Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá undirskrift samningsins um stofnræktun á útsæðiskartöflum. Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, Oddur M. Gunnarsson, forstjóri Matís og Sæmundur Sveinsson, sérfræðingur hjá Matís
Frá undirskrift samningsins um stofnræktun á útsæðiskartöflum. Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, Oddur M. Gunnarsson, forstjóri Matís og Sæmundur Sveinsson, sérfræðingur hjá Matís
Mynd / Ísey Dísa Hávarsdóttir
Fréttir 16. júní 2022

Stofnræktun á útsæðiskartöflum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bændasamtök Íslands og Matís hafa gert með sér samkomulag um vefjaræktun á stofnútsæði kartaflna. Í samkomulaginu felst að Matís framkvæmi verkþætti sem snúa að vefjaræktun kartaflna, meðal annars að taka vaxtarsprota, vefjaræktun, spírun þeirra og veiruprófun.

Axel Snæland, formaður deildar garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands, segir að samkomulagið feli í sér að Matís taki að sér að sjá um vefjaræktun á stofnútsæðiskartöflu.

„Deild garðyrkjubænda innan Bændasamtakanna stóð fyrir gerð samningsins við Matís, sem felur í sér vefjaræktunarhluta stofnræktunar útsæðiskartaflna. Verkefni Matís felur í sér að skila af sér vefjaræktuðum útsæðiskartöflum, Premier, Gullauga, Helga og Rauðar íslenskar, sem eru lausar við veirur og sjúkdóma, eins og til dæmis kláða og hringrot. Auk þess sem kartöflurnar eru valdar með tilliti til útlits.“

Tilgangurinn með vefjaræktun á kartöflum er að tryggja að við eigum áfram hér á landi sjúkdóms- fríar kartöflur.

„Því miður er það svo að víða um heim eru sjúkdómar í kartöflum landlægir og margir þeirra sjúkdóma geta borist hingað til lands og valdi miklum skaða ef við gætum þess ekki að hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ segir Axel.

Yrki í almennri ræktun

Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, segir að fjögur yrkin sem um ræðir séu þau yrki sem hafa verið í stofnútsæðisræktun og almennri ræktun hér á landi.

„Stofnútsæðisræktendur hér á landi eru þrír, Birgir Hauksson í Sigluvík og Einar Grétar Jóhannsson, Eyrarlandi við Eyjafjörð og Bjarni Hákonarson í Dilksnesi við Hornafjörð. Vinna við verkefnið er hafið þrátt fyrir að seinkanir hafi orðið, til dæmis á afhendingu ræktunarklefa.“

Stofnútsæðisbændur velja gæðakartöflu
Vefjaræktunarklefi Matís. Mynd / Sæmundur Sveinsson

Í heild tekur stofnræktunarferlið þrjú ár og fer þannig fram að stofnútsæðisbændurnir velja bestu kartöflurnar úr sinni stofnrækt og afhenda sérfræðingum Matís, sem síðan sjá um að taka vefjasýni til áframræktunar í húsnæði Matís.

„Næsta vor taka fyrrnefndir stofnræktunarbændur við um það bil 2.300 vefjaræktuðum hnýðum frá Matís til framhaldsræktunar og er miðað við að hnýðin séu að meðaltali 15 grömm. Það er síðan í þeirra höndum að fjölga þeim næstu árin og reiknað er með að þær verði í boði fyrr almenna kartöflubændur árið 2026,“ segir Axel.

Vefjaræktun á æti

Sæmundur Sveinsson, sérfræðingur hjá Matís, sér um verkefnið fyrir hönd Matís.

Spírur á æti Mynd / Sæmundur Sveinsson

„Eftir að kartöflurnar, sem vonandi eru smitfríar, komu í mínar hendur, lét ég þær spíra og tók svo spírurnar og sótthreinsaði þær og drap allar örverur sem voru utan á þeim. Því næst voru spírurnar skornar í nokkra bita með brumi og bitarnir settir á æti í glerflöskum sem inniheldur plöntuvaxtarhormón eins og auxin, giberalín og kínetín. Á þessu skeiði eru plöntuvísarnir aldir í glerskáp með lýsingu og þannig er verkefnið statt í dag. Næsta skref verður síðan að skipta plöntunum upp og athuga hvort þær séu ekki örugglega lausar við veirusmit og fjölga þeim í þann fjölda sem samningurinn gerir ráð fyrir. Ég skila svo af mér litlum plöntum í næringarhlaupi í áframræktun til stofnkartöfluræktenda til gróðurhúsaræktunar í mold næsta vor ef allt gengur eftir,“ segir Sæmundur.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...