plast og kemísk efni sem séu nú að eyðileggja náttúruna og heimshöfin. Í baráttu þessa fólks sem nú vilji kenna sig við náttúruvernd og gangi um í flíspeysum og íþróttafatnaði úr polyester, terlíni og akrílefnum, felist því bullandi hræsni. 

Gæti haft keðjuverkandi áhrif

Einar Eðvald Einarsson, loðdýra­bóndi á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, segist hugsi út af því sem er að gerast í Noregi.

„Ef þetta gengur eftir þá má ímynda sér að þetta gæti haft einhver skammtímaáhrif á markaðsverðið en síðan mun núverandi framleiðsla í Noregi færast til annarra landa, bara spurning hvert og þá hvaða reglur gilda um framleiðsluna í því landi en síðustu ár hefur verið mestur vöxtur í greininni í Kína, en þar eru yfirhöfuð engar aðbúnaðarreglur fyrir loðdýr.  Þá vöru eiga Norðmenn hins vegar að hafa leyfi til að kaupa áfram því ekki stendur til að banna innflutning á skinnum eða skinnavörum.

Í Noregi var nýbúið, eða fyrir rúmu ári síðan, að setja í lög nýja aðbúnaðarreglugerð af stjórnvöldum og í framhaldinu var blásið til sóknar um sjálfbæra loðskinnaframleiðslu þar í landi með velferð dýranna í fyrirrúmi. Þessi skyndilegi viðsnúningur er því ótrúlegur og ótrúlegt að flokkur með fjögurra prósenta fylgi og er sem varadekk í stjórn með tveim öðrum stjórnmálaflokkum geti sett svona baráttumál algerlega á oddinn án nokkurra raka, það er alvarlegt mál.

Langtímaáhrifin af svona banni og vinnubrögðum eiga eftir að koma í ljós en eftir því sem fleiri lönd banna framleiðsluna án gildra röksemda og vegna þrýstings frá öfgahópum þá eykst hættan á að þetta gerist í öðrum löndum og ekki síður í öðrum framleiðslugreinum landbúnaðar,“ segir Einar.

Sem dæmi má nefna að andstæðingar loðdýraræktar í Hollandi hafa þegar knúið það fram að loðdýraræktin leggist af þar í landi á næstu árum með þeim rökum að skinn sé óþarfa vara og að til séu önnur efni sem fólk geti notað í föt.

„Ég held að fólk sé ekki alveg að hugsa þetta rétt. Það má t.d. nefna öll flísfötin eða plastefnafötin sem eru í notkun. Það liggur fyrir að þau menga mikið og að plastagnir fara út í umhverfið í miklu magni við t.d. þvott og daglega rýrnun þeirra.  Skinn er hins vegar náttúruvara sem mengar ekki og eru framleidd með hráefnum sem falla til við vinnslu á matvælum úr fisk- og sláturiðnaði. Meirihluti þessara hráefna væri urðaður ef við værum ekki að nota hann í fóður í dag og það er umhverfisvænt og dæmi um framleiðslu á náttúruvöru með betri nýtingu á lífrænum úrgangi og þar með minni urðun.“

Fimm bú að hætta og þar af tveir stjórnarmenn í SÍL

„Skinnamarkaðir hafa verið mjög erfiðir síðustu ár, eða frá 2014, þótt árin 2016 og 2017 hafi verið langverst með skilaverð til bænda langt undir framleiðslukostnaði.  Ekki hjálpar íslenska krónan en sem dæmi þá hækkaði skinnaverð í erlendri mynt árið 2017 um rúm 11% en á sama tíma styrktist íslenska krónan um 14 % þannig að íslenskir bændur upplifðu ekki þann bata sem markaðurinn gaf heldur enn eina lækkunina í skilaverði,0148,“ segir Einar.

Vegna erfiðleika sem skapast hafa þá hættu nú um áramótin tvö minkabú í Vopnafirði, tvö í Eyjafirði, þ.e. á Grenivík og í Svarfaðardal, og eitt bú í Skagafirði ásamt því að einhverjir fækkuðu. Þetta eru fimm bú en auk þeirra hafa fleiri hætt síðustu tvö ár og þeirra á meðal er frumkvöðullinn Reynir Barðdal, sem rak Loðfeld á Sauðárkróki. Aðrir reyna að halda sjó í von um að úr rætist.

Meðal þeirra loðdýrabænda sem nú eru að hætta rekstri er sjálfur formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), Björn Halldórsson á Akri í Vopnafirði. Þá hætti stjórnarmaðurinn Skarphéðinn Pétursson á Hrísum í Svarfaðardal sínum loðdýrabúskap nú um áramótin. Einar segir að litlar fregnir berist af söluhorfum á markaði en næsta skinnauppboð á Kopenhagen Fur er í byrjun febrúar.
„Uppboðshúsið hefur farið mjög varlega í yfirlýsingar,“ segir Einar.

„Skinnaframleiðendur eru ekki mjög bjartsýnir á að verð á skinnum komi til með að hækka mikið á næstunni þar sem enn virðist vera mikið til af óseldum skinnum og síðan er íslenska krónan ennþá um 20% of sterk sem skemmir enn frekar samkeppnistöðu íslenskra bænda,“ sagði Einar að lokum.

Skylt efni: Loðdýr

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.